fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Stofnun Fab Lab á Suðurnesjum

Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS), Reykjanesbær (RNB), háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN), mennta- og barnamálaráðuneytið (MRN) og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum undirrituðu samstarfssamningu um rekstur stafrænnar smiðju, s.l. miðvikudag þann 14. júní. Fab Lab Suðurnesja verður staðsett í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Fab Lab Suðurnes fékk einnig styrk úr Sóknaráætlun Suðurnesja og Byggðaáætlun.

Markmið með starfsemi Fab Lab Suðurnes í Reykjanesbæ er að auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, almennings og innan atvinnulífs á persónumiðaðri nýsköpunarvinnu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að styðja við þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og auka tæknilæsi, skapandi starf og frumkvöðlamennt. Markmið verkefnisins er enn fremur að skapa vettvang fyrir þróun og prófun hugmynda og efla þannig samkeppnishæfni í nærsamfélagi.

Stefnt er að því að Fab Lab Suðurnes í Reykjanesbæ verði hluti samstarfsnets Fab Lab smiðja á Íslandi og tengist jafnframt alþjóðaneti Fab Lab smiðja, Fab Foundation við Massachusetts Institute of Technology (MIT). Þeim samstarfsvettvangi er ætlað að tryggja þekkingaryfirfærslu og faglega þróun starfsmanna.

Framkvæmdastjóri S.S.S., Berglind Kristinsdóttir flutti ávarp fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesja. Í ávarpi hennar kom m.a. fram að þörf væri á að styrkja samkeppnisstöðu íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum. Ein leið að því markmiði er að setja upp Fab Lab stafræna smiðju en Suðurnesin var eini landshlutinn á Íslandi sem ekki bauð íbúum sínum aðgengi að slíkri smiðju.

Róttækar breytingar í samfélagi og atvinnulífi kalla á breytingar í menntamálum. Á Suðurnesjum eru mjög öflug fyrirtæki í ólíkum atvinnugreinum sem reiða sig á tækninýjungar. Þar má nefna líftæknifyrirtæki, orkufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki, flugtengd fyrirtæki, ferðaþjónustu og verslanir svo eitthvað sé nefnt.

Við okkur blasa tækifæri til að nýta innviði og þekkingu fyrirtækja á Suðurnesjum til að efla unga fólkið og aðra íbúa til að vera skapandi þátttakendur í tækniuppbyggingu framtíðarinnar.

Ljósmyndari Fjölbrautaskóla Suðurnesja tók myndirnar er fylgja þessari frétt.