Sálfræðiþjónusta í FS fellur niður
Sálfræðiþjónusta sem boðist hefur nemendum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 2016 – 2018 mun að öllum líkindum falla niður vegna skorts á fjármagni frá ríkinu.
Talið er ljóst að aðgengi að þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu er minna eftir útskrift úr grunnskóla en fleiri nemendur en áður upplifa margvíslega erfiðleika á framhaldsskólaárunum. Dæmi um það er námserfiðleikar, einbeitingarleysi, slök skólasókn, félagsleg einangrun og að lokum brottfall.
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fjallaði um málið á fundi sínum þann 5. júní sl. en þar kom fram að mikilvægt væri að sálfræðiþjónusta væri áfram í boði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og er ríkisvaldið hvatt til þess að tryggja fjármagn til þjónustunnar.