fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Uppbyggingarsjóður úthlutar styrkjum fyrir árið 2023

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur úthlutað styrkjum fyrir árið 2023.

Umsóknir sem bárust voru samtals 80 talsins og hljóðuðu  styrkbeiðnir upp á tæplega 220 milljónir króna. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs úthlutar nú 48.000.000 til 40 verkefna.

Umsóknir jukust um 35 % milli ára og er það mjög ánægjulegt.

Úthlutunarhátíðin var haldin í Stapanum föstudaginn 3.febrúar. Þar var styrkjunum úthlutað til verkefnanna sem urðu  fyrir valinu í ár.

Í athöfninni söng Jóhann Smári Sævarssson óperusöngvari með undirspili sonar síns Sævari Helga Jóhannssyni. En Jóhann Smári  hefur starfað sem óperusöngvari í yfir 30 ár og sungið einsöngshlutverk í um 85 óperuuppfærslum víða erlendis og hér heima. Hann er stofnandi Norðuróps sem hlaut styrk í úthlutuninni í ár.

Skiptingin milla flokka var með þessum hætti:

Verkefni í flokknum stofn og rekstur fá úthlutað 6.300.000. kr.

Verkefnin í flokknum menning og listir fá úthlutað 19.300.000. kr.

Að lokum fær flokkurinn atvinnu- og nýsköpun úthlutað 22.400.000. kr.

Menningarverkefnið Safnahelgi á Suðurnesjum er með þriggja ára samning og fær nú úthlutað annað árið af samningnum eða  kr. 3.000.000.

 

Eftirtalin verkefni hlutu styrk:

 Flokkur: Stofn og rekstur.

Uppbygging á Bakka – áframhald innanhúss. Umsækjandi: Minja- og sögufélag Grindavíkur. Verkefnastjóri: Marta Karlsdóttir.

Bakki er talin vera ein sú elsta uppistandandi sjóverbúð á Suðurnesjum. Það þarf að koma því í gott ástand. Búið er að gera það upp að utan en nú það þarf að gera það upp að innan og ætlar félagið að klára það. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000.

Óskabrunnarnir þrír í Innri Njarðvík. Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri: Gunnar Ellert Geirsson.

 Markmiðið að koma seinni tveimur brunnum af þremur í upprunalegt horf svo þeir njóti þeirrar virðingar og verndar sem þeir eiga skilið.  Með því að skapa þessa þrjá segla í Innri Njarðvík og tengja núverandi heilsustígakerfi er verið að búa til heildstæða upplifun með skírskotun í merkilega sögu svæðisins. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.

SJÁVARSÝN – Ljósmyndasýningar í Grindavík. Umsækjandi: Grindavíkurbær. Verkefnastjóri: Eggert Sólberg Jónsson.

Í Grindavík verður sett upp ljósmyndasýning utanhúss sem stendur frá vori fram á haust. Ætlunin er að setja upp árlegar ljósmyndasýningar sem tengjast sögu og menningu Grindavíkur á einn eða annan hátt. Leitast verður eftir því að fá ljósmyndara eða listafólk úr Grindavík til þess að sýna verk sýn fyrir almenning. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.000.000.

Vélasafn Guðna á Trukknum. Umsækjandi: Suðurnesjabær. Verkefnastjóri: Margrét Ingibjörg Ásgeirsdóttir.

Markmið verkefnisins er að koma vélavögnum á 60 vélum úr Vélasafni Guðna Ingimundarsonar frá Garðstöðum í Garði í það horf að hægt verði að flytja þær til í sýningarsalnum og stilla upp svo gestir geti skoðað þær gaumgæfilega. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000.

Vita- sjóslysasýning við Reykjanesvita – þróun 2023. Umsækjandi: Hollvinasamtök Reykjanesvita og nágrennis. Verkefnastjóri: Eiríkur P. Jörundsson.

Við Ísland og ekki síst við Reykjanes hafa orðið margir skæðir sjóskaðar. Ætlunin er að setja upp lifandi og fræðandi sýningu sem tengir saman hlutverk vita og sögu sjóskaðanna. Sérstök athygli verður vakin á sögu Reykjanesvita.  Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.1.000.000.

