fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Uppbyggingarsjóður úthlutar styrkjum til 37 verkefna

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja úthlutaði í síðustu viku styrkjum til 37 verkefna að upphæð 60.450.000 kr.
Auglýst var eftir styrkumsóknum í október sl. og hljóðuðu styrkbeiðnir upp á tæplega 227 milljónir króna.

Sjö verkefni flokkuðust undir stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála að upphæðl kr. 14.250.000, 20 verkefni í flokknum menning og listir hlutu styrk að upphæð kr. 18.700.000 og 10 verkefni í flokknum atvinna- og nýsköppun hlutu styrki að upphæð kr. 27.500.000.

Eftirtalin verkefni hlutu styrk.

Nr. 1. Grafík og vatnslitavinnustofur í Höfnum. Umsækjandi og verkefnastjóri: Valgerður Guðlaugsdóttir. Flokkur: Menning.

Reyndir listamenn miða þekkingu sinni bæði til almennings og skólabarna með því að halda opnar vinnustofur og sýningar í félagsheimilinu Höfnum. Listamennirnir kenna öðrum handverkið og skapa þannig andrúmsloft, hugmyndaauðgi og tilraunamennsku hjá ungum og öldnum. Verkefni hlýtur styrk að fjárhæð kr. 400 þús.

Nr. 2. Hæfileikar SamSuð 2018. Umsækjandi: Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Stefán Arinbjarnarson. Flokkur: Menning.

Með Hæfileikum Samsuð er skapaður vettvangur fyrir ungmenni á Suðurnesjum til að sýna og rækta hæfileika sína. Slík keppni dregur einnig fram að á Suðurnesjum er margt ungt hæfileikafólk sem er um leið góðar fyrirmyndir fyrir jafningjana og hvetur þá til dáða. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð   kr. 500 þús.

Nr. 3. 100 ára afmæli fullveldis, Málþing. Umsækjandi: Menningarfulltrúar á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Guðjón Þorgils Kristjánsson. Flokkur: Menning.

Tilgangur verkefnisins er að horfa um öxl og beina sjónum að því hvernig samfélag okkar hefur þróast á lýðveldistímanum og draga fram áhugaverða samlíkingu milli fortíðar og nútíðar í sögu okkar. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500 þús.

Nr. 4. 50 ára afmæli Kvennakórs Suðurnesja. Umsækjandi: Kvennakór Suðurnesja. Verkefnastjóri: Guðrún Karítas Karlsdóttir. Flokkur: Menning.

Af því tilefni að kórinn fagnar 50 ára afmæli verður sögu kórsins gerð skil á margvíslegan hátt. M.a. veglegir tónleikar þar sem flutt verður tónlist eftir Suðurnesjaskáld og textahöfunda ásamt sýningu um 50 ára sögu kórsins og þátt hans í menningarlífi á Suðurnesjum í gegnum tíðina. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 600 þús.

Nr. 5. Saga og menning Kálfatjarnarhverfis. Umsækjandi: Hilmar E. Sveinbjörnsson. Verkefnastjóri: Húbert Ágústsson. Flokkur: Menning.

Markmið verkefnisins er að kynna sögu golfvallarsvæðis Kálfatjarnarvallar til að auka enn fremur á upplifun og ánægju af að leika golf. Gerð verða brautarskilti með viðbótarupplýsingum um sögu og mannvistarleifar. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 600 þús.

Nr. 6. Skiltagerð – Skipskaðar og strönd. Umsækjandi: Minja- og sögufélag Grindavíkur. Verkefnastjóri: Bogi Adolfsson. Flokkur:  Menning.

Sett verða upp skilti sem veita fróðleik og þekkingu um skip sem hafa strandað við strandlengjuna í Grindavík og nágrenni.  Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 600 þús.

Nr. 7. Söngvaskáld á Suðurnesjum – Umsækjandi og verkefnastjóri: Dagný Gísladóttir. Flokkur: Menning.

