fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Minni eftirspurn eftir lánum hjá Byggðastofnun

Verðbólga hefur haft veruleg áhrif á eftirspurn lána hjá Byggðastofnun og hafa lánveitingar dregist saman og rekstur fyrirtækja í byggðum landsins víða þyngst verulega.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Byggðastofnunnar fyrir árið 2022.

Stofnunin hefur eftir megni reynt að bregðast við þessari erfiðu stöðu í landsbyggðunum með vaxtalækkunum nýrra og núverandi lána. Þá er fyrirhugað áframhald reglubundinna heimsókna í alla landshluta til þess að kynna íbúum þau úrræði sem stofnunin hefur úr að spila.

Lánanefnd tók fyrir 242 erindi á árinu sem er áframhaldandi fækkun mála frá árinu 2020. Lánsbeiðnir voru 82, ýmsar skilmálabreytingar og veðbreytingar 112, tilboð í hlutafé og fullnustueignir 6 og aðrar beiðnir tengdar útlánastarfseminni 42 talsins. Til samanburðar voru lánsbeiðnir 112 árið 2021, 158 árið 2020 og 136 árið 2019. Því má ætla að landsmenn hafi að einhverju leyti verið í biðstöðu á síðasta ári á óvissutímum.

Útlán til landbúnaðar og ferðaþjónustu vega langþyngst í lánasafni stofnunarinnar, þar af eru útlán til landbúnaðar nú tæpir 9,5 ma.kr. eins og áður segir og lán til ferðaþjónustu rúmlega 5 ma.kr.

Lánsumsóknir minnstar frá Suðurnesjum

Lánsumsóknir eru áfram minnstar frá Suðurnesjum en í skýrslunni er tekið fram að mögulega hafi þar áhrif betra aðgengi að lánsfjármagni úr viðskiptabönkunum en á öðrum landsvæðum.

Þegar horft er til landsvæða er umsótt lánsfjármagn mest frá Norðurlandi vestra og Suðurlandi. Ástæður má einkum rekja til samsetningar atvinnulífs á þessum svæðum, en landbúnaður og ferðaþjónusta eru þar veigamikil. Lánsumsóknir frá öðrum landshlutum koma svo nokkuð jafnt þar á eftir.

Áfram má reikna með að atvinnulífið sæki minna í fjármagn frá stofnuninni á meðan óvissa er í efnahagsumhverfinu, þ.e. háir vextir, aukin verðbólga og verðhækkanir á aðföngum.

Byggðastofnun mun kynna starfsemi sína og verkfæri hennar sem víðast til þess að nálgast betur íbúa landsbyggðanna. Þá eru áform um að stofnunin muni bjóða sveitarstjórnum allra sveitarfélaga á starfssvæði hennar upp á samtal um hugsanlega samstarfsfleti á hverjum stað fyrir sig.