fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Ferskir vindar hljóta Eyrarrósina 2018

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar hlaut Eyrarrósina í dag, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í í Egilsbúð í Neskaupstað, heimabæ þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs sem hlaut Eyrarrósina í fyrra. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar, afhenti verðlaunin. Hátíðin Ferskir vindar hefur verið haldin fimm sinnum í sveitarfélaginu Garði, nú síðast í janúar þegar 42 listamenn af 21 þjóðerni tóku þátt.

Forsvarsmenn Ferskra vinda fá tvær milljónir króna í verðlaunafé. Kvikmyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði og listahátíðin Rúllandi snjóbolti á Djúapavogi, sem voru einnig tilnefnd, og hljóta hvort um sig 500.000 krónur í peningaverðlaun.

Markmið Eyrarrósarinnar er að hvetja til fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista á starfssvæði Byggðastofnunar. Viðurkenningin hefur verið veitt frá árinu 2005. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík standa í sameiningu að Eyrarrósinni.