Verkefnið miðar að því að kynna tónlistararf og tónlistarmenningu á Suðurnesjum. Verkefnið gefur jákvæða mynd af svæðinu og er atvinnukapandi fyrir tónlistarfólk.    Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 700 þús.

Nr. 8. Kynning á bókmenntaarfinum – Umsækjandi: Bókasafn Reykjanesbæjar ásamt almenningsbókasöfnum í Garði, Grindavík, Sandgerði og Vogum . Verkefnastjóri: Stefanía Gunnarsdóttir. Flokkur: Menning.

Markmið verkefnisins er að kynna bókmenntaarfinn, minna á gamla og góða höfunda og bókmenntaverk, kynna yngri höfunda og verk þeirra. Leggja áherslu á læsi og mikilvægi lesturs. Efla um leið menningarlífið á svæðinu. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 700 þús.

Nr. 9. Sjólist í Garði, endurbygging innan dyra. Umsækjandi og verkefnastjóri: Erna M. Sveinbjarnardóttir. Flokkur: Stofn- og rekstur á sviði menningar.

Hollvinasamtök Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst vilja halda áfram að viðhalda menningarverðmætum. Markmiðið er að komandi kynslóðir fái að njóta hússins og læra þannig hvernig fyrri kynslóðir bjuggu. Auk þess sem menningartengd starfsemi fer fram í húsinu. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 750 þús.

Nr. 10. Skráning stríðsminja á Suðurnesjum. Umsækjandi og verkefnastjóri: Eiríkur Hermannsson. Flokkur: Menning.

Markmið verkefnisins er skráning og mæling menningarminja um veru Breta og Bandaríkjamanna á Suðurnesjum. Fyrsti áfangi miðast við skráningu í sveitarfélögunum Garði og Sandgerði. Ummerki og minjar um stríðið verða mældar upp og færðar á kortagrunn deiliskipulags og sögukort og upplýsingaskilti sett upp. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800 þús.

Nr. 11. Soð á Suðurnesjum. Umsækjandi og verkefnastjóri: Kristinn Guðmundsson. Flokkur. Menning.

Teknir verða upp þættir á Reykjanesinu þar sem Suðarinn mun ganga um og stikla á sögum af Suðurnesjum. Á Reykjanesinu ætlar Soð að elda þjóðlega rétti af alúð og klaufaskap en með fullri virðingu fyrir náttúrunni á Suðurnesjum. Hráefnið í réttina verður fyrst og fremst fundið til á Suðurnesjum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800 þús.

Nr. 12. Björgunarbáturinn Þorsteinn. Umsækjandi og verkefnastjóri: Guðjón Þorgils Kristjánsson. Flokkur: Stofn- og rekstur á sviði menningar.

Gerð verður áætlun um varðveislu björgunarbátsins Þorsteins sem er fyrsti björgunarbátur landsins. Einnig varðveisla björgunarskýlis sem báturinn er geymdur í. Það er merkilegt og athyglivert að báturinn skuli enn vera í eigu fyrstu björgunarsveitarinnar innan Slysavarnarfélags Íslands, Sigurvonar í Sandgerði. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 13. Reykjanesviti, lagfæring vitans. Umsækjandi: Hollvinasamtök Reykjanesvita og nágrennis. Verkefnastjóri: Hallur Jónas Gunnarsson. Flokkur: Stofn- og rekstur á sviði menningar.

Reykjanesviti er elsti vitinn á Íslandi og því nauðsynlegt að opna hann fyrir almenningi.  Til að hægt sé að bjóða almenningi inn þarf að lagfæra aðgengið að vitanum og gera lagfæringar að innan. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 14. Barnamenning í Reykjanesbæ – Umsækjandi: Reykjanesbær.  Verkefnastjóri: Guðlaug María Lewis.

Verkefnið er barnamenningarhátíð með þátttöku 10 leikskóla bæjarins allra 6 grunnskólanna, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og dansskólanna tveggja í bænum.  Markmið verkefnisins er m.a. að gera börn að þátttakendum í menningarlífi frá fyrstu tíð, gera skapandi greinum í skólastarfi hærra undir höfði og að viðurkenna mikilvægi skapandi hugsunar. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.1 millj.

