Suðurnes 2040
Framtíðaruppbygging atvinnulífs á Suðurnesjum mun að öllum líkindum ráðast að miklu leyti af fjölda alþjóðlegra samgöngutenginga, ekki síst beinna flugtenginga.
Þetta er niðurstaða skýrslunnar Suðurnes 2014 – Sviðsmyndir um mögulega þróun atvinnulífs á Suðurnesjum sem KPMG vann fyrir Isavia, Kadeco – þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Skýrslan var kynnt í Hljómahöll í gær en hún var unnin með stuðningi úr Sóknaráætlun Suðurnesja.
Í henni kemur jafnframt fram einnig muni skipta miklu máli fyrir framtíðaruppbyggingu atvinnulífs hvort áhersla verði lögð á virðisaukandi framleiðslu og þjónustu eða á magn og fjölda.
Í skýrslunni eru dregnar upp fjórar sviðsmyndir sem lýsa mögulegri stöðu í atvinnumálum Suðurnesja árið 2040.
Iðnaðarsvæðið
Í sviðsmyndinni Iðnaðarsvæðið hefur dregið úr mikilvægi ferðaþjónustu og áhersla hefur verið lögð á hverskonar iðnað, á stórum og smáum skala.
Flutningamiðstöðin
Í sviðsmyndinni Flutningamiðstöðin er lögð áhersla á magnflutninga á vörum og farþegum. Farþegum fjölgar áfram og alþjóðleg vöruflutningamiðstöð hefur risið á svæðinu.
Rannsóknarmiðstöðin
Í sviðsmyndinni Rannsóknamiðstöðin er lögð áhersla á nýsköpun og þróun. Þeir ferðamenn sem hingað koma eru helst erlendir skóla- og rannsóknahópar sem heimsækja sprotafyrirtæki og kynna sér stórbrotna náttúru landsins.
Flugborgin
Sviðsmyndin Flugborgin segir frá gríðarlegum vexti í flugumferð um Keflavíkurflugvöll með tilheyrandi aukningu í ferðaþjónustu. Flugvallatengd starfsemi í anda Aerotropolis hefur byggst upp í kringum flugvöllinn með sérhæfðum klösum á sviði þjónustu og afþreyingar.
Við vinnslu skýrslunnar voru tekin viðtöl við ýmsa fulltrúa sveitarfélaganna og aðila úr atvinnulífi Suðurnesja. Því til viðbótar var send út rafræn könnun til fjölmargra aðila sem tengjast atvinnulífi svæðisins. Haldnir voru vinnufundir til að greina drifkrafta atvinnulífs svæðisins og til að skapa grunn sviðsmyndanna. Þeir voru haldnir með breiðri þátttöku sveitarstjórnarmanna,
fulltrúa fyrirtækja, háskóla og stofnana. Sökum mikilvægis flugtengdrar starfsemi í atvinnulífi á Suðurnesjum fær hún sérstakt vægi í sviðsmyndagreiningunni.
Stýrihóp skipuðu Berglind Kristinsdóttir frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Guðný María Jóhannsdóttir, frá Isavia og Sigurgestur Guðlaugsson frá Þróunarfélagi
Keflavíkurflugvallar – Kadeco.
Hér má sjá upptöku frá fundinum í Hljómahöll