fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

21. Aðalfundur SSS 11. september 1998

21. aðalfundur S.S.S. haldinn í Stóru-Vogaskóla, Vatnsleysustrandarhreppi föstudaginn 11. og laugardaginn 12. sept. 1998.

Dagskrá:

Föstudagur 11. september 1998.

Kl. 13.00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 13.30 2. Fundarsetning.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Skýrsla stjórnar:  Jón Gunnarsson, formaður S.S.S.
  5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 1997,
   Guðjón Guðmundsson, framkv.stj.
  6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning
  7. Ávarp frá félagsmálaráðuneyti.
   Árni Gunnarsson aðstoðarmaður félagsmálaráðherra.
  8. Ávörp gesta.
Kl. 14.30 9. Skýrslur starfshópa.
Kl. 14.50 10. Tillögur og ályktanir lagðar fram.

Kl. 15.00 11. Kaffihlé.

Kl. 15.30 12. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna.
   Kynning áfangaskýrslu landshlutanefndar Reykjaness.
    Drífa Sigfúsdóttir formaður landshlutanefndar Reykjaness.
Ævar H. Kolbeinsson og Almar Halldórsson, sérfræðingar á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi.
Kl. 16.20 13. Umræður
Kl. 17.00 14. Fundi frestað

Laugardagur 12. september 1998.

Kl. 09.30 -Morgunkaffi-

Kl. 10.00 15. Þróun í rekstri borga og sveitarfélaga.
   Samanburðarfræði og árangursstjórnun.
   Guðfinna Bjarnadóttir rektor Viðskiptaháskólans í Reykjavík.
  16. Umræður og fyrirspurnir.

 

Kl. 11.30 (Aðalfundur Héraðsnefndar Suðurnesja)
Kl. 12.00 17. Matarhlé.
Kl. 13.00 18. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum
Jón Gunnarsson formaður S.S.S.
  19. Umræður.
Kl. 14.00 20. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Kl. 14.40 21. Önnur mál.
Kl. 14.50. 22. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
  23. Kosnir 2 skoðuðnarmenn reikninga og 2 til vara.
  24. Kosnir 3 fulltrúar í launanefnd S.S.S. og 2 til vara.
  25. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfundi Landsvirkjunar.
  26. Áætluð fundarslit.

  Opið hús á skrifstofum S.S.S. og HES á Fitjum að loknum fundi.

Kl. 19.30 Afmæliskvöldfagnaður (20 ára) í boði S.S.S. fyrir fundarmenn, maka og  boðsgesti í Eldborg (Móttökuhús Hitaveitu Suðurnesja) Svartsengi.

  Fulltrúafjöldi:

  Reykjanesbær   11
  Grindavíkurbær    8
  Sandgerðisbær     8
  Gerðahreppur     8
  Vatnsleysustrandarhreppur   6

Gestir fundarins og frummælendur:

Ólafur G. Einarsson, Árni M. Mathiesen, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv. Friðleifsdóttir,  Árni R. Árnason, Hjálmar Árnason, Guðmundur Árni Stefánsson, Kristján Pálsson, Ágúst Einarsson, Kristín Halldórsdóttir, Almar Halldórsson, sérfræðingur á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi, Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Drífa Sigfúsdóttir, formaður landshlutanefndar Reykjaness, Guðfinna Bjarnadóttir rektor Viðskiptaháskólans í Reykjavík,   Vilhjálmur Vilhjálmsson, form. Sambands Ísl. sveitarfélaga, Jónas Egilsson, framkv.stj. Samtaka sveitarfél. á höfuðborgarsvæðinu, Guðjón I. Stefánsson framkv.stj. Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Magnús Guðjónsson, framkvæmdastj. Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, Ólafur Arnbjörnsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Friðjón  Einarsson, framkv.stj. Markaðs og atvinnu-málaskrifstofu Reykjanesbæjar.

Dagskrá:

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.

