Ungir frumkvöðlar af Suðurnesjum
Nemendur úr Háaleitisskóla, Njarðvíkurskóla og Stóru-Vogaskóla hlutu verðlaun og viðurkenningar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2025.
Alls fengu þrjár hugmyndir frá skólunum á suðurnesjum viðurkenningu og 15.000 króna verðlaun hver. Háaleitisskóli átti tvær hugmyndir í lokakeppninni, þar á meðal forritað rafmagnsdýr sem dillaði rófu og gelti. Hugmynd sem vakti mikla athygli og gleði meðal viðstaddra á lokaviðburðinum sem fór fram í Háskólatorgi. Rafmagnsdýrið var hugsað sem hjálpartæki fyrir fólk til að kanna hvort það væri tilbúið að eignast alvöru gæludýr. Hin hugmyndin frá Háaleitisskóla var pappakassatölva, einföld, ódýr og umhverfisvæn lausn fyrir forvitna nemendur.
Njarðvíkurskóli og Stóru-Vogaskóli áttu einnig hugmyndir í lokakeppni sem hlutu verðlaun og viðurkenningar. Nemendur úr öllum þremur skólunum sýndu framúrskarandi hugmyndaauðgi og sköpunarkraft í hugmyndum sínum.