Nýtt frumkvöðlasetur í Keili
Frumkvöðlasetrið Eldey hefur opnað í aðalbyggingu Keilis – Miðstöðvar vísinda fræða og atvinnulífs á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þar gefst frumkvöðlum á Suðurnesjum kostur á að vinna að viðskiptahugmyndum sínum og þróa þær áfram í raunveruleg viðskiptatækifæri.
Frumkvöðlasetrið er rekið í samstarfi Keilis, Eignarhaldsfélags Suðurnesja og Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja og verður aðstaða í Eldey gjaldfrjáls fram að áramótum 2021 með stuðningi frá Eignarhaldsfélaginu.
Í Eldey býðst frumkvöðlum vinnuaðstaða í skapandi umhverfi og geta þeir jafnframt nýtt sér fundaraðstöðu, kaffistofu og setustofur í aðalbyggingu Keilis, auk þess sem aðgangur er að prent- og netþjónustu. Heklan mun jafnframt bjóða upp á ráðgjöf í setrinu og standa fyrir reglulegum fræðsluviðburðum og erindum.
Sótt er um aðstöðuna annað hvort á vef Heklunnar eða á heimasíðu frumkvöðlasetursins á eldey.org. Skilyrði þess að nýta aðstöðuna er að um nýsköpun sé að ræða og verða umsóknir metnar af Heklunni sem mun jafnframt fylgja hugmyndum frumkvöðla áfram.
Dagný Gísladóttir, verkefnastjóri hjá Heklunni, hefur yfirumsjón með umsóknum frumkvöðla í Eldey. „Það er okkar reynsla að frumkvöðlasetur eru gríðarlegur stuðningur fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þar fá þeir ráðgjöf og stuðning í samfélagi við aðra frumkvöðla en það getur verið einmannalegt að vinna að eigin viðskiptahugmynd við eldhúsborðið heima.“
Frekari upplýsingar veita Arnbjörn Ólafsson forstöðumaður þróunar- og markaðssviðs Keilis (arnbjorn@keilir.net) og Dagný Gísladóttir (dagny@heklan.is) hjá Heklunni.