Hraunmyndanir framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum
Lavaforming eða hraunmyndanir verður framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum sem haldinn verður 10. maí n.k. þar sem kannaðir eru möguleikarnir á því að stýra hraunrennsli til að skapa byggingar og borgir.
Arnhildur Pálmadóttir og teymi hennar hjá s.ap arkitektum fara fyrir hönd Íslands og hefur framlag þeirra nú þegar vakið athygli í erlendum miðlum og blaðið Financial Times valdi það til að mynda nýverið eitt af fimm mest spennandi verkum hátíðarinnar.
Arnhildur kynnti verkefnið fyrst árið 2022 en þá var nýbyrjað gos á Reykjanesi.
„og við ákváðum þá að taka þetta aðeins lengra og skoða hvort það væri hægt að nota nokkrar aðferðir við að nýta hraunið. Við skoðuðum þrívíddarprentun eða að búa til rásir, svolítið eins og varnargarðarnir eru, nema öfugt.“
Á sýningunni er sögð saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli er beislað, nýtt sem byggingarefni og tekst með því að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.

„Á tímum Snorra Sturlusonar, þegar síðast gaus á Reykjanesskaga var eldgos framandi viðburður. Í okkar sögu árið 2150 höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmið hennar er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn sem endurhugsar og mótar nýja framtíð. Hraunflæði getur innihaldið nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orkuöflunar.“
Arnhildur hefur unnið að stuttmynd samhliða verkefninu sem hún vinnur með Arnari syni sínum sem sýnir þennan heim.
„Þetta er þrívíddarteiknimynd, stuttmynd, sem sýnir framtíðina árið 2150 þegar við höfum lært að nota hraun sem byggingarefni. Við fáum þannig innsýn í borg sem er öll byggð úr hrauni á Reykjanesi og heyrum frá nokkrum íbúum borgarinnar sem lýsa sögunni upp að þeim tíma,“ segir Arnar.