fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Vöxtur í ferðaþjónustu – er maturinn tilbúinn?

Matvælalandið Ísland boðar til ráðstefnu á Radisson Blu  Hótel Sögu 20. mars 2014 kl. 12-16:30
 
Vaxandi fjöldi ferðamanna í heiminum velur áfangastað vegna matarmenningar og upplifunar sem tengist mat með einum eða öðrum hætti. Ferðamönnum á Íslandi fjölgar ört og rannsóknir sýna að matur er eitt af því sem er mönnum hvað minnisstæðast. Til að ræða þessi mál boðar samstarfshópur um Matvælalandið Ísland til ráðstefnu fimmtudaginn 20. mars kl. 12:00-16:30 á Hótel Sögu. Á ráðstefnunni verður fjallað um þróun matarferðamennsku og tækifæri sem hún færir í ljósi þess að Ísland er framleiðandi gæðahráefnis og fjöldi veitingastaða býður upp á spennandi matarupplifun.
 
Að lokinni setningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verður í fyrsta hluta rástefnunnar farið yfir strauma og stefnur í matarferðamennsku:
Sænsk stjórnvöld mörkuðu sér þá stefnu fyrir nokkrum árum að markaðssetja Svíþjóð sem matvælaland. Þeir telja að sú stefna hafi skilað ótvíræðum árangri, m.a. því að erlendir ferðamenn sýna sænskum mat meiri áhuga en áður og að útflutningur matvæla frá Svíþjóð hafi aukist marktækt. Á ráðstefnunni segir Ami Hovstadius frá VisitSweden (markaðsskrifstofa sænskra stjórnvalda) frá þróun matarferðamennsku í heiminum og reynslu Svía af markaðssetningu Svíþjóðar sem matvælalands.
 
Laufey Haraldsdóttir, dósent í Háskólanum á Hólum, greinir frá þróun matarferðaþjónustu á Íslandi og dregur fram helstu lykilstrauma og áhrifavalda í þeirri þróun. Farið verður yfir niðurstöður rannsókna hérlendis á viðhorfum og væntingum ferðamanna til matar og matarupplifunar og skoðað hvernig framboðshliðin mætir þessum væntingum. Einnig ræðir hún um möguleika til frekari uppbyggingar á þessu sviði. Markmiðið er að draga upp heildarmynd af stöðunni sem gæti nýst sem bakgrunnur í stefnumótun hagsmunaaðila í matarferðaþjónustu.
 
Mário Frade, vörumerkjastjóri, Nóa Síríusi, lýsir hvernig þróa má markaðsáætlanir með það að markmiði að höfða til ferðamanna og sýnir dæmi um vel heppnaða markaðsáætlun.
 
Í öðrum hluta ráðstefnunnar verður fjallað um viðbrögð Íslendinga við auknum fjölda ferðamanna, framboð og bolmagn við framleiðslu íslenskra hráefna og veitingaþjónustu og hvernig menningar- og matartengd ferðaþjónusta er að þróast í landinu.
 
Að lokum verða pallborðsumræður þar sem ráðherrar matvæla og ferðaþjónustu og forsvarsmenn ferðaþjónustunnar í landinu, matvælarannsókna og –markaðssetningar leggja sitt til málanna.
 
Ráðstefnustjóri er Kristrún Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Skráning og Dagskrá