fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Verð fasteigna eykst og fasteignagjald hæst í Keflavík

Heildar fasteigna- og lóðarmat hækkar mest í Keflavík eða um 37,7% og er nú 48,5 m.kr. næst á eftir Akureyri.

Þetta kemur fram í samanburði á fasteignamati og fasteignagjöldum Byggðastofnunar fyrir árið 2019.

Af þeim þéttbýlisstöðum sem skoðaðir voru, utan höfuðborgarsvæðisins, er matið hæst á Akureyri 49,5 m.kr. Matið þar hefur hækkað um 17,4% á milli ára og hafði hækkað um 12,4% árið áður. Heildarmat hækkaði mest á Húsavík á milli áranna 2017 – 2018 eða um 43%, úr 22 m.kr. í rúmar 31 m.kr. Nú hækkar það um 27,1% og fer í 39,9 m.kr. Í ár hækkar matið mest í Keflavík, eða um 37,7% og er nú 48,5 m.kr. næst á eftir Akureyri. Lægsta heildarmatið er í Bolungarvík 16,1 m.kr. sem er 2,3 m.kr. lægra en á Seyðisfirði og 2,9 m.kr. lægra en á Patreksfirði. Í Bolungarvík hækkaði matið um 11,3% á milli ára.

Í fyrsta sinn frá árinu 2014 lækkar heildarmat hvergi á milli ára. Í fyrra hafði matið á Hólmavík lækkað þrjú ár í röð, en hækkar nú um rúm 17% sem er meðaltalshækkun yfir landið á milli áranna 2018 – 2019.

Fasteignagjöld 

Þegar horft er á fasteignagjöldin breytist myndin verulega eins og undanfarin ár. Þá er horft á heildarkostnað þ.e. fasteignaskatt, lóðarleigu, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjöld. Gjöldin eru þriðja árið í röð hæst í Keflavík, 453 þ.kr. en voru 389 þ.kr. fyrir ári síðan. Í ár eru gjöldin lægst í Grindavík 259 þ.kr.

Lóðarleiga í Reykjanesbæ er áberandi hæst miðað við viðmiðunarsvæði eða 118 þ.kr. Það er rúmlega 33% hærra en í
Grundarfirði þar sem næst hæsta lóðarleigan er, 89 þ.kr. á ári. Munurinn á þessum stöðum var 17% fyrir ári síðan. Lægst er lóðarleigan í Bolungarvík tæpar 17 þ.kr. á ári sem er rúmlega 600% lægra en í Keflavík

Grindavík er nú með lægsta vatnsgjaldið líkt og í fyrra, tæpar 20 þ.kr. sem er 337% lægra en á Siglufirði.