Staða Grindavíkur: sviðsmyndir
Stjórnarráðið hefur birt á vef sínum skýrslu um stöðu Grindavíkur og sviðsmyndir fum hvernig Grindavík og samfélag Grindvíkinga verður árið 2035. Skýrslan var gerð að beiðni forsætisráðherra og var unnin af Deloitte þar sem unnið var mat á stöðunni, lagt mat á valkosti til framtíðar og unnin sviðsmyndagreining með það að leiðarljósi að svara spurningunni „Hvernig mun samfélagið í Grindavík og Grindavík þróast til ársins 2035?“
Sviðsmyndavinnan styður við langtímastefnumótun stjórnvalda í málefnum Grindavíkur og er mikilvægt tæki til að meta hversu líklegar ákvarðanir stjórnvalda eru til að skila árangri óháð því hvernig framtíð Grindavíkur þróast.
Eigendur 96% eigna sem gátu selt Þórkötlu hafa þegar gert það. Eftir standa eignir sem nema 2,9 ma.kr. af 74,2 ma.kr. hámarksumfangi kaupa Þórkötlu. Þórkatla treystir á rekstrarlán frá lánveitendum til fjármögnunar rekstrar félagsins og er talið óraunhæft er að vænta eignasölu næstu árin.
Ábyrgðaraðilar meta verðmæti innviða í Grindavík 55,6 ma.kr. Umfang skemmda á innviðum í Grindavík er metið 8,7 – 10,0 ma.kr. Frá mati í apríl 2024 hafa ábyrgðaraðilar hækkað mat á verðmæti innviða um 31 – 33% en mat á skemmdum hækkar um 2 – 3%. Ábyrgðaraðilar áætla að árlegur kostnaður við að viðhalda innviðum og fyrirbyggja frekari skemmdir sé á bilinu 0,5 -1,2 ma.kr. Frá sambærilegu mati í apríl 2024 á kostnaði við viðhaldi innviða og því að fyrirbyggja skemmdir hafa ábyrgðaraðilar hækkað mat um 7-9%.
Íbúakönnun bendir til þess að aðlögun Grindvíkinga á nýjum stað gangi vel og að daglegt líf sé í föstum skorðum. Meiri hluti upplifir þó andlega vanlíðan, helst vegna óvissu um framtíð Grindavíkur. Fjórðungur svarenda íbúakönnunar áformar að flytja til Grindavíkur innan tveggja ára, 12% síðar en tæp 25% hafa ekki áform um að flytja til Grindavíkur.
Grindavíkurbær er órekstrarhæfur vegna óvissu um tekjur og framtíð íbúabyggðar og atvinnurekstrar. Ákveða þarf framtíð sveitarfélagsins a.m.k. fyrir sveitarstjórnarkosningar 2026.
Settar eru upp fjórar mögulegar sviðsmyndir til framtíðar.