Flokkur: Menning.

Söguskilti 150 ára skólahalds í Vogum. Umsækjandi og verkefnastjóri: Hilmar E Sveinbjörnsson.

Markmið verkefnisins er að setja 150 ára skólasögu byggðarinnar fram á plaköt almenningi til sýnis. Í tilefni af 150 ára afmæli skólahalds í sveitarfélaginu hefur verið tekið saman efni og skrifað um sögu skólans. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 250.000.  

Merking gamalla húsa í Garðinum.  Umsækjandi og verkefnastjóri: Ásgeir Magnús

Hjálmarsson.

Verkefnið snýst um að varðveita og skrásetja sögu gamalla húsa í sveitarfélaginu Garði í Suðurnesjabæ. Mikilvægt er að vernda þá sögu og kynna hana fyrir komandi kynslóðum og íbúum í sveitarfélaginu ásamt ferðamönnum sem heimsækja Garðinn. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000.

Dans og söngvakeppni. Umsækjandi og verkefnastjóri: Gunnhildur Gunnarsdóttir.

Markmið verkefnisins er að hvetja ungmenni til þess að stíga út fyrir þægindarammann og æfa sig í því að koma fram. Einnig er markmiðið að aðstoða ungt fólk við það að koma sér á framfæri í tónlist og dansi. Keppnin er fyrir ungmenni á Suðurnesjum á aldrinum 10-16 ára. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000.

Suður með sjó. Umsækjandi og verkefnastjóri: Páll Ketilsson.

Með sýningu sjónvarpsþáttanna Suður með sjó er verið að vekja athygli á fjölbreyttu mannlífi í sinni víðustu mynd á Suðurnesjum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 900.000.

Kynning á bókmenntaarfinum. Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri: Stefanía Gunnarsdóttir.

Markmið verkefnisins er að kynna bókmenntaarfinn, minna á gamla og góða höfunda og bókmenntaverk, kynna yngri höfunda og verk þeirra, leggja áherslu á læsi og mikilvægi lesturs og auka með því þekkingu almennings á bókmenntum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 900.000.

 

Útilistaverk og arkitektúr – virðisauki menningarverðmæta. Umsækjandi: Markaðsstofa Reykjaness. Verkefnastjóri: Þuríður H. Aradóttir Braun.

Verkefnið miðar að því að miðla upplýsingum og þekkingu á menningarverðmætum sem liggja í útilistaverkum og byggingarlist á Suðurnesjum. Með verkefninu er upplýsingum um þau útilistaverk sem hafa verið sett upp á svæðinu safnað á einn stað og miðlað upplýsingum um þau, uppruna þeirra, hönnun og sögu.Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.300.000.

Nýárstónleikar Gala í Reykjanesbær. Umsækjandi og verkefnastjóri: Alexandra Chernyshova.

Markmið verkefsins er að er að bjóða upp á metnaðarfulla tónleika í Reykjanesbæ á nýju ári. Styðja klassíska tónlist, heimatónlistarfólkið okkar og auka fjölbreytni í menningarlífi Reykjanesbæjar. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 400.000.

Óður til Reykjaness. Umsækjandi og verkefnastjóri: Jón Rúnar Hilmarsson.

Markmiðið er að sýna og kynna landslag og náttúru Reykjaness í kvikmynd með fallegri umgjörð frumsamdrar tónlistar og hins vegar með veglegri ljósmyndasýningu á Ljósanótt 2023 sem yrði afrakstur ljósmyndunar í ca. 10 ár. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000.

70 ára afmælistónleikar Karlakórs Keflavíkur. Umsækjandi og verkefnastjóri: Jón Ragnar Gunnarsson.

Í tilefni af 70 ára afmælis Karlakórs Keflavíkur þann 1. desember 2023 verður blásið til tónlistarveislu í Hljómahöll í nóvember 2023. Á tónleikunum verður farið yfir sögu karlakórsins í máli og myndum en aðaláherslan verður lögð á tónlistina. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000.

