fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Atvinnuleysi eykst á Suðurnesjum

Fjöldi einstaklinga á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum hefur aukist og er meiri en annars staðar á landinu.
Þetta kemur fram í samantekt Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, þar sem sjá má upplýsingar um atvinnuleysi á Suðurnesjum frá desember 2017 til desemer 2018.

Atvinnuleysi eykst í öllum bæjarfélögum en mest þó í Vogum þar sem það fer úr 2,70% í 4,70% og nemur hækkunin 2%. Þar á eftir kemur Reykjanesbær með 1,40% hækkun, Grindavíkurbær með 0,9% hækkun og Suðurnesjabær með 0,8% hækkun. Þetta er meiri hækkun en á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðin hækkaði um 0,4% og höfuðborgarsvæðið um 0,5%

 

Atvinnuleysi á Suðurnesjum 2017 - 2018

 

Fjöldi starfandi íbúa í Reykjanesbæ er 11.154 og eru 468 á atvinnuleysisskrá, í Grindavík eru þeir 1.906 og 36 á atvinnuleysisskrá, í Suðurnesjabæ 1.984 og 67 á atvinnuleysisskrká og i Vogum 778 og 37 á atvinnuleysisskrá.

Að sögn Berglindar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra Heklunnar hefur Keflavíkurflugvöllur mikið vægi á svæðinu og því sé nokkur hætta á einsleitni í atvinnulífi á Suðurnesjum.

Í farþegaspá Isavia sem lögð var fram í síðasta mánuði er gert ráð fyrir 8,7% fækkun farþega um Keflavíkurflugvöll og mikil óvissa ríkir enn þá um annað stóra íslenska farþegaflugfélagið. Þessi spá Isavia sýnir í fyrsta sinn fækkun flugfarþega frá árinu 2009 þegar vaxtarskeið flugvallarins hófst. Byggðastofnun birti einnig skýrslu í síðasta mánuði um hagvöxt landshluta 2008-2016 en þar kemur fram að næstmesta hagvaxtarsvæði á Íslandi á þessu tímabili er Suðurnes með 17% hagvöxt, einu prósenti á eftir Suðurlandi sem var með 18% hagvöxt.

Berglind segir þar einnig koma fram að Keflavíkurflugvöllur skýri hinn mikla vöxt á Suðurnesjum en umferð um hann hefur aukist um 160% frá árinu 2008-2016. Þá nefnir hún mikinn vöxt í sjávarútvegi sem tengist einnig flugvellinum en árið 2016 var 88% meira flutt út af nýjum fiski með flugvélum en 2008.

Við verðum því að vera vel vakandi yfir öllum breytingum sem verða á fjölda flugtenginga og flugfélaga á Keflavíkurflugvelli því það er alveg ljóst að þær breytingar hafa mikil ruðningsáhrif út í allt samfélagið eins og þess atvinnuleysistölur sýna.