fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Taramar hlýtur styrk úr AVS sjóði

Sprotafyrirtækið Taramar hefur hlotið átta milljóna krónan styrk úr AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi til átaks í markaðssetningu á sjávartengdum húðvörum á Bandaríkjamarkað og er um framhaldsstyrk að ræða.

Taramar  sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lífrænum húðvörum sem byggja á lífvirkum efnum úr sjávarfangi og læknajurtum. Fyrirtækið starfar í Sandgerði og hefur frumkvöðullinn Dr. Guðrún Marteinsdóttir unnið með lífverur í hafinu og rannsakað sérstaka eiginleika þeirra sem varð kveikjan að nýrri tegund húðvara.

Alls bárust sjóðnum 64 umsóknir upp á rúmlega 402 milljónir kr.  en umsóknum hefur fækkað nokkuð þar sem sjóðurinn hefur úr minna fjármagni að spila en áður. Þá hafa aðrir sjóðir sem umsækjendur hafa getað leitað í eflst og gengi íslensku krónunnar veldur því að erfiðara er fyrir styrkþega að uppfylla kröfur sjóðsins um mótframlag.

Ráðherra ákvað að styrkja 41 verkefni um 249,3 milljónir kr. Þar af eru 15 framhaldsverkefni og 26 ný verkefni. Ákveðið var að styrkja 11 fiskeldisverkefni um rúmlega 69,7 milljónir kr., en þar af er 12 milljónum kr. varið til að styrkja kynbótaverkefni þorsks, sem allt frá 2006 hefur verið styrkt um 20 til 25 milljónir kr. á ári.

Sex markaðsverkefni voru styrkt um 32,9 milljónir kr. og níu líftækniverkefni um rúmlega 60,1 milljónir kr. Í styrkjaflokknum „veiðar og vinnsla“ er lagt til að styrkja 16 verkefni um 86,6 milljónir kr.