fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga

Árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin fimmtudaginn 24. september og föstudaginn 25. september á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut í Reykjavík.

Ráðstefnan hefst fyrri daginn kl. 10:00 með ávarpi formanns sambandsins, Halldórs Halldórssonar, en síðan mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpa ráðstefnuna. Í beinu framhaldi fara fram samræður formanns sambandsins og félags- og húsnæðismálaráðherra um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, stöðuna í húsnæðismálum og leiðir til úrbóta ásamt ýmsu fleira sem fellur undir verkefni ráðherra og varðar sveitarfélögin, undir stjórn Sigmundar Ernis Rúnarssonar fréttamanns.

Þá verða flutt margvísleg erindi um fjármál sveitarfélaga, en fyrri ráðstefnudeginum lýkur með því að Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir fjalla um orðbragð sveitarstjórnarmanna áður en boðið verður upp á léttar veitingar.

Síðari ráðstefnudeginum verður að venju skipt upp í tvo hluta, þar sem fjallað verður um margvísleg málefni sem snúa að fjármálum og rekstri sveitarfélaga. Ráðstefnunni mun ljúka kl. 12 á hádegi 25. september.

Skráning og nánari dagskrá má sjá hér.

Skráningu lýkur mánudaginn 21. september og eru sveitarstjórnarmenn og aðrir vinsamlega beðnir um að virða þau tímamörk.

Þátttökugjald er 16.500 kr. og eru innifaldar í því allar veitingar og fundargögn.

Við bókun á gistingu á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu má vísa til bókunarnúmersins 203994.