fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Tryggja þarf aukið fjármagn til ríkisstofnana í takt við fjölgun íbúa

Á 43. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var í Reykjanesbæ liðna helgi var lögð fram ályktun um fjárframlög til ríkisstofnana svæðisins.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 13.-14. september 2019 leggur áherslu á að ríkisvaldið tryggi aukningu á fjárframlögum til ríkisstofnana á Suðurnesjum í takt við mannfjöldaaukningu sem og samsetningu íbúa á svæðinu.

Fundurinn vill þakka góð viðbrögð ríkisvaldsins við ákalli sveitarstjórnarfólks á Suðurnesjum vegna falls Wow-air. Mikilvægt er að tryggja aukna fjármuni á svæðið þar sem gera má ráð fyrir því að atvinnuleysi muni aukast á næstu mánuðum.

Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun á Suðurnesjum sem skýrist að miklu leyti af verulega auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Þannig voru íbúar Suðurnesja 22.026 árið 2015 en í janúar 2019 voru þeir 27.113. Hlutfallslega er fjölgun íbúa langmest á Suðurnesjum.

2015 2016 2017 2018 2019
Reykjanesbær 14.924 15.233 16.350 17.805 18.920
Grindavíkurbær 2.995 3.126 3.218 3.323 3.427
Sveitarfélagið Vogar 1.102 1.148 1.206 1.268 1.286
Sandgerði 1.580 1.577 1.708 1.779 0
Sveitarfélagið Garður 1.425 1.425 1.511 1.595 0
Suðurnesjabær 3.480

 

Íbúum landsins á árunum 2000 til 2018 fjölgaði um 19% eða um 53.480 manns. Meginhluti þessarar aukningar er á höfðaborgarsvæðinu og Suðurnesjum eða 64%. Ef skoðuð eru árin 2015-2019 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 23,1%.

Fulltrúar sveitarstjórna á Suðurnesjum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa þar sem fólksfjölgun á svæðinu hefur verið langt umfram meðaltalsfjölgun á landinu öllu en aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á svæðinu hefur á engan hátt fylgt þeirri þróun.

Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki vera tekið nægjanlegt tillit til þess ef óvenju mikil fólksfjölgun verður á einstökum svæðum. Af þeim sökum er lagt til að m.a. verði skoðuð sérstaklega fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og annarra mikilvægra verkefna á svæðinu til þess að íbúar búi við sömu þjónustu og íbúar annarra svæða landsins. Má t.d. geta þess að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um 15%.

Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja að fjárframlög til ríkisstofnanna t.d. Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Lögreglunnar á Suðurnesjum fylgi þróun mannfjölda á svæðinu.