Hljóta UT verðlaun 2025
Tvö fyrirtæki á Suðurnesjum, HS orka og gagnavers- og ofurtölvufyrirtækið atNorth hafa hlotið upplýsingatækniverðlaun Ský árið 2025.
Verðlaunin afhenti forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, við hátíðlega athöfn á UT-messunni í Hörpu í síðustu viku. UT-verðlaunin eru veitt fyrir mikilvægt framlag til upplýsingatækni á Íslandi og voru þau veitt í sextánda sinn í gær.
HS orka hlaut verðlaunin fyrir sjálfvirkt eldgosaviðvörunarkerfi í flokki stafrænnar opinberrar þjónustu. Viðvörunarkerfið er fyrsta kerfið sinnar tegundar í heiminum og eru verðlaunin mikil viðurkenning og um leið staðfesting á mikilvægi þess. Hugbúnaðurinn í kerfinu les inn gögn sem send eru á hverri mínútu frá þrýsti- og hitamæli sem staðsettur er á 850 metra dýpi í borholu 12 í Svartsengi. Hugbúnaðurinn greinir því næst gögnin og ef þrýstimerkið bendir til þess að kvika sé á hreyfingu eru sjálfvirk viðvörunarskilaboð send til Veðurstofu Íslands. Viðvörunarkerfið hefur reynst afgerandi í því að upplýsa Veðurstofuna og Almannavarnir um yfirvofandi eldgos og er kerfið nýtt þar við ákvarðanir um rýmingar.

Fyrirtækið atNorth rekur þrjú stór gagnaver á Íslandi, í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og á Akureyri.
Í umsögn valnefndar UT-verðlaunanna er bent á að gagnaver séu atvinnuskapandi, bæði beint og óbeint og að í kring um þau byggist upp vistkerfi þjónustu á sviði vélbúnaðar, hugbúnaðar og annarra iðnstarfa, auk stoðþjónustu.
Hjá fyrirtækinu starfa nú yfir 170 manns og eru þá ótalin hundruð verktaka sem starfa hérlendis, en fyrirtækið leggur sig fram við að nýta þjónustu verktaka og annarra þjónustuveitenda á svæði hvers gagnavers fyrir sig, jafnt á Íslandi sem erlendis.