fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Reykjanes fær 30 milljónir til uppbyggingar ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur úthlutað 610 milljónum til uppbyggingar á ferðamannastöðum hringinn í kringum landið og fara um 30 milljónir til verkefna á Reykjanesi.

Hlutverk sjóðsins er samkvæmt lögum að  stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt,  leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins, og fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Þau verkefni sem hlutu styrk eru Brú milli heimsálfa kr. 3.520.000, Gunnuhver kr. 18.500.000, Skessan í hellinum kr. 900.000 og Stígur við tjörn kr. 9.564.800.

Reykjanes Geopark hlýtur styrk til þess að fara í skipulagsvinnu við Brú milli heimsálfa með það að markmiði að bæta aðkomu ferðamanna að svæðinu, stækka bílastæði, breikka aðkomuveg og verja svæðið fyrir vindum. Eins til að endurnýja tréverk á göngubrú vegna fúa. Brúin milli heimsálfa er nú er orðinn vinsæll ferðamannastaður og því talið mikilvægt að . Verkefnið er mikilvægt að efla öryggi ferðamanna á svæðinu og skipuleggja innviði.

Reykjanes Geopark hlýtur jafnframt styrk til þess að bæta aðkomu og aðgengi að Gunnuhver sem felst í því að ljúka hönnun svæðisins og hefja uppbyggingu áningastaðarins. Gunnuhver verður sífellt vinsælli og þar er land síbreytilegt, viðkvæmt og hættulegt og verkefnið því talið mikilvægt fyrir náttúruvernd og öryggi ferðamanna.

Reykjanesbær hlýtur styrk til þess að endurnýja skessubrúðuna og laga nánasta umhverfi hjá Skessunni í hellinum, bæði úti og inni og  lagfæra stíg umhverfis hellinn. Skessan í hellinum hefur heillað börn og fullorðna undanfarin ár og er verkefnið til þess fallið að styrkja þá innviði og auka öryggi ferðamanna.

Sandgerðisbær hlýtur styrk til þess að ljúka við seinni áfanga stígs við tjörnina sem snýr að framlengingu og tengingu á stígnum bæði við Þekkingarsetrið og inn í bæinn. Verkefnið er framhald af áður styrktu verkefni sem lagði stíg milli vegar og tjarnar til að bæta aðgengi fólks að náttúru tjarnarinnar. Við það hætta ferðamenn að þvælast á vegi og aðstaða verður öll öruggari til náttúruskoðunar.