Farsældarráð barna
Farsældarráð Suðurnesja verður nýr samráðsvettvangur sveitarfélaga og þjónustuaðila sem starfa í þágu barna á svæðinu en samstarfsyfirlýsing þess efnis var lög fyrir stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á dögunum.
Samstarfsyfirlýsingin nær til Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkur, Sveitarfélagsins Voga, framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Lögreglustjórans á Suðurnesjum og Svæðisstöðvar íþróttahéraða. Markmið ráðsins er að styðja við innleiðingu farsældarlaga og tryggja samhæfða þjónustu og stefnumótun í málefnum barna. Ráðið mun starfa samkvæmt lögum nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og fundar að lágmarki tvisvar á ári.
Fjögurra ára aðgerðaáætlun og skýr uppbygging
Í tillögunni er lagt til að ráðinu verði skipt í fjórar megineiningar: stefnumótun, framkvæmd, faglegt mat og dagleg verkefni. Þessi einingaskipting á að tryggja heildræna nálgun og skilvirkt samstarf milli aðila. Ráðið mun leggja fram fjögurra ára aðgerðaáætlun sem verður lögð fyrir sveitarstjórnir og viðeigandi stjórnvöld til samþykktar.