fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Íbúar landsbyggðarinnar fá rödd

Nú stendur yfir íbúakönnunum um land allt á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga og eru sem flestir hvattir til þess að taka þátt.

Niðurstöður könnunarinnar hafa nýst vel til þess að meta og hafa yfirlit yfir hver staðan er raunverulega á landsbyggðinni sem hefur svo mótað áherslur í starfi landshlutasamtaka og breytt forgangsröð þeirra. Einnig hefur könnunin nýst í hverskonar stefnumótun og leggur því línurnar inn í framtíðina sem er mikilvægt í málum sem vinna þarf stöðugt að yfir langan tíma.

Að sögn Berglindar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa upplýsingar úr slíkum könnunum verið afar gagnlegar.

Niðurstöðurnar nýtast okkur vel í hagsmunabaráttu fyrir landshlutana. Fólk tekur mark á upplýsingum sem koma frá miklum fjölda fólks þar sem söfnun og úrvinnsla er faglega unnin. Þegar menn setjast niður með gögn sem þessi er hlustað.

Hægt verður að svara könnuninni út október en þar er m.a. spurt um aðbúnað íbúa, þjónustu og annað sem snýr að velferð íbúanna.

Könnunin veitir sveitarstjórnarmönnum mikilvægar vísbendingar um forgangsröð í verkefnum sveitarfélagsins og öðrum opinberum aðilum hvar tíma og fjármunum er best varið. Þess vegna er óhætt að segja þetta kjörið tækifæri fyrir íbúa til að gera gott samfélag enn betra.

Ákveðnir aðilar voru valdir af handahófi til þátttöku og eru þeir sem lent hafa í úrtakinu hvattir til að svara spurningakönnuninni til að niðurstöðurnar verði sem marktækastar – hvert svar hefur mikla þýðingu. Einnig geta áhugasamir tekið þátt með því að smella á hlekkinn neðst í fréttinni.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) framkvæmdu könnunina fyrst 2004 og síðan þriðja hvert ár. Stöðugt fleiri hafa sóst eftir að taka þátt en þetta er í fyrsta sinn sem könnunin nær til landsins alls.

Samtök sveitarfélaga hafa líka framkvæmt könnun meðal fyrirtækja  ár hvert síðan 2013. Sú könnun nær núna líka til alls landsins og gefur mjög mikilvægar upplýsingar á sama hátt og íbúakönnunin, um stöðu landshlutanna og þróun frá sjónarhóli allra íbúa, fyrirtækja og vinnandi stétta. Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá SSV leiðir þessa vinnu í samráði við landshlutasamtökin og hefur komið nálægt framkvæmd þeirra frá upphafi. Stefnt er að því að báðar þessar kannanir verði framkvæmdar reglulega.