Góðar sögur fá góða hlustun
Hlaðvarpið Góðar sögur sem hóf göngu sína á liðnu ári hefur fengið góðar viðtökur en markmið þess er að efla jákvæða ímynd Suðurnesja.
Hlaðvarpið er nú í 7. sæti í flokknum samfélag og menning á Íslandi og 23. sæti yfir öll hlaðvörp á Íslandi skv. podstatus sem verður að teljast góður árangur. Niðurhöl í síðasta mánuði voru 1.693 en þau nálgast nú 6 þúsund frá upphafi.
Hlaðvarpið er í umsjón Eyþórs Sæmundssonar og Dagnýjar Maggýjar sem starfa hjá Markaðsstofu Reykjaness og Heklunni, atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja. Það er liður í verkefninu Reykjanes – sögur sem unnið er með styrk frá Sóknaráætlun Suðurnesja en markmið þess er eins og áður segir að byggja upp jákvæða ímynd og viðhorf til svæðisins m.a. með aukinni fjölmiðlaumfjöllun, auglýsingum, samstarfi við áhrifavalda og fleira.
Rætt hefur verið við áhugaverða einstaklinga á Suðurnesjum sem hafa góða sögu að segja en þau eru Guðbjörg Glóð Logadóttir, Gunnar Örlygsson, Veigar Margeirsson, Bergur Þór Ingólfsson, Margrét Sturlaugsdóttir, Sigga Dögg, Sævar helgi Jóhannsson, Ólafur Ólafsson, Kristinn Guðmundsson (Soð), Brynjar Leifsson, Sossa, Helgi Jónas Guðfinnsson og Elva Dögg Sigurðardóttir.
Fleiri góðar sögur eru í farvatninu en áhugasamir geta nálgast þættina á helstu hlaðvarpsveitum.