Nr. 15. Eiríkur Árni 75 ára, hátíðartónleikar. Umsækjandi og verkefnastjóri: Haraldur Árni Haraldsson. Flokkur: Menning.

Markmið verkefnisins er að heiðra Eirík Árna Sigtryggsson, tónskáld og tónlistarkennara, sem er fæddur og uppalinn í Keflavík í tilefni af 75 ára afmæli hans. Að þakka honum störf hans í áratugi í þágu tónlistarmenningar og tónlistarmenntunar í bæjarfélaginu og að frumflytja og kynna nýja tónlist hins afkastamikla Suðurnesjatónskálds. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 16. Heimamenn 339. Umsækjandi: Grindavíkurbær. Verkefnastjóri: Björg Erlingsdóttir. Flokkur: Menning.

Sýningarverkefni unnið í samvinnu Grindavíkurbæjar, tveggja listamanna og Listahátíðar auk þátttöku Akraneskaupstaðar og Þorlákshafnar. Sýning á útilistaverkum listamanna, innlendra og erlendra eftir dvöl og vinnu í bæjunum þremur. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 17. Hljómlist án landamæra – Umsækjandi: Sveitarfélögin 5 á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Guðlaug María Lewis. Flokkur: Menning.

Markmið hátíðarinnar er að auka gæði, gleði, aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu. Jafnframt að koma list fólks með fötlun á framfæri og auka samstarf á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 18. Með blik í auga. Umsækjandi og verkefnastjóri: Guðbrandur Einarsson. Flokkur: Menning.

Tónlistarsýning sem haldin hefur verið á Ljósanótt sl. 7 ár.  Markmiðið er að búa til tónlistarviðburð á svæðinu sem stenst samanburð við það sem best gerist og búa til skemmtun fyrir íbúa svæðisins. Verkefnið er handhafi Menningarverðlauna Reykjanesbæjar árið 2017. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 19. Sögur af Suðurnesjamönnum. Umsækjandi og verkefnastjóri: Páll Hilmar Ketilsson. Flokkur: Menning.

Markmið með verkefninu er að taka viðtöl við einstaklinga á Suðurnesjum sem hafa skarað fram úr á ýmsan hátt og hafa sett mark sitt á sögu Suðurnesja. Má þar nefna einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði menningar, íþrótta eða atvinnulífs. Viðtölin verða síðan aðgengileg á miðlum Víkurfrétta, sjónvarpi og rafrænum miðlum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 20. Þingvellir og þjóðarvitundin. Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri: Valgerður Guðmundsdóttir. Flokkur: Menning.

Verkefnið er sýning á Þingvallamyndum úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar og úr einkasafni Sverris Kristinssonar.  Við veltum fyrir okkur gildi þessa helgasta staðar Íslendinga fyrir þjóðarvitundina og einnig áhrifum Þingvalla á myndlist þjóðarinnar í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 21. Markaðssetning á heilsusalti. Umsækjandi og verkefnastjóri: Egill Þórir Einarsson. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Verkefnið stuðlar að uppbyggingu í matvælaiðnaði á Reykjanesi og nýtir auðlindir úr haf- og jarðsjó. Heilsusaltið er einstök afurð, sem er lágnatríum salt sem stuðlar að lækkun blóðþrýstings og er fyrirbyggjandi varðandi hjarta- og æðasjúkdóma. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 22. Reykjanes Retreat, hönnun og áætlanir. Umsækjandi og verkefnastjóri: Þóranna Kristín Jónsdóttir. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Verkefnið lýtur að áætlunargerð fyrir Reykjanes Retreat, sjálfbæra, skapandi og vistvæna dvöl og upplifun í samhljómi við náttúruna innan Reykjanes Geopark.  Reykjanes Retreat verður óvenjulegur, heillandi og ævintýralegur áfangastaður, þar sem gestir komast í samband við sjálfa sig, náttúruna og sköpunargleðina. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 millj.

