fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Vaxtaverkir á Suðurnesjum

Suðurnesin eru í þeirri öfundsverðu stöðu að allt útlit er fyrir áframhaldandi vöxt atvinnu langt umfram náttúrulega fjölgun íbúa. Hins vegar er hugsanlega komið að því að sveitarfélög þurfi að velja og hafna.

Þetta kom fram í hádegiserindi Sigurðar Guðmundssonar frá Aton JL en hann hefur tekið saman fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum upplýsingar um helstu þætti breytinga mannfjölda og hvað sé framundan fyrir svæðið og sveitarfélög.

Í ljósi þess að umfangsmiklar breytingar hafa orðið á íbúaþróun á Suðurnesjum á undanförnum árum og munu verða það áfram er mikilvægt að einstök sveitarfélög og samtök þeirra hafi yfirlit yfir þær og hvers megi vænta á næstu árum. Þessar breytingar hafa nú þegar haft áhrif á tekjustofna sveitarfélaganna sem og þjónustuþarfir og munu gera það áfram. Áhrifin og væntanleg framvinda eru mismunandi eftir sveitarfélögum þótt þær séu um margt keimlíkar.

Sigurður sagði að áframhaldandi aðflutningur vinnuafls í stórum stíl leiði ekki til sjálfbærra sveitarfélaga. Of mörg ný störf á Suðurnesjum séu í greinum þar sem tekjur eru lægri en landsmeðaltal og of mikill hluti af nýjum störfum eru með lægri tekjur en landsmeðaltal.

Mörg ný verkefni eru á teikniborðinu sem gætu aukið hagvöxt og íbúafjölgun enn meir og nefndi Sigurður þar sem dæmi Auðlindagarð HS Orku, Algalíf, Landeldi Samherja, Grænan iðngarð í Helguvík og áform Kadeco – K64.

Þá sagði Sigurður að mikilvægt væri að fyrirsjáanleg fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli verði betur launuð í framtíðinni, m.a. vegna tækniþróunar en hún gæti leitt til færri starfa þar.

Að lokum sagði Sigurður að sveitarfélög þyrftu að skoða samhengi íbúafjölgunar, tekna og gjalda og spyrja sig spurninga eins og:

• Hvernig fjölgun íbúa er framundan?

• Hvað kostar að vaxa og hvaða tekjur fylgja því?

• Hvaða hagkvæmni stærðar er væntanleg?

• Eru tækifæri til hagræðingar?

• Væri fjárhagslega hagkvæmt að sameina sveitarfélögin frekar?

Sveitarfélög þurfi að bregðast við þessari þróun og svæðið í heild þar sem skoðað verði við hverju megi búast í framtíðinni þegar kemur að uppbyggingu þjónustu sem þau þurfa að annast. Hvað geta þau gert til að hafa áhrif á íbúaþróunina og eru hættur eða áskoranir sem fylgja þeirri þróun?

Upptaka af fundinum