fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Starfsgreinakynning fyrir grunnskólanemendur

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum stendur fyrir árlegri starfsgreinakynningu fyrir grunnskólanemendur á Suðurnesjum fimmtudaginn 26. september frá kl. 9 – 12 í Íþróttahúsinu í Keflavík og stefnir í að um 100 ólíkar starfsgreinar verði þar kynntar.

Starfsgreinakynningin hefur verið haldin reglulega frá árinu 2012 og og er framkvæmd hennar í höndum Þekkingarseturs Suðurnesja. Markmið starfsgreinakynningarinnar er að efla starfsfræðslu grunnskólanemenda í 8. og 10. bekk og stuðla að sambærilegri fræðslu fyrir alla á svæðinu. Kynningin er einnig mikilvægur þáttur í því að auka starfsvitund og skerpa á framtíðarsýn ungs fólks.

Mjög vel hefur gengið að skipuleggja og halda kynningarnar, ekki síst vegna mikillar velvildar fyrirtækja og einstaklinga á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Sömu aðilar hafa tekið þátt ár eftir ár og gefið tíma sinn. Án þessa mikla stuðnings atvinnulífsins væri ómögulegt að halda kynningu sem þessa, sem er þýðingarmikil fyrir alla sem að henni koma – nemendur, skóla og fyrirtæki. Öflug náms- og starfsfræðsla er sérstaklega mikilvæg til að auka líkur á því að nemendur velji það framhaldsnám sem þeir hafa mestan áhuga á og hentar þeim best. Rétt val dregur úr líkum á brotthvarfi úr námi sem hefur verið of mikið hér á landi síðustu ár. Þá styrkir kynning sem þessi tengsl atvinnulífs og skóla sem skipta miklu máli, sérstaklega þegar kemur að iðn- og starfsnámi sem og námi í tæknigreinum.