Góð þátttaka á Mannamóti 2014
Í gær, fimmtudag 23. janúar, stóðu markaðsstofur landshlutanna í fyrsta sinn fyrir sameiginlegum kynningarfundi eða stefnumóti við ferðaþjónustuaðila af landsbyggðinni undir nafninu Mannamót. Mannamótið var haldið í flugskýli flugfélagsins Ernis kl. 12-16 og komu saman um 160 öflug fyrirtæki af öllu landinu og kynntu vörur sínar og þjónustu.
Tilgangurinn með verkefninu er að kynna landsbyggðarfyrirtæki í ferðaþjónustu fyrir ferðasöluaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og vinna með því að dreifingu ferðamanna um landið og uppbyggingu heilsársferðaþjónustu.
Mjög góð þátttaka var á þessu fyrsta Mannamóti markaðsstofanna og fór þátttaka fram úr vonum. Áætlað er að á milli 7-800 gestir hafi komið og var fólk almennt sammála um að mikil gróska og tækifæri væru í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Níu öflug fyrirtæki tóku þátt í Mannamóti fyrir hönd Reykjaness; Fjórhjólaævintýri í Grindavík, veitingastaðurinn Vitinn og Þekkingarsetrið í Sandgerði, Leiðsögunám Keilis í ævintýraferðamennsku, Hljómahöllin, Duushús, Víkingaheimar, Hótel Keflavík og Hótel A10 í Reykjanesbæ auk Reykjaness jarðvangs og Markaðsstofu Reykjaness sem jafnframt var einn af undirbúningsaðilum Mannamóts.
Markaðsstofurnar eru mjög ánægðar með þessa miklu þátttöku og ljóst þykir að endurtaka verður þennan velheppnaða viðburð aftur að ári.
Fleiri myndir af Mannamóti 2014 er hægt að finna hér.
Fyrir hönd Markaðsstofu Reykjaness
Þuríður Aradóttir, verkefnastjóri