fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Öryggiskrossinn – hagkvæm og umhverfisvæn leið fyrir flugvelli

Mannvirki og malbik ehf. hlaut fyrstu verðlaun í Ræsingu Suðurnesja sem haldið var af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Heklunni, atvinnu- og þróunarfélagi Suðurnesja.

Verðlaunafé var ein milljón króna til þróunar og markaðssetningar á vörunni Öryggiskrossinn.

Ræsing Suðurnesja er keppni um bestu viðskiptaáætlunina en þátttakendur fá aðstoð og ráðgjöf í átta vikur til þess að vinna að viðskiptahugmynd sinni og viðskiptaáætlun undir leiðsögn ráðgjafa. Alls luku sjö fyrirtæki keppninni og kynntu verkefni sín.

Viðskiptahugmyndin felst í hagkvæmari og umhverfisvænni leið til að merkja flugbrautir sem unnið er að endurbótum á, að þannig að staðan brautanna sjáist úr lofti. Öryggiskrossinn og er ætluð til tímabundinna lokana á flugbrautum og akbrautum flugvalla.

Fyrirtækið er í eigu Sigurðar Inga Kristóferssonar sem fer með rekstur þess og stjórnun ásamt eiginkonu sinni, Hönnu Maríu Kristjánsdóttur.

Flugsamgöngur hafa aukist gríðarlega á síðustu áratugum og gera enn, og kallar það á stöðugar endurbætur flug- og akbrauta. Slíkar endurbætur þurfa að uppfylla ströng skilyrði sem alþjóðlegar reglugerðir kveða á um. Öryggismerkingar sem bæði uppfylla skilyrði reglugerða og virka þegar búið er að koma þeim fyrir, eru af skornum skammti. Oftast eru merkingarnar málaðar á flugbrautirnar en því fylgir sá ókostur að það þarf að mála og fjarlægja málninguna endurtekið á meðan framkvæmdum stendur. Það er bæði mengandi fyrir umhverfið og styttir endingartíma flugbrautanna.

Þau hjónin Sigurður og Hanna María reka fyrirtækið saman og tóku á móti verðlaunafénu.