Nr. 23. Eitt ár á Suðurnesjum. Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri: Valgerður Guðmundsdóttir. Flokkur: Menning.

Listasafn Reykjanesbæjar og Norræna húsið i Færeyjum verða í samstarfi með stóra ljósmyndasýningu. Norræna húsið leggur til sýninguna „Foroyar i et år“ og listasafnið sýninguna „Eitt ár á Suðurnesjum“. Í báðum sýningum hefur öllum heimamönnum verið boðið að senda inn ljósmyndir af daglegur lífi sinu á ákveðnum tíma. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1,5 millj.

Nr. 24. Samkomuhúsið Kirkjuhvoll, endurbygging. Umsækjandi: Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps. Verkefnastjóri: Helga Ragnarsdóttir. Flokkur: Stofn- og rekstur.

Samkomuhúsið Kirkjuhvoll á Vatnsleysuströnd var byggt árið 1932. Markmið félagsins er að gera Kirkjuhvol upp og færa í upprunalegt horf. Húsið mun verða nýtt fyrir smærri samkomur og tilfallandi verkefni auk þess sem sögu hússins og félaganna sem það byggðu verða gerð skil. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1,5 millj.

Nr. 25. Ferskir Vindar, alþjóðleg listahátíð.  Umsækjandi: Ferskir vindar, menningarfélag. Verkefnastjóri: Mireya Samper. Flokkur: Menning.

Ferskir vindar er alþjóðleg listahátíð sem haldin hefur verið í Garði annað hvert ár frá árinu 2010. Með Ferskum vindum blása nýir vindar um samfélagið og stuðla að jákvæðri þróun og uppbyggingu í menningarmálum.  Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2 millj.

Nr. 26. Safnahelgi á Suðurnesjum – Umsækjandi: Sveitarfélögin 5 á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Valgerður Guðmundsdóttir . Flokkur: Menning.

Safnahelgi á Suðurnesjum er sameiginleg kynning allra safna, sýninga og setra á Suðurnesjum sem liður í menningarferðaþjónustu utan hins hefðbundna ferðamannatíma. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2 millj.

Nr. 27. P.L.A.I. markaðssókn. Umsækjandi: Helgasport ehf. Verkefnastjóri: Helgi Guðfinnsson. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Verkefnið lýtur að markaðssókn á erlenda markaði fyrir líkamsræktarkerfið sem Helgi Jónas Guðfinnson hefur hannað og þróað á síðustu sjö árum. Markmiðið með verkefninu er að bjóða uppá skemmtilega, fjölbreytta og örugga þjálfun. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2 millj.

Nr. 28. Samfélagsvísindi á Suðurnesjum. Umsækjandi: Þekkingarsetur Suðurnesja. Verkefnastjóri: Hanna María Kristjánsdóttir. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Verkefnið gengur út á að innleiða samfélagsvísindi á Suðurnesjum og þróa afmörkuð verkefni ætluð almenningi, sem hluta af raunverulegum vísindarannsóknum. Mögulegur ávinningur af verkefninu er aukin umhverfisvitund, aukið virði umhverfis í hugum íbúa og betri möguleikar þeirra stofnana er standa að umsókninni til tengingar út í nærsamfélagið. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2,5 millj.

Nr. 29. Uppbygging á Bakka, innanhúss. Umsækjandi: Minja- og sögufélag Grindavíkur. Verkefnastjóri: Örn Sigurðsson. Flokkur. Stofn- og rekstur.

Bakki er talinn vera ein elsta uppistandandi sjóverbúð á Suðurnesjum. Bakki hefur þess vegna mikið sögu- og menningargildi fyrir Suðurnes. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3 millj.

Nr. 30. Útskálahús, endurgerð. Umsækjandi: Sveitarfélagið Garður. Verkefnastjóri: Jón Ben Einarsson. Flokkur Stofn- og rekstur.

