fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Fjármagna draugagang gegnum áheitasíðu

Hópur ungra kvikmyndagerðarmanna frá Íslandi og Frakklandi tók sig til í sumar og fór hringinn í kringum landið til að sviðsetja og taka upp íslenskar draugasögur. Ætlunin var að gera heimildamynd um íslenskar afturgöngur, Walkers, og nú þegar hafa fjórar draugasögur verið sviðsettar og teknar upp á sínum upprunaslóðum en undirbúningur fyrir verkefnið fór fram í Eldey, frumkvöðlasetri í Ásbrú. Hópurinn leitar nú til almennings um að aðstoða sig við að klára viðtöl og eftirvinnslu (klippingu, tónlist, tæknibrellur o.s.frv.) í gegnum áheitasíðuna Karolinafund.com.Hér má sjá fjármögnunarsíðunaAð baki verkefnisins stendur Collectif Panic, hópur ungra og upprennandi kvikmyndagerðarmanna frá Íslandi, Frakklandi og Kólumbíu. Hugmyndin að myndinni kviknaði í samtali Estherar Þorvaldsdóttur, menningarmiðlara, og bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Bowen Staines (leikstjóri Where‘s the Snow?! og tónlistarmyndböndunum Fjöru eftir Sólstafi og Gleipnir eftir Skálmöld) um uppvakninga og komust þau að því að íslensku afturgöngurnar ættu verðskuldað að fá umfjöllun á kvikmyndaformi. Fékk Esther þá til liðs við sig Diego Arias, æskulýðsfulltrúa, og Önnu Margréti Hrólfsdóttur, þjóðfræðinema, og fengu þau styrk frá Evrópu unga fólksins og Menningarráði Suðurlands til að taka upp útvaldar sögur. Bættust þá til liðs við þau Manon Petit (leikkona), Axel Van Der Waal (listamaður), Perrine Wanegue (búningahönnuður), Clémentine Dehaynin (menningarstjórnandi), Gunnhildur Helga Katrínardóttir (kvikmyndagerðarmaður), Bragi Brynjarsson (tæknibrellusérfræðingur) og Logi Ingimarsson og Anton Smári Gunnarsson (kvikmyndatökumenn). Verkefnið er í senn framleiðsla heimildamyndar og lærdómsferli þar sem ungmennin fengu tækifæri til að spreyta sig á sviðum sem þau höfðu áður ekki prufað. Margir frábærir leikarar hafa komið að myndinni en þeirra á meðal er Helgi Sæmundur Guðmundsson úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur og mun Hrafnkell Örn Guðjónsson úr hljómsveitinni Agent Fresco sjá um tónlistina. Helgi er búsettur á Hellu en sunnlenskir meðleikarar hans voru t.a.m. tvítugi Hornfirðingurinn Róslín Alma Valdemarsdóttir sem er með bullandi leiklistarbakteríu, hin átján ára Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir sem hefur leikið mikið síðan hún hóf nám í framhaldsskóla og Ingvar Þórðarson sem hefur tekið virkan þátt í leiklistarsenu Hornafjarðar í fjölda ára.Karolinafund er íslenskt fyrirtæki sem heldur uppi síðu þar sem hver sem er getur heitið á spennandi verkefni áður en þau verða til. Hægt er að velja á milli mismunandi upphæða og þannig getur fólk keypt DVD eintak af myndinni áður en hún kemur út. Það sem er þó einstaklega áhugavert við fjármögnuna er að styrki einstaklingur verkefnið um 4.000 evrur (ca. 650.000 kr.) fær sá hinn sami að velja aðra íslenska draugasögu sem myndi bætast við í myndina. Kvikmyndatökuhópur mætir þá á upprunaslóð draugsa og ásamt leikurum mun hann sviðsetja söguna og taka upp.