 Samkomuhúsið Kirkjuhvoll. Umsækjandi: Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps. Verkefnastjóri: Helga Ragnarsdóttir

Markmiðið með verkefninu er að varðveita sögulegar minjar í Sveitarfélaginu Vogum og miðla áfram til komandi kynslóða. Byggingarsagan verður varðveitt ásamt sögu hússins og notenda þess. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000.

Menningarmiðlun á Reykjanesi með leikjakerfi Locatify. Umsækjandi og verkefnastjóri: Stefanía Gunnarsdóttir.

Markmið verkefnis er að virkja menningarmiðlun á nýjan hátt á Reykjanesi þar sem fólk er hvatt til þess að keyra á milli byggðarlaga og njóta menningar og náttúru

með símtæki í hönd.

Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 250.000.

Þjóðsögur og sagnir á Suðurnesjum. Umsækjandi: Reykjanes jarðvangur. Verkefnastjóri: Þuríður H. Aradóttir Braun.

 Verkefnið snýr að því að safna saman þjóðsögum, sögnum og sögum úr samfélaginu og áningarstöðum um Reykjanesskagann og tengja þær áningarstöðum. Markmiðið er að gera þær sýnilegri fyrir íbúa og gesti svæðisins og gefa þeim þannig tækifæri á að fræðast um svæðið og upplifa staðina á annan hátt í gegnum menningararf svæðisins. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000.

Baun: Barnamenning í Reykjanesbæ. Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri: Halla Karen Guðjónsdóttir. Flokkur: Menning.

Verkefnið lýtur skapa vettvang fyrir fjölskyldur á Suðurnesjum til að njóta listsköpunar barna og með börnum með skemmtilegum viðburðum og sýningarhaldi þeim að kostnaðarlausu. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.

Alþjóðlegi menningarklúbbur Suðurnesja. Umsækjandi og verkefnastjóri: Ásta Kristín Guðmundsdóttir.

Markmiðið er að ná sem flestum aðilum inn í félagið sem hafa ólíkan bakgrunn og menningu til að skapa fjölbreytta upplifun sem víkkar sjóndeildarhring og byggir undir umburðarlyndi allra. Leitast er við að virkja meðlimi félagsins í að taka að sér verkefni sem snertir þá og þeirra áhugamál í vonum um að viðburðirnir verði fjölbreyttir og nái til breiðs hóps bæjarbúa. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000.

Frumflutningur á lögum eftir Kristínu Matthíasdóttur. Umsækjandi og verkefnastjóri: Guðrún Snæbjörnsdóttir.

Markmiðið er að kvennakórinn Grindavíkurdætur frumflytji fullmótaða tónleikadagskrá með sönglögum eftir Kristínu Matthíasdóttur, í útsetningu Bertu Drafnar Ómarsdóttur. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.

Myndlistarskóli Reykjaness. Umsækjandi og verkefnastjóri: Gunnhildur Þórðardóttir.

Verkefnið Myndlistarskóli Reykjaness mun bjóða börnum jafnt sem fullorðnum nemendum á Suðurnesjum upp á fjölbreytt nám á sviði myndlistar, hönnunar og handverks, lista- og menningarsögu til að efla persónulega, listræna tjáningu en einnig stuðla að almennri menntun og meðvitund um gildi lista og menningar fyrir samfélagið. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000.

Norðuróp, Hátíðarkór-Óperustúdíó. Umsækjandi: Norðuróp. Verkefnastjóri: Jóhann Smári Sævarsson.

 Aðal takmarkið er að styrkja grunninn fyrir flutningi á klassískri tónlist, skapa tækifæri fyrir allt frábæra listafólkið sem býr á Suðurnesjum en hafa lítil tækifæri á að stunda list sína. Gera Suðurnesin að leiðandi afli á þessu sviði með sterku óperustúdíói og hátíðarkór.

Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000.

Tónleikaröð í Hvalsneskirkju. Umsækjand og verkefnastjóri: Magnea Tómasdóttir.

