fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Brimketill hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Ferðamálastofa veitti Reykjanes Geopark Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2023 fyrir uppbyggingu við Brimketil skammt vestan Grindavíkur. Um er að ræða áhugaverðan ferðamannastað á Suðurnesjum þar sem hægt er að sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu þegar brimið skellur á klettunum. Öldugangur og ytra álag hefur smátt og smátt mótað bolla og katla í basaltið. Þarna má sjá Brimketil sem er sérkennilegur ketill í sjávarborðinu sem minnir helst á heitan pott á sólríkum degi. Áður gat skapast mikil hætta þegar fólk fór út á úfið hraunið sem er sprungið og gróft með úfnum jöðrum og yfirborði.

Áhersla á aukið öryggi og bætt aðgengi

Um er að ræða framkvæmdir til að bæta öryggi og aðgengi ferðamanna. Nauðsynlegt þótti að skilgreina aðkomu að áningarstaðnum ásamt því að útbúa útsýnispall og stíga sem falla að landslaginu. Reykjanes Geopark hefur hlotið fimm styrki frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir Brimketil. Í upphafi var unnið deiliskipulag fyrir svæðið umhverfis Brimketil þar sem lögð var áhersla á bætt og öruggara aðgengi. Í framhaldi var útbúinn útsýnispallur, bílastæði afmarkað, göngustígur mótaður ásamt skiltum með upplýsingum um svæðið. Nú síðast var farið í að stækka útsýnispallinn ásamt því að að gera hann öruggari og bæta aðgengi. Framkvæmdaverkefnin ríma vel við áherslur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er varða öryggi og bætt aðgengi að ferðamannastað.