fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Matsjá fer vel af stað

Alls 80 fyrirtæki hafa nú skráð sig í þátttöku í Matsjánni sem er nýtt samstarfsverkefni landshlutasamtaka, atvinnuþróunarfélaga, Samtaka smáframleiðenda og Rata en verkefnið hlaut styrk úr Matvælasjóði.

Matsjáin er verkefni sem er ætlað smáframleiðendum matvæla sem vilja efla leiðtogafærni sína, öðlast aukna getu til að þróa vörur og þjónustu og efla tengslanetið sitt í greininni. Matsjáin fer fram á 14 vikna tímabili frá 6. janúar til 7. apríl og samanstendur af sjö lotum með heimafundum/jafningjaráðgjöf, fræðslu og erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf. Verkefnið fer fram á netinu þvert á landið og lýkur með veglegri uppskeruhátíð þar sem þátttakendur hittast í raunheimi.

Heimafundunum er stjórnað af Rata og verkefnastjórum landshluta og atvinnuþróunarfélaga sem skipta á milli sín fyrirtækjunum en þannig skapast bæði aukin þekking á fyrirtækjum í matvælaþróun í héraði og ráðgjöf til þeirra gerð aðgengilegri. Verkefnið er eitt af mörgum samstarfsverkefnum landshluta og atvinnuþróunarfélaga sem hafa aukist mikið eftir Covid þar sem unnt er að vinna slík verkefni á netinu.

Afurð verkefnisins verður fræðsla fyrir smáframleiðendur til að styðja þá í að aukinni verðmætasköpun, til að styrkja stöðu þeirra, efla framleiðsluna, auka sölutekjur og styðja við sjálfbærni í rekstri. Markmið stuðningskerfisins er að auka innsýn þátttakenda í rekstri og innviða fyrirtækis með það fyrir augum að finna leiðir til að auka hagkvæmni, bæta rekstur, auka fagmennsku og innleiða samfélagsábyrgð í fyrirtækin.