fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Hringasveppir besta hugmyndin í Hacking Reykjanes

Verkefnið Hringasveppir kom sá og sigraði lausnarmótinu Hacking Reykjanes sem lauk um liðna helgi.
Á bak við verkefnið standa þær Justine Vanhalst og Ali Leeper en það svaraði öllum fjórum áskorunum sem settar voru fram í samstarfi við bakhjarla Hacking Reykjanes sem voru Kaupfélag Suðurnesja, Kadeco, HS orka og Fisktækniskólinn/Sjávarklasinn.
Í dómnefnd sátu Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri íslenska ferðaklasans, Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans og Gunnhildur Vilbergsdóttir formaður stjórnar Eignarhaldsfélags Suðurnesja.
Umsögn dómnefndar
Hugmyndin um hringasveppina uppfyllti sérstaklega vel alla þá flokka sem leitað var eftir í lausnamótinu. Að mati dómnefndar var sýnt fram á með sannfærandi hætti hvernig ræktun hringrásasveppanna komi til með að nýta auðlindir svæðisins á sjálfbæran hátt og auka með þeim verðmætasköpun.
Hringasveppir geta með góðu framtaki orðið nýr áfangastaður á Reykjanesinu fyrir Íslendinga og ferðamenn sem dómnefnd fannst einnig mjög spennandi og geta orðið hvatning til að það verði farið í að kortleggja alla hliðarstraumana á Reykjanesinu sem koma til greina til verðmætasköpunar.
Kynning þeirra Justine og Alexandra var framúrskarandi og trúverðug. Mikil þekking er til staðar í teyminu og augljós geta til að framkvæma hugmyndina.
Verðlaunin fyrir bestu hugmyndina eru 600.000 kr sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum Eignarhaldsfélag Suðurnesja, HS Orka og Algalíf veita. Auk þess hlýtur sigurteymið deluxe gistingu á Hotel Keflavik – Hótel Keflavík fyrir tvo, þriggja rétta ævintýraferð kokksins fyrir tvo á KEF Restaurant, miða fyrir tvo í Aurora floating í Kyrrðin á Northern Light Inn og vörur frá GeoSilica Iceland og Zeto.
Við viljum þakka öllum bakhjörlum, stuðningsaðilum og dómnefnd fyrir þátttökuna en síðast en ekki síst þátttakendum sjálfum. Sérstakar þakkir fá Bláa Lónið og Kvikan Menningarhús í Grindavík.