fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Reykjanes Geopark fær alþjóðlega vottun

Reykjanes Geopark hefur fengið alþjóðlega vottun og aðild að samtökunum European Geoparks Network en um er að ræða samtök svæða sem þykja jarðfræðilega merkileg og njóta þau stuðnings UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna. 
 
Reykjanes Geopark er eitt af stærstu verkefnum Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja og hófst undirbúningur að vottun árið 2012 með ráðningu verkefnastjóra Eggert Sólbergs Jónssonar en verkefnið er unnið í góðu samstarfi við hagsmunaaðila og sveitarfélögin fimm á Reykjanesi.
 
Aðild að samtökunum er mikil viðurkenning fyrir íbúa og atvinnurekendur á svæðinu og hún mun nýtast til markaðssetningar, fræðslu og uppbyggingar á Reykjanesi. 
 
Að sögn Berglindar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra Heklunnar er það afar ánægjulegt að sjá verkefnið vera í höfn.
 
„Reykjanes Geopark er byggðaþróunarverkefni sem felur í sér skýra stefnu um sjálfbæra þróun, þátttöku heimamanna og sveitarfélaga og þar sem lög er áhersla á að auka vitund íbúa og gesta á sérstöðu Reykjanesskagans.  Verkefni sem þetta sýnir okkur líka hversu samstöðumáttur sveitarfélaganna á Reykjanesi getur verið mikill.  Sveitastjórnir á svæðinu sem og starfsmenn bæjarfélaganna, sem leitað var til eiga þakkir skildar.  Verkefni eins og þetta hefði ekki orðið að veruleika nema að allir lögðust á árarnar.  Af því er ég afar stolt.“
 
Berglind segir ávinninginn bæði samfélagslegan og efnahagslegan. „Þessi áfangi er lyftistöng fyrir svæðið á sviði ferðamála, framleiðslu og fræðslu og þá styður verkefnið nýsköpun og sjálfbæra þróun heima í héraði. Þessi vottun og sú vinna sem unnin hefur verið innan Reykjanes Geopark á undanförnum árum styrkir samkeppnishæfni svæðisins með auknu markaðsstarfi, betra aðgengi og öryggi að náttúruperlum, þróun fræðsluefnis, lengingu ferðamannatímans og aðild að alþjóðlegu neti Jarðvanga.“
 
Aðilar að Reykjanes Geopark eru Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, sveitarfélög á Reykjanesi, 
Ferðamálasamtök Reykjaness, Bláa Lónið, Þekkingarsetur Suðurnesja, Keilir – miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs og HS Orka.