2. Fundarsetning:
Jón Gunnarsson, formaður stjórnar S.S.S. setti fundinn og bauð fundarmenn og gesti velkomna

3 Kosning fundarstjóra og fundarritara:
Jón Gunnarsson gerði að tillögu sinni að Jóhanna Reynisdóttir og Hafsteinn Snæland yrðu fundarstjórar og Snæbjörn Reynisson og Særún Jónsdóttir yrðu fundarritarar.  Var það samþykkt með lófataki.

4. Skýrsla stjórnar.
Jón Gunnarsson, formaður stjórnar S.S.S. flutti skýrslu stjórnar og er hún eftirfarandi:
Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum fagnar nú um þessar mundir 20 ára afmæli sínu. Óhætt er að segja að þess sjáist víða merki að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa átt gott og öflugt samstarf allan þennan tíma. 
Eins og venjulega hefur verið mikið að gera á síðastliðnu starfsári og haldnir voru 19. bókaðir stjórnarfundir, þar sem tekin voru fyrir 141 mál sem snerta marga málaflokka.  Hér á eftir mun ég í stuttu máli gera ykkur grein fyrir því helsta sem stjórnin hefur verið að sýsla á árinu, en eins og gefur að skilja er aldrei um tæmandi upptalningu að ræða í stuttri skýrslu eins og hér er flutt.
Á fyrsta fundi stjórnar skipti hún með sér verkum á þann hátt að sá sem hér stendur var kosinn formaður, Drífa Sigfúsdóttir var kosin varaformaður og Sigurður Jónsson ritari.  En stjórnina skipa auk okkar Hallgrímur Bogason og Óskar Gunnarsson
Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um rekstur sambandsins sem gekk vel á síðasta ári og læt öðrum um að meta hvort þar hefur verið um hagkvæman rekstur að ræða eða ekki.
Málefni fatlaðra hafa verið mikið til umræðu á stjórnarfundum í kjölfar þeirrar stefnumörkunar að málaflokkurinn skyldi flytjast til sveitarfélaganna á landsvísu.  Í landshlutanefnd vegna yfirtöku á þjónustu við fatlaða voru skipaðir tveir fulltrúar frá SSS þau Drífa Sigfúsdóttir og Sigurður Jónsson en í landshlutanefndinni sitja einnig fulltrúar frá SSH, (samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu).  Framkvæmdastjórar beggja samtakanna hafa einnig starfað með nefndinni.  Eins og flestum ykkar er kunnugt, þá er hér um verulega flókinn og erfiðan málaflokk að ræða og ég hvet ykkur til að fylgjast vel með því sem fram kemur hér á eftir þegar áfangaskýrsla verður flutt um málið.  Færsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga var barnaleikur miðað við færslu á þessum málaflokki.
Vel gekk að þessu sinni að vinna fjárhagsáætlanir fyrir samrekin fyrirtæki og stofnanir og skilaði fjárhagsnefnd tillögum sínum til stjórnar SSS þ. 12. Janúar sl.  Tillögurnar voru síðan sendar sveitarstjórnum til umfjöllunar og afgreiðslu þ. 20. Janúar.  Sveitarstjórnir samþykktu allar framkomnar tillögur stjórnar án breytinga.  Í fjárhagsáætlunum var tekið á uppsöfnuðum halla í rekstri sumra samstarfsstofnana og var orðið tímabært að gera það, þannig að gamall halli stæði þeim ekki fyrir þrifum.  Niðurstaða kom í samræmt starfsmat fyrir þá starfsmenn sveitarfélaganna sem eru félagsmenn í STFSB.  Matið kom nokkuð mismunandi niður eftir stofnunum og voru aukin fjárútlát vegna þess bætt þar sem þurfti.
Stjórn hefur á fundum sínum rætt nokkuð um fyrirkomulag við gerð kjarasamninga, bæði hvað starfsmatið varðar og einnig hlutverk launanefndar SSS.  Án þess að ég vilji fara langt út í þá sálma hér, þá er deginum ljósara að sveitarfélögin á Suðurnesjum þurfa að skoða hvaða aðferðir skal viðhafa í samningum milli þeirra og stéttarfélaganna og hvort núverandi starfsmatskerfi er það sem nota skal til framtíðar eða ekki.  Í framhaldi af stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og í ljósi þess að sveitarfélögin á Suðurnesjum höfðu gerst stofnaðilar að sjóðnum, samþykkti stjórn að SSS myndi gerast aðili að sjóðnum.
