fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Húshitunarkostnaður á Suðurnesjum

Líkt og undanfarin ár, hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni, á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli.

Á Suðurnesjum eru allir byggðakjarnar með hitaveitu frá HS Veitum og verð og verðbreytingar eru svipuð alls staðar. Þar hefur lægsti húshitunarkostnaður hækkað um u.þ.b. 6% frá 2014. Lægsta verðið er í Reykjanesbæ 92 þ.kr. en í Grindavík, Suðurnesjabæ og Vogum er lægsti húshitunarkostnaður milli 98 og 99 þ.kr. Hæsti húshitunarkostnaður viðmiðunareignar í þéttbýli á Suðurnesjum er í Höfnum 107 þ.kr.

Heildarorkukostnaður
Lægsti heildarorkukostnaður landsins er á Seltjarnarnesi 153 þ.kr. en þar næst á Flúðum 155 þ.kr. og í Mosfellsbæ 162 þ.kr.

Á Suðurnesjum er orkukostnaður víðast svipaður og hækkun alls staðar sú sama frá 2014 eða um 2%. Í Reykjanesbæ er heildarorkukostnaður viðmiðunareignar nú 175 þ.kr. en í Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum er hann 180-182 þ.kr. Í Höfnum er heildarorkukostnaður ívið hærri, eða 190 þ.kr.

Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m2 að grunnfleti og 350m3. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu. Við útreikninga var almenn rafmagnsnotkun og fastagjald tekin saman annarsvegar og hitunarkostnaður hins vegar. Gjöldin eru reiknuð út samkvæmt gjaldskrá þann 1. september 2021.

Samhliða þessari skýrslu kemur út mælaborð þar sem hægt er að skoða orkukostnað í byggðakjörnum á Íslandskorti, skoða raforku- og húshitunarkostnað sér og bæta við útreikningi fyrir varmadælu fyrir staði með beina rafhitun. Mælaborðið er aðgengilegt á heimasíðu Byggðastofnunar.