Strákar hvattir til að bíða ekki með háskólanám
Ný könnun á meðal framhaldsskólanema sem gerð var af Rannsóknum og greiningu fyrir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið leiðir í ljós umtalsverðan kynjamun á áformum stelpna og stráka þegar kemur að innritun í háskóla í haust. Könnunin var gerð í þrettán framhaldsskólum á meðal þeirra nemenda sem stefna á útskrift í vor. Athygli vekur að aðeins 37,6% útskriftarnema í umræddum skólum eru strákar. Þá er áberandi munur á hlutfalli stráka á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu eru strákar nærri 40% af útskriftarnemum en utan þess aðeins 34%. Hlutfallið er lægst á Akureyri og svo á Suðurlandi.
Í könnuninni kemur í ljós að um 43,5% stelpna sem stefna á að útskrifast úr framhaldsskóla í vor segjast örugglega ætla í háskóla strax í haust en aðeins um 37% stráka. Um 11% stráka segjast sennilega ætla í háskóla í haust og um 10,3% segjast ætla í háskóla, en seinna. Töluvert lægra hlutfall stelpna, eða 4,3%, ætla að taka sér tímabundna eða ótímabundna pásu frá námi áður en stefnt er á háskóla.
„Við sjáum ákveðnar vísbendingar um að háskólakerfið endurspegli ekki fjölbreytileika samfélagsins,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála. „Samfélagið er orðið mjög fjölbreytt og við viljum að allir hafi sömu tækifæri til að mennta sig og við verðum að átta okkur á því að kerfið er að bregðast ákveðnum hópum.”
Fleiri dyr opnar að háskólanámi loknu
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur í ljósi þess að enn lægra hlutfall stráka hyggst skrá sig í háskólanám í haust miðað við fyrri ár, ákveðið að fara af stað með átak þar sem fjölbreyttur hópur ungs fólks, sérstaklega stráka, verður hvatt til að sækja um í háskóla áður en umsóknarfrestur rennur út 5. júní nk. Átakið er til viðbótar við markaðssetningu háskólanna sjálfra og beinist að öllum, óháð námsvali og háskólum. Sérstök áhersla verður lögð á að heimurinn stækki við að fara í háskóla og að með háskólanámi fjölgi einstaklingar tækifærum til fjölbreyttari starfa í samfélaginu. Til að ná þessum markmiðum verður notast við raunverulegar fyrirmyndir sem sótt hafa nám í háskóla og koma því til skila til þess hóps sem er óákveðinn eða á leið í ótímabundið námshlé að það sé áríðandi að fara í háskóla og að fleiri dyr atvinnulífsins standi þeim opnar að námi loknu.
Hlutfall karlkyns háskólanema hvergi jafn lágt
Áslaug Arna hefur undanfarnar vikur bent á þá staðreynd að á Íslandi hefur mun færra fólk á aldrinum 25-34 ára lokið háskólanámi að meðaltali miðað við hin OECD löndin þar sem hlutfallið er 48%. Hér á landi hafa 42% þessa aldurshóps lokið háskólanámi og skýrist munurinn eingöngu af því hve fáir strákar sækja háskólanám á Íslandi. Hvergi í Evrópu er hlutfall karlkyns háskólanema jafn lágt en hér er það aðeins um 36% miðað við 44% meðaltal í öðrum Evrópulöndum.
Brotthvarf stráka miðað við brotthvarf stelpna fer einnig vaxandi. Árin 2015-2016 var brotthvarf svipað milli kynja en árin 2021-2022 var brotthvarf stráka orðið tvöfalt meira en brotthvarf stelpna. Vitað er að brotthvarf úr framhaldsskólum má rekja til fjölmargra þátta, allt frá leikskólaárum. Það sama er að segja um aðsókn í háskólanám.