Árshlutauppgjör Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 01.01.-30.06.2013
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum er stofnun í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og bera þau ábyrgð á skuldbindingum þess. Eignarhaldið er breytilegt og fer eftir íbúafjölda í sveitarfélögum á hverjum tíma. Hlutverk sambandsins er í meginatriðum að hafa umsjón með og annast ýmiskonar verkefni sem sveitarfélögin á Suðurnesjum standa sameiginlega að. Starfsemi sambandsins flokkast því undir að vera á vettvangi sveitarfélaga.
Á árinu 2003 seldi sambandið skuldabréf í opnu skuldabréfaútboði fyrir 500 millj. kr. Lánið er verðtryggt, greiðist á tíu árum og ber 5% fasta vexti. Láninu er ætlað að fjármagna framkvæmdir við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem sveitarfélögin þar standa að. Samkvæmt samkomulagi þeirra við ríkissjóð mun hann greiða hlutdeild í framkvæmdum og annast sambandið fjármögnun þeirra fyrir hönd sveitarfélaganna. Sveitarfélögin bera hlutfallslega ábyrgð á greiðslu lánsins og sambandið sér um að innheimta hjá hverju þeirrra hlutdeild í afborgun og vöxtum af láninu á hverjum gjalddaga og standa skil á þeim til skuldareigenda. Þann 30.júní 2013 námu eftirstöðvar lánsins 30,3 millj. kr. og eftirstöðvar þess voru í fullum skilum. Í samræmi við skilmála lánsins var það greitt upp þann 1. ágúst 2013.
Tekjuafgangur sambandsins á tímabilinu 1/1 – 30/6 2013 nam um 6,6 milljónum kr. og eigið fé þann 30/6 2013 nam 41,9 milljónum kr. samkvæmt árshlutareikningi. Starfsemi sambandsins var í megninatriðum í samræmi við áætlanir og greiðslur sveitarfélaganna til sambandsins vegna fjármögnunarverkefna þess voru í skilum.
Berglind Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og veitir frekari upplýsingar um starfsemi þess og stöðu.
Reykjanesbæ, 23. ágúst 2013