Markmið verkefnis er að auka fjölbreytni í klassísku tónleikahaldi á svæðinu.   Samfélagslegur ávinningurur er sá að fólk á Suðurnesjum getur sótt tónleika með helstu listamönnum þjóðarinnar í heimabyggð. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000.

Hið hverfula. Umsækjandi og verkefnastjóri: Berta Dröfn Ómarsdóttir.

Markmiðið er að flytja fjölbreytta dagskrá tónverka fyrir sópran og gítar í Grindavík.

Á efnisskránni eru verk sem ekki hafa verið flutt á Íslandi áður. Berta Dröfn Ómarsdóttir sópran og Svanur Vilbergsson gítarleikari flytja fjölbreytta efnisskrá í Grindavíkurkirkju. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 300.000.

Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Fjölþætt heilsuefling 65+ á Suðurnesjum. Umsækjandi og verkefnastjóri: Janus Friðrik Guðlaugsson.

Megin markmið verkefnisins er að efla heilsu og velferð eldri aldurshópa í Reykjanesbæ og Grindavík með þátttöku í fjölþættri heilsueflingu, ráðgjöf um næringu og heilsufarsætti þannig að hinir eldri geti lengur tekist lengur á við athafnir daglegs lífs (ADL), dvalið lengur í sjálfstæðri búsetu og komið í veg fyrir eða seinkað of snemmbærri innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.000.000.

Fróðleiksfúsi. Umsækjandi: Þekkingarsetur Suðurnesja. Verkefnastjóri: Daníel Guðmundur Hjálmtýsson

Verkefnið Fróðleiksfúsi er gagnvirk og skemmtileg leið fyrir yngri gesti Þekkingarseturs Suðurnesja til að kynnast náttúru og lífríki Íslands og um leið safngripum setursins. Verkefnið mun skapa og endurbæta afþreyingu í nærsamfélaginu og auka á heimsóknir innlendra sem erlendra gesta í Þekkingarsetrið og Suðurnesjabæ. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.000.000.

Öryggiskrossinn – The Safety Kross. Umsækjandi: Mannvirki og malbik ehf. Verkefnastjóri: Sigurður Ingi Kristófersson.   

Verkefnið lýtur að þróun Öryggiskrossins sem  er ný tegund merkinga til að loka flugbrautum og akbrautum tímabundið. Varan er hönnuð og handunnin á Suðurnesjum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.

Íslenski málhljóðamælirinn – áframhaldandi þróun í máltækni. Umsækjandi og verkefnastjóri: Bryndís Guðmundsdóttir.

Markmiðið er að þróa nýjan greiningar- og þjálfunarhluta í forrit fyrir spjaldtölvur; Íslenska málhljóðamælinn sem metur framburð íslensku málhljóðanna með byltingarkenndum hætti. Forritið verndar grunninn að tungumálinu okkar með aðferðum nýsköpunar og hugvits sem hefur verið leiðandi á Suðurnesjum með víðtækum samfélagslegum áhrifum fyrir landið allt. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000.

Víkingar í sýndarveruleika. Umsækjandi: Víkingaheimar ehf.
Verkefnastjóri: Ingibjörg Björnsdóttir

Verkefnið Víkingar í sýndarveruleika felur í sér uppsetningu á gagnvirkri sögusýningu í Víkingaheimum í Reykjanesbæ. Hér er um að ræða áhrifaríka sögu- og upplifunarsýningu sem segir á nýstárlegan hátt frá róstursömum atburðum til forna. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.000.000.

Vöruþróun og markaðssetning á nýrri vöru. Umsækjandi: Litla brugghúsið. Verkefnastjóri: Guðjónína Sæmundsdóttir.

Verkefnið lítur að þróun og markaðssetningu á nýjum bjór sem mun eiga skírskotun í eldgosin sem hafa komið á Reykjanesinu síðustu 2 ár.  Einnig verður þróuð gjafapakkningmeð 5 bjórum frá brugghúsinu sem visa í í staðarhætti á svæðinu. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.250.000.

