400 þátttakendur sóttu ráðstefnu á Reykjanesi
Í byrjun október stóð Reykjanes jarðvangur (Reykjanes UNESCO Global Geopark) að alþjóðlegri ráðstefnu evrópskra jarðvanga í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Alls tóku þátt 400 gestir frá 30 löndum og yfir 190 jarðvöngum og stofnunum sem hlýddu á 230 erindi.
Ráðstefnan stóð yfir í tvo daga með erindum og vinnustofum auk dagsferða um Reykjanes.
Yfirskrift ráðstefnunnar var „Thriving Amidst Nature‘s Tests” sem er tilvísun í seiglu svæða þegar þau bregðast við áskorunum náttúrunnar líkt og samfélagið í Reykjanes jarðvangi sem tekist hefur á við jarðhræringar og tíð eldgos.
Reykjanes jarðvangur á það sameiginlegt með mörgum öðrum jarðvöngum að þurfa að bregðast við náttúruhamförum og vinna að uppbyggingu samfélaga, styrkja innviði og búa til tækifæri til framtíðarþróunar í takti við áskoranir náttúrunnar.
Fjöldi aðila af Suðurnesjum kom að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar og er talið að svipaður fjöldi starfsmanna frá fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu hafi komið með einum eða öðrum hætti að framkvæmd ráðstefnunnar og fjöldi þátttakenda á ráðstefnunni sjálfri.
Það er mat þeirra sem sóttu ráðstefnuna að hún hafi tekist með eindæmum vel og geti allir sem komu að verkefninu verið stoltir af sínu framlagi og þeim ávinningi sem það skilaði bæði í nærsamfélaginu og út fyrir landsteinana.