fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Kynnisferð til Noregs

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fór í kynnisferð Byggðastofnunar til Noregs um miðjan maí sl. en þátt tóku öll landshlutasamtök auk byggðamálaráðs. Markmiðið var að fræðast um byggðamál í víðu samhengi og efla tengslanetið. Hópurinn dvaldi bæði í Osló og í Þrándheimi og gafst tækifæri til að hitta fjölda sérfræðinga sem starfa innan byggða- og atvinnumála, og/eða í nýsköpunargeiranum í Noregi.  

Meðal þeirra stofnana sem heimsóttar voru var Norræni nýsköpunarsjóðurinn (Nordic Innovation), en markmið sjóðsins er að stuðla að því að Norðurlöndin séu leiðandi í sjálfbærni, nýsköpun og að nýsköpunarfyrirtæki séu samkeppnishæf. Sendiherra Íslands, Högni Kristjánsson og hans starfsfólk í Osló, tók einnig á móti hópnum ásamt íslenskum frumkvöðlum, þeim Valgeiri Magnússyni framkvæmdastjóra auglýsingastofunnar Pipar/TBWA og Erni Thompsen framkvæmdastjóra Arctic Trucks en þeir hafa haslað sér völl í atvinnulífi í Noregi. Í þeirri heimsókn hitti hópurinn einnig þær Steinunni Þórðardóttur sem er formaður norsk-íslenska viðskiptaráðsins og Sigríði Þormóðsdóttur hjá Standard Norge en þær stöllur greindu frá sínum starfsvettvangi og hugmyndum sínum um möguleika til nýsköpunar á breiðum grunni.