Vistbók – gagnagrunnur vistvænna byggingarefna.Umsækjandi: Rósa Dögg Þorsteinsdóttir. Verkefnastjóri: Svala Jónsdóttir.

Vistbók er fyrsti og eini gagnagrunnur byggingarefna á íslenskum markaði fyrir umhverfisvænni byggingariðnað. Það sem gerir Vistbók sérstaka er að hún beinir lausnum sínum að aðilum innan byggingagreirans og er hönnuð sem tól í átt að grænni byggingariðnaði. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.000.000.

Markaðsátak Matarbúðin Nándin – plastlaus matarbúð. Umsækjandi: Urta Islandica ehf. Verkefnastjóri: Guðbjörg Lára Sigurðardóttir.

Matarbúðin Nándin er plastlaus Matarbúð sem selur vörur frá íslenskum smáframleiðendum í plastlausum umbúðum sem mega fara í heimamoltu. Einnig er hún búin að koma upp hringrásarkerfi fyrir allar sínar glerumbúðir sem hægt er að skila aftur í Matarbúðina og glerið er þvegið, sótthreinsað og endurnýtt. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000.

Kaup á dósavél. Umsækjandi og verkefnastjóri: Steinþór Júlíusson.

22.10 ehf. er handverksbrugghús í Grindavík. Fyrirtækið framleiðir bjór og tekur á móti hópum í bjórsmakk og kynningu. Komin er þörf á að fjárfesta í dósavél. Dósavél myndi auka sölu, framleiðslu og sýnileika fyrirtækisins. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.250.000.

Aerobooking.net. Umsækjandi og verkefnastjóri: Sverrir Örn Leifsson.

Markmið verkefnisins er að færa þjónustu fyrirtækisins Flugbókun sf. inn á alnetið. Fyrirtækið hefur það að markmiði að hækka þjónustustig fyrirtækja í ferðaþjónustu og auka á sama tíma framlegð fyrirtækja innan þess geira. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000.

Mengun sjávar rannsökuð á Suðurnesjum. Umsækjandi og  verkefnastjóri: Halldór Pálmar Halldórsson

Með verkefninu er verið að festa í sessi og jafnframt efla sérstöðu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum í rannsóknum á mengun sjávar. Undanfarin ár hefur byggst upp einstök þekking og sérhæfing í eiturefnavistræði sem miklir möguleikar eru á að auka.. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.

Innleiðing sýndarveruleikabúnaðar til þjálfunar. Umsækjandi og verkefnastjóri: Jón Guðlaugsson.

Markmið verkefnisins er að kaupa og innleiða notkun á öruggum búnaði í þjálfun fyrir slökkviliðsmenn og almenning sem ekki hefur heilsuspillandi áhrif að auka færni og möguleika slökkviliðsmanna með því að stórauka aðgengi þeirra að þjálfun sem byggir á nýjustu tækni. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.

Kertavita,  fimm vitar í Suðurnesjabæ. Umsækjandi: Suðurnesjabær. Verkefnastjóri: Margrét Ingibjörg Ásgeirsdóttir.

Markmiðið er að kynna fyrir íbúum, almenningi á Íslandi, íslenskum og erlendum ferðamönnum að í Suðurnesjabæ eru 5 vitar, því mjög margir hafa áhuga á vitum og þeir eru sérkenni á hverjum stað fyrir sig.  Vitarnir eru í formi vaxkerta, minjagripir, bæði fyrir ferðamenn og íbúa. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000.

Stakkur lífnet. Umsækjandi: Stakksfjörður ehf. Verkefnastjóri: Jón Helgason.

Verkefnið lýtur að öryggi allra þeirra sem sækja eða vinna við jarðböð og aðra staði þar sem ekki sést til botns. Verkefnið mun einfalda leit og björgun. Stuðla að stórbættu öryggi á og við þau vötn böð og lindir sem ekki eða illa sést til botns , með styttingu leitar

og björgunartíma um meira en 50% miðað við núverandi útbúnaði sem eru notaðir.

Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.900.000.