Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands verður fagnað á næsta ári með fjölbreyttri dagskrá um land allt. Kallað verður eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna með tillögum að verkefnum á hátíðardagskrána sem standa mun allt árið 2018. Nefnd sem Alþingi skipaði til að annast undirbúning og framkvæmd afmælishátíðarinnar hefur hafið störf.
Dagskrá afmælisársins mótuð af landsmönnum
Nefndin leggur áherslu á að ná til sem flestra landsmanna. Til að ná því fram verður kallað eftir fjölbreyttum og vönduðum verkefnum á dagskrá afmælisársins. Meðal annars verður lögð áhersla á samstarfsverkefni og verkefni með nýstárlega nálgun á viðfangsefnið, hvort sem litið er til fortíðar, nútíðar eða framtíðar. Auglýst verður eftir verkefnum í lok ágúst.
Verkefnaáherslur
Lögð er áhersla á fjölbreytt og vönduð verkefni með nýstárlega nálgun. Litið verður til verkefna sem:
- minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og/eða hafa skírskotun til þess þáttar í sögu þjóðarinnar.
- fjalla um og/eða byggja á fullveldishugtakinu, hvort heldur er í fortíð, nútíð eða framtíð.
- hvetja til samstarfs.
Samstarf getur verið þvert á greinar, milli landsvæða, aldurshópa, þjóðfélagshópa, landa, ólíkra stofnana og félagasamtaka.
- höfða til barna og ungs fólks og eru til þess fallin að auka þekkingu og innsýn þeirra í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið.
- höfða til fjölbreytts hóps fólks og hvetja til almennrar þátttöku.
- draga fram áhugaverða samlíkingu milli fortíðar og nútíðar í sögu lands og þjóðar, s.s. í menntun, heilbrigðismálum, náttúru, umhverfismálum, vísindum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og í daglegu lífi fólks.
- hafa nýstárlega nálgun á þjóðararfinn og/eða á viðfangsefnið.
- eru til þess fallin að vekja athygli á sérstöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.
Ofangreindar verkefnaáherslur útiloka ekki verkefni af öðrum toga hafi þau skírskotun til tilefnisins.