Tvö verkefni af Reykjanesi hljóta Erasmus+ styrk
Tvö stór og metnaðarfull verkefni af Reykjanesi hafa hlotið styrk úr Erasmus+ sem er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál. Annars vegar fékk Reykjanes jarðvangur úthlutað styrk á sviði leik-, grunn- og framhaldsskóla uppá rúmar 320 þúsund evrur fyrir verkefnið Upcycling as a way to generate less waste and create value-added products in a creative way og hins vegar Reykjanesbær á sviði fullorðinsfræðslu uppá tæpar 300 þúsund evrur fyrir verkefnið bASic Stem compETences for migrantS.
Á haustmánuðum voru 14 samstarfsverkefni í Erasmus+ valin úr hópi metnaðarfullra umsókna sem bárust Landskrifstofu fyrr á árinu og var þeim hleypt af stokkunum með opnunarfundi í lok október. Þau marka tímamót því þetta eru fyrstu samstarfsverkefni nýs tímabils í Erasmus+ og endurspegla áherslur þess vel.
Í Erasmus+ er lögð áhersla á fjögur forgangsatriði: inngildingu, sjálfbærni, stafræna færni og virka þátttöku. Nýju samstarfsverkefnin hafa þau að leiðarljósi og leitast er við að finna nýjar leiðir og verkfæri á þessum sviðum.
Að þessu sinni voru 14 umsóknir samþykktar af þeim 24 sem bárust. Þær koma frá öllum skólastigum og vettvangi æskulýðsmála. Meðal annars er um að ræða svokölluð smærri verkefni, en þau eru ný af nálinni og er ætlað að auðvelda aðgengi að Evrópusamstarfi fyrir þær stofnanir og samtök sem vilja taka þátt í Erasmus+ á einfaldaðan hátt. Fjórar umsóknir á sviði leik-, grunn- og framhaldsskóla hlutu styrk í þetta skiptið, sex á sviði starfsmenntunar, ein á sviði háskóla, ein á sviði fullorðinsfræðslu og tvær á sviði æskulýðsmála. Þær hlutu alls rúmlega 3 milljónir evra.