fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Erlendum ríkisborgurum fjölgar mest í Reykjanesbæ

Erlendum ríkisborgurum á Suðurnesjum hefur fjölgað úr 1.890 í 5.170 á sama tíma og fjöldi þeirra af heildaríbúafjölda hefur farið úr 8,8 prósent í 19,8 prósent. Þá hefur erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgað um 89 prósent frá lokum árs 2011 en í dag eru þeir um 40 þúsund talsins, langflestir pólverjar.

Þetta kemur fram í nýlegum tölum Hag­stofu Íslands sem sýna fjölda lands­manna í lok fyrsta árs­fjórð­ungs 2018

Í Reykja­nesbæ hefur orðið spreng­ing á fjölda erlendra rík­is­borg­ara sam­hliða auk­inni þörf á vinnu­afli vegna umsvifa í kringum alþjóða­flug­völl­inn. Í lok árs 2011 voru 1.220 erlendir rík­is­borg­arar í sveit­ar­fé­lag­inu og þeir 8,6 pró­sent íbúa. Í lok mars voru þeir orðnir 3.830 og 21,2 pró­sent íbúa.

Öll fjölgun á Íslandi á fyrstu mánuðum ársins var vegna aðflutnings útlendinga sem eru í dag 11,2 prósent allra íbúa landsins. Því er hlutfall þeirra í Reykjanesbæ töluvert yfir meðaltali.

Reykjanesbær hefur ráðið fjölmenningarfulltrúa til að flýta fyrir aðlögun og um leið auka lífsgæði erlenda ríkisborgara í bæjarfélaginu og hefur hann það hlutverk að greina aðstæður þessa hóps og vinna að aukinni virkni erlendra íbúa í samfélaginu.