fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Fjölmenni á vetrarfundi ferðaþjónustunnar

Fjölmenni sótti Vetrarfundi ferðaþjónustunnar á Reykjanesi fimmtudaginn 16.febrúar í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Gestir fundarins komu úr hinum ýmsu greinum atvinnulífsins, stoðkerfi og stofnunum á svæðinu og víðar.

Kristin Rangnes, framkvæmdastjóra Gea Norvegica Unesco Geopark í Noregi og varaforseta European Geoparks Network fjallaði m.a. um verðmætin og samvinnuna sem felst í því að vera UNESCO Global Geopark líkt og Reykjanes Geopark er í dag. Reykjanes hefur verið UNESCO Global Geopark síðan 2015 og afhenti Kristin forstöðumanni Reykjanes Geopark formlega viðurkenningu að því tilefni.

Dagný Hulda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, skýrði frá yfirgripsmikilli markaðsgreiningarvinnu sem farið var í fyrir Suðurlandið. Greiningin gaf þeim fjölda verkfæra og ýtti undir mikilvægi samvinnu þeirra aðila sem koma að ferðaþjónustu.

Ræðumenn komu víða að en Róbert Guðfinnsson, athafnamaður, kom á fundinn frá Siglufirði þar sem hann hefur m.a. staðið í hóteluppbyggingu og ferðaþjónustu. Bar hann saman þá tíma þegar Íslendingar fóru of geyst í fiskveiði, og gæðin viku fyrir magni, við ferðamennsku á Íslandi í dag. Róbert lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að byggja upp áfangastaði og skila framtíðar kynslóðum góðu bú í ferðaþjónustu sem og öðrum störfum.

Allir ræðumenn voru sammála um mikilvægi samvinnu og samstarfs í áframhaldandi þróun og starfi ferðaþjónustu á Íslandi.

Þá veittu Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes UNESCO Global Geopark, sem stóðu fyrir fundinum, nýsköpunar- og hvatningarverðlaun fyrir framtak í ferðaþjónustu. Veitingastaðurinn Vitinn og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum fengu hvatningar- og nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar í ár á meðan Johan D Jónsson fékk afhend Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar.

Fundinum var svo slitið við hlátrasköll með ljóðlestri og öðrum skemmtilegheitum sem Frímann Gunnarsson stýrði.