fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Hvatt til þátttöku í fyrirtækjakönnun landshlutanna

Fyrirtækjum og einstaklingum í rekstri er þessa dagana boðið að taka þátt í fyrirtækjakönnun landshlutanna. Síðast var hún í boði haustið 2019. Með könnuninni hafa landshlutasamtök, Byggðastofnun og aðrir sem vinna að byggðaþróun reynt að gera sér grein fyrir stöðu atvinnulífsins vítt og breitt um landið. Til skoðunar hafa verið styrkleikar og veikleikar þess sem og ógnanir og tækifæri. „Upplýsingar úr könnununum hafa ásamt íbúakönnunum verið ein mikilvægasta stoð þessara aðila til að móta áherslur í starfi sem snýr að stefnumótun landshlutanna til framtíðar, áherslur í styrkveitingum, ýmissi ráðgjöf, upplýsingagjöf til stjórnvalda og jafnvel uppspretta akademískra rannsókna á sviði atvinnumála hérlendis,“ segir í tilkynningu frá Vífli Karlssyni hagfræðingi hjá SSV.

Hingað til hefur þátttaka verið góð á landsvísu, eða á bilinu 1600-2000 svör, en nú bregður svo við að þátttakan er frekar dræm sem er bagalegt fyrir verkefnið. „Aðstandendur könnunarinnar vilja því hvetja alla sem eru í rekstri á öllu landinu, fyrirtæki og einstaklinga, einyrkja og opinbera aðila að taka þátt í birta raunhæfa mynd af stöðu atvinnulífsins til almennings og stjórnvalda.“

Hlekkur á könnunina er hér.

Nánar um könnunina:

  • Fyrirtækjakönnun landshlutanna er á vegum allra landshlutasamtaka, atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar. Hún er ætluð öllum, stórum og smáum rekstraraðilum/fyrirtækjum sem eru í framleiðslu eða bjóða þjónustu. Markmiðið er að kanna hver staða þeirra er til að geta stutt þau betur hvar sem þau eru á landinu.
  • Í þessari könnun er spurt um hvort fyrirhugað sé að bæta við fólki eða fækka og hvort það vanti menntað starfsfólk. Hvort fyrirtæki ætli að fjárfesta eða losa sig við framleiðslutæki og -tól. Þá er spurt um nokkur atriði er lýsa tegund og eðli rekstursins. Að lokum er spurt út í nokkur atriði er tengjast stöðu eftirspurnar hjá fyrirtækjunum, stuðningsgreinar og þekkingu þeirra á stoðkerfinu.
  • Með könnuninni er ætlunin að fá yfirsýn yfir stöðu fyrirtækja og væntingar þeirra. Einnig hvort þau hyggist sækja fram, halda að sér höndum eða draga saman seglin. Ráða fólk eða fjárfesta. Við leitum einnig eftir því hvar skóinn kreppir. Hvaða þættir það eru sem fyrirtækin skortir þar sem þau starfa og ýmislegt fleira.