fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Nýjar merkingar við Brú milli heimsálfa

Á næstu vikum stendur til að setja upp nýjar merkingar við Brú milli heimsálfa en þær sem fyrir voru eru komnar til ára sinna. Nýju skiltin skarta nýjum skýringamyndum sem hannaðar eru af Guðmundi Bernhard, grafískum hönnuði. Skiltin sjálf eru samkvæmt skiltastaðli sem sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa sameinast um við merkingar á áhugaverðum stöðum. Reykjanes jarðvangur, Ferðamálasamtök Reykjaness og Reykjanesbær hafa unnið í sameingingu að verkefninu. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir verkefnið.
Brúin var vígð árið 2002 við hátíðlega athöfn er þeir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra og Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra klipptu á borða á milli Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans. Í kjölfarið „gengu þeir á milli heimsálfa“. Flekaskilin eru reyndar flóknara fyrirbæri en svo að á einum stað sé hægt að ganga á milli þeirra. Brúin hefur hins vegar verið vinsæl hjá íbúum, ferðamönnum og nemendum til að átta sig betur á hreyfingum meginlandsflekanna. Fjölmargir hafa ímyndað sér að þeir gangi á milli flekaskilanna frá því brúin var tekin í notkun.
Brú milli heimsálfa hefur ítrekað mælst einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Reykjanesi og eru uppi áætlanir um frekari uppbyggingu á svæðinu í framtíðinni. Hægt er að fá viðurkenningarskjöl fyrir að hafa gengið yfir brúnna í upplýsingamiðstöðvum á Reykjanesi.