Á Útskálum stendur elsta prestsseturshús landsins og  var það byggt árið 1889. Endurgerð hússins stendur yfir og má rekja upphaf verkefnisins til ársins 2004 þegar endurgerð hússins hófst. Að endurgerð lokinni nýtist húsið fyrir menningarviðburði og getur verið til sýnis fyrir almenning og ferðamenn. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3 millj.

Nr. 31. FIBRA tilraunahús í Grindavík. Umsækjandi: Fibra ehf. Verkefnastjóri: Regin Eysturoy Grímsson. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Hér er um nýja gerð húsa að ræða, sem munu verða endingarbetri, leka ekki, þola betur jarðskjálfta og eru viðhaldsfrí. Auk fleiri góðra kosta. Hér er sótt um styrk til að hanna tilraunahús. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3 millj.

Nr. 32. Nýr talsmaður. Umsækjandi: Reykjanes jarðvangur ses. Verkefnastjóri: Eggert Sólberg Jónsson. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Reykjanes Geopark ætlar sér að þróa nýjan talsmann fyrir Reykjanes. Markmiðið er að koma upplýsingum og fróðleik á framfæri við yngstu kynslóðina. Talsmaðurinn mun auðvelda öll samskipti við börn og auka þannig staðarvitund þeirra og þekkingu á umhverfismálum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3 millj.

Nr. 33. Þróun skimunarforrits í máltækni. Umsækjandi og verkefnastjóri: Bryndís Guðmundsdóttir. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Markmiðið er að þróa nýja vöru í forrit fyrir spjaldtölvur. Íslenska málhljóðamælinn, sem metur framburð íslensku málhljóðanna með byltingarkenndum hætti. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3 millj.

Nr. 34. Glærmöttull, útbreiðsla og áhrif. Umsækjandi: Náttúrustofa Suðvesturlands. Verkefnastjóri: Óskar Sindri Gíslason. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Aðkomutegundir í sjó eru umtalsvert vandamál víða um heim, því þær breyta oft umhverfinu og aðstæðum hinna náttúrulegu tegunda sem fyrir eru og geta jafnvel leitt til útrýmingar innlendra tegunda. Rannóknirnar beinast að glærmöttli sem nýlega fannst á Suðurnesjum. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3 millj.

Nr. 35. Endurbygging Gömlu búðar.Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri: Tryggvi Þór Bragason. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Verkefnið lýtur að uppbyggingu Gömlu búðar sem reist var af H.P. Duus kaupmanni í Keflavík árið 1871.  Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 4 millj.

Nr. 36. Taramar, útrás til Bretlands. Umsækjandi: Taramar ehf. Verkefnastjóri. Guðrún Marteinsdóttir. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun.

Meginmarkmið verkefnisins er að undirbúa sókn fyrir vörur TARAMAR á erlenda markaði með áherslu á Bretlandsmarkað. Þrátt fyrir aukið framboð á lífvirkum snyrtivörum þá er enn til staðar stórt tækifæri sem einkennist af skorti á hreinum og öruggum vörum sem hafa sannanlega lífvirkni og sjáanlega áhrif á húð.  Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 4 millj.

Nr. 37. Fjölþætt heilsuefling í sveitarfélögum. Umsækjandi og verkefnastjóri: Janus Friðrik Guðlaugsson. Flokkur Atvinnu- og nýsköpun.

Meginmarkmið verkefnisins er að efla heilsu og velferð eldri aldurshópa í viðkomandi sveitarfélögum, Reykjanesbæ og Vogum. Með þátttöku þeirra í fjölþættri og markvissri heilsurækt. Ráðgjöf um næringu og aðra heilsufarsþætti þannig að hinir eldri geti lengur tekist á við athafnir daglegs lífs og dvalið lengur í sjálfstæðri búsetu. Markmið er jafnframt að draga úr útgjöldum tengdum sérhæfðri þjónustu fyrir hina eldri. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 5 millj.