fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Vel sóttur fundur fyrirtækja í Grindavík

Fundur um málefni fyrirtkæja í Grindavík var vel sóttur en hann fór fram á Mariott Hótelinu í Reykjanesbæ þann 7. desember sl.

Fundurinn er annar í röðinni eftir rýmingu Grindavíkur en á hann mættu Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sigurður A. Kristmundsson hafnarstjóri Grindavíkur og Guðjón Bragason lögfræðingur sem fenginn hefur verið til þess að vera fyrirtækjum innan handar.

Farið var yfir spurningar sem ekki náðist að svara á síðasta fundi og snerust þær að miklu leyti að samgöngumálum og Grindavíkurvegi en fram kom á fundinum að framkvæmdum við varnargarða ljúki í næstu viku og þá verði farið að huga að því að koma veginum í ökuhæft form þegar leyfi gefst. Full vetrarþjónusta sé á öðrum leiðum.

Þá tóku til máls á fundinum fulltrúi Veðurstofunnar, jarðfræðingurinn Benedikt Ófeigsson sem fór yfir virknina á Reykjanesi og stöðuna eins og hún lítur út. Fram kom í máli hans að ekki er lengur virkni í kvikuganginum sem fór undir Grindavík 10. nóvember en áframhaldandi innflæði er í Svartsengi.

Þar er verið að horfa á svipaða atburðarás en tímaramminn er óljós og getur flæðið haldið áfram í mánuði án þess að nokkuð gerist. Margir möguleikar eru í stöðunni, en flestir telja líklegastu sviðsmyndina að við fáum annað kvikuinnskot inn í Sundhnúkagígaröðina líkt  og 10. nóvember en það yrði miklu minni atburður, sérstaklega ef það gerist fljótlega.

Fulltrúi Vinnumálastofnunar kynnti umsóknir fyrir launþega og sjálfstætt starfandi en opnað verður fyrir umsóknir fyrir atvinnurekendur þann 15. desember. Stefnt er að því að greiða fyrir vikulok þeim sem ekkert fengu greitt í nóvember. Fulltrúar Vinnumálastofnunar verða í Tollhúsinu út desember og fram í janúar og geta fyrirtæki mætt þangað og fengið aðstoð. Þá geta aðildafélög SA og aðrir sótt Teams fund 14. desember kl. 14:00. þeir sem vilja taka þátt senda póst á netfangið studningur@vmst.is og óski eftir að fá að koma inn á þann fund.

Minnt er á spurt og svarað á vef Vinnumálastofnunar.

Að lokum var boðið upp á ráðgjöf til fyrirtækja á skrifstofum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum en fyrirtæki geta bókað slíka ráðgjöf hjá Guðjóni Bragasyni hér eða sent honum línu á gudjon@almannavarnir.is.