Flaggað á fánadegi heimsmarkmiða
Í tilefni að alþjóðlegum degi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna 25. september síðastliðinn, drógu 18 skólar á Reykjanesinu heimsmarkmiðafánann að húni sem tákn um einingu og áhuga á að innleiða heimsmarkmiðin í menntun og samfélagsvitund.
Dagurinn markaði mikilvægan áfanga í vegferð skólasamfélagsins á Reykjanesi þar sem skólarnir hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um inngöngu í UNESCO-skóla verkefnið, sem hefur það að markmiði að efla sjálfbæra þróun, hnattræna borgaravitund og menningu friðar. Aðildarskólar verkefnisins á Reykjanesi ná nú yfir alla grunnskóla svæðisins og sjö leikskóla, ásamt Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fisktækniskólans.
Hugmyndin að verkefninu kemur frá Suðurnesjavettvangi, samstarfsvettvangi sveitarfélaga, fyrirtækja og menntastofnana á svæðinu, og er það unnið með stuðningi Reykjanes jarðvangs sem veitir verkefninu forstöðu. Verkefnið er sérstaklega hannað til að tengjast grunnþáttum aðalnámskrár íslenskra skóla og styðja við markmið 4.7 í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem snýr að menntun fyrir sjálfbæra þróun.
Viljayfirlýsingin sem undirrituð var lýsir áformum um að hefja umsóknarferli innan tveggja ára til að verða UNESCO-skólar. Með þessu hafa skólarnir lýst yfir vilja sínum til að samþætta heimsmarkmiðin í skólastarf og auka samvinnu þvert á skóla- og sveitarfélagamörk. „Sjálfbærni er sameiginlegt viðfangsefni okkar allra sem íbúa á þessari jörð. Heimsmarkmiðin veita okkur skýran ramma til að takast á við þau verkefni sem framtíðin krefst,“ segir í viljayfirlýsingunni.
Verkefnið er unnið á vegum Reykjanes jarðvangs í samstarfi við Geocamp Iceland og skóla á svæðinu. Verkefnastjóri er Sigrún Svafa Ólafsdóttir.