Átak í markaðssetningu á Reykjanesi
Vegna Covid hefur verið gert átak í markaðssetningu á Reykjanesi til þess að styðja við ferðaþjónustu á svæðinu og hvetja innlenda jafnt sem erlenda gesti til þess að heimsækja Reykjanesið.
Markaðsstofan tók þátt í átaki Ferðamálastofu á vordögum þar sem Íslendingar eru hvattir til þess að ferðast innanlands í sumar og kaupa vörur hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Auglýsingastofan Brandenburg heldur utan um verkefnið og er efni þess hugsað þannig að það nýtist fyrir alla landshluta og að ferðaþjónustufyrirtæki og fleiri geti nýtt það í sínu eigin markaðsefni.
Markaðsstofan hefur farið í framleiðslu á kynningarefni fyrir Reykjanesið í samstarfi við auglýsingastofurnar Hvíta húsið, Pipar TBWA og Sahara og er horft til þess að ferðaþjónusta á svæðinu njóti góðs af.
Markaðsstofa Reykjaness hefur nú frumsýnt nýja auglýsingu sem kynnir fjölbreytta afþreyingu og náttúruperlur á Reykjanesi.
Hvíta húsið er framleiðandi og voru það heimamenn sem brugðu sér í hlutverk leikara í auglýsingunni en þar má sjá fjórhjólaferðir, kajakferðir, sjóstöng, sjósund, Bláa Lónið og ægifagurt landslagið á Reykjanesi.
Verkefnið var unnið í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki á Reykjanesi.