fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

38. fundur Svæðisskipulags Suðurnesja

38. fundur Svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja haldinn föstudaginn 12. maí 2023, kl. 14:40. Fundurinn er haldinn í fundarsal Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Skógarbraut 945, 262 Reykjanesbæ.

Mætt eru: Guðmundur Björnsson, Jón B. Einarsson, Eysteinn Eyjólfsson, Einar Jón Pálsson, Lilja Ósk Sigmarsdóttir, Atli Geir Júlíusson, Kjartan Már Kjartansson, Gunnar K. Ottósson, Þóra Kristín Klemenzdóttir og Gunnar Axel Axelson.

Gestir fundarins frá Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins: Valdimar Birgisson, Björg Fenger, Helga Jóhannesdóttir, Helga Jónsdóttir, Hjördís Ýr Johnson, Ingvar Arnarson, Karen María Jónsdóttir, Orri Björnsson, Stefán Már Gunnlaugsson, Pawel Bartoszek og Jón Kjartan Ágústsson svæðisskipulagsstjóri.

Eysteinn Eyjólfsson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.  

Dagskrá:

1. Sameiginleg ályktun svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja og svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðis

Neðangreind sameiginleg ályktun svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja og svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins var samþykkt að loknum umræðum:

Sameiginleg ályktun um greiðar, vistvænar og öruggar samgöngur
milli höfuðborgarsvæðis og Suðurnesja

Ályktun samþykkt á sameiginlegum fundi svæðisskipulagsnefnda höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem haldinn var á Ásbrú, Reykjanesbæ föstudaginn 12. maí 2023. 

Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðis funda í dag í fyrsta skipti til að ræða sameiginleg viðfangsefni og hagsmunamál og til að leggja grunn að öflugra samstarfi milli svæðanna í framtíðinni. Svæðisskipulagsnefndirnar eru sammála um að höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin eru hluti af einu vinnusóknar- og búsetusvæði, og að lífsgæði og samkeppnishæfni svæðanna grundvallist á, greiðum, vistvænum og öruggum samgöngum fyrir atvinnulíf, gesti og íbúa.

Nefndirnar hvetja ríkisstjórnina að beita sér fyrir bættum samgöngum milli svæðanna, fyrir alla ferðamáta. Þar verði lögð sérstök áhersla á að:

  • Staðið verði við fyrirliggjandi áform um aðskilnað akstursleiða á Reykjanesbraut milli þéttbýlissvæðanna en um hana fara nánast allir ferðamenn sem koma til landsins með flugi. Það er því mikilvægt að klára tvöföldun hennar, bæði fyrir gesti sem fara þar um og ekki síður íbúa Suðurnesja og höfuðborgarsvæðis.
  • Svæðin verði tengd saman með tíðum, gæðamiklum almenningssamgöngum með aðgengi fyrir alla sem nýtist íbúum, starfsfólki og flugfarþegum. Bæta þarf sérstaklega aðgengi fólks með skerta hreyfigetu.
  • Aðgengi að almenningssamgöngum við Keflavíkurflugvöll verði bætt, til dæmis með því að vagnar sæki og sleppi farþegum upp við flugstöðvarbyggingu, að merkingar fyrir almenningssamgöngur verði í forgrunni í flugstöðvarbyggingu, að greiðslukerfi sé samþætt við greiðslukerfi Suðurnesja og höfuðborgarsvæðis, og að aðgengi fyrir alla sé tryggt.
  • Skipulagt verði heildstætt göngustíga- og hjólanet um svæðin, sem tengi saman helstu atvinnu, íbúða, þjónustu- og útivistarsvæði. Lokið verði við að leggja og merkja öruggar hjólaleiðir milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.

Nefndirnar telja jafnframt mikilvægt að öryggi veitukerfa, Reykjanesbrautar og annarra samgönguinnviða milli svæðanna sé tryggt með tilliti til almannavarna, veðurs og náttúruvár.

2. Verkefni svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja

Eysteinn Eyjólfsson, formaður svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja, kynnti helstu verkefni nefndarinnar.

3. Verkefni svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins

Pawel Bartoszek, formaður svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, kynnti helstu verkefni nefndarinnar.

Ekki er fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 15:20. Fundargerð verður undirrituð með rafrænum hætti og verður send fundarmönnum að loknum fundi.

Næsti fundur nefndarinnar verður haldinn 8.6.2023.