Tónlist og tónlistarrætur á Suðurnesjum
Út er komin bókin Tónlist og tónlistarrætur á Suðurnesjum þar sem fjallað er um áratuginn fyrir 1960 og gerð tilraun til þess að varpa frekari ljósi á þá miklu grósku í tónlistarlífi á Suðurnesjum sem varð síðar.
Bókin var kynnt á Safnahelgi á Suðurnesjum og gert er ráð fyrir að hún verði nýtt til kennslu en hægt verður að nálgast hana á öllum söfnum á Suðurnesjum.
Útgefandi er Sóknaráætlun Suðurnesja en leitað var til Eiríks Hermannssonar sagnfræðings til þess að taka saman yfirlit yfir tónlist og tónlistarhefð á Suðurnesjum á þessum tíma. Ekki er mikið til af rituðum heimildum um þetta tímabil og eru frásagnir því byggðar á viðtölum við einstaklinga sem komu að tónlistarlífinu á Suðurnesjum og afraksturinn er útkoma þessa rits: Tónlist og tónlistarrætur á Suðurnesjum þar sem skoðaðir eru áhrifavaldar og aðstæður tónlistarmanna fyrr á tímum. Eiríkur hafði áður unnið útvarpsþætti á RUV undir yfirskriftinni Strákar með lúðra sem fjallaði um stofnun og starfsemi Drengjalúðrasveit Keflavíkur 1961-1965 sem einmitt kemur við sögu í bókinni.
Að sögn Dagnýjar Maggýjar ritstjóra bókarinnar kemur það á óvart hversu lengi tónlistarhefð á Suðurnesjum var rislítil í samanburði við aðra landshluta en það var ekki fyrr en með aðkomu frumkvöðla sem fluttust suður með sjó sem landslagið breyttist og tónlistarlíf tók stórt stökk fram á við.
Þarna hefur Varnarliðið að sjálfsögðu áhrif því margir þessara frumkvöðla fluttust hingað suður til þess að sækja vinnu á vellinum, segir Dagný og nefnir þar helstan Guðmund H. Norðdal sem þegar var orðinn þekktur hljóðfæraleikari þegar hann kom til Keflavíkur.
Þá tók tónlistarlífið fyrst almennilega við sér og stofnaður var hér karlakór, lúðrasveit, tónlistarfélag og tónlistarskóli. Svo mikið var kappið að flestir sem mættu á fyrstu æfingu lúðrasveitarinnar höfðu aldrei blásið í hljóðfæri, en menn létu það ekki stöðva sig. Fyrsta ballhljómsveitin varð til úr lúðrasveitinni og líklega hefur Gunnar Þórðarson séð fyrsta rafmagnsgítarinn í höndunum á Jóa Klöru.
Segir Dagný ljóst að grunnurinn að ríkri tónlistarhefð á Suðurnesjum hafi verið lagður af kraftmiklum einstaklingum sem fluttust suður með sjó til að sækja atvinnu, bæði á vertíð og ekki síður hjá Varnarliðinu. Þannig hefur þetta farmannasamfélag verið ákjósanlegur suðupottur fyrir ólíka menningarstrauma, og er enn í dag.