Nú virðist loks kominn skriður á mál sem hefur tekið drjúgan tíma stjórnar á undanförnum árum og á ég þar við D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja, sem nú heitir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Búið er að skrifa undir verksamning um fyrsta áfanga og framkvæmdir hafnar.  Því ber að fagna þar sem fulljóst er að full þörf er fyrir bygginguna og þá starfssemi sem þar mun fara fram.  Samstaða sveitarfélaganna á Suðurnesjum átti stóran þátt í því að þessi langþráði draumur okkar er nú loks að verða að veruleika.  Það er einnig ljóst að sveitarstjórnir þurfa að standa vörð um að Heilbrigðisstofnunin fái nauðsynlegar fjárveitingar til rekstrar á komandi misserum, en þar hefur nokkuð skort á að undanförnu.
SSS flutti skrifstofur sínar fyrir stuttu frá Vesturbraut og út á Fitjar. Leigusamningur var gerður við Reykjanesbæ um húsnæðið og sá SSS um allar breytingar á því en kostnaðurinn við þær gengur síðan upp í umsamda leigu á leigutímanum.  Vel hefur til tekist með flutninginn og það getið þið sjálf sannreynt eftir að fundi lýkur í dag, því ég er þess fullviss að enginn ykkar mun sleppa því ágæta boði að berja skrifstofurnar augum. 
Ef rekstur Brunavarna Suðurnesja verður fluttur til Reykjanesbæjar um næstu áramót, þá kemur það til með að hafa nokkur áhrif á rekstur skrifstofu SSS.  Tíminn til áramóta er stuttur og því er nauðsynlegt að það liggi fyrir eins fljótt og unnt er hvort af flutningi verði og þá með hvaða hætti.
Eftir skoðun á boði sem SSS barst um að stofna til tengsla við héraðsstjórn franska héraðsins Charente Maritime ákvað stjórn að skrifa undir samstarfssamning milli aðila.  Hér var á engann hátt verið að stofna til hefðbundinna vinabæjartengsla, þar sem slík tengsl eru ekki á verksviði SSS, heldur er um gagnkvæman samning að ræða þar sem báðir aðilar munu aðstoða við að vekja áhuga fyrirtækja, stofnana, og einstaklinga á landssvæði hins.  Ekki hefur mikið verið unnið í málinu síðan skrifað var undir samninginn, þar sem stutt var eftir af starfstíma núverandi stjórnar var talið eðlilegra að sú stjórn sem við tæki þróaði samstarfið áfram.
Undanfarið ár hefur SSS gegnt formennsku í hefðbundnu samstarfi landshluta-samtaka á Íslandi.  Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka hafa fundað í tengslum við ráðstefnur, eða fundi á vegum Sambands ísl. Sveitarfélaga og farið yfir þau mál sem helst brenna á sveitarfélögum á landsvísu hverju sinni.  Nokkuð verður vart við togstreitu milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins þegar byggðarmál ber á góma og eins og vanalega þá eru Suðurnesin stundum flokkuð til landsbyggðar, en stundum til höfuðborgarsvæðisins, eftir því hvað hverjum þykir henta á hverjum tíma.
Talandi um togstreitu milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, þá hafa flest ykkar orðið jafnhissa og ég varð, þegar ég frétti að Reykjavíkurborg væri að ásælast land á Suðurnesjum.  Í ljósi þessa atburðar, sem ég held að verði ekkert einsdæmi á næstu árum, þá er nauðsynlegt að við höldum vöku okkar og ákveðum sjálf hvernig við viljum að Suðurnes líti út í næstu framtíð og hvort við viljum halda saman þessari heild sem Suðurnes hafa þó verið á undanförnum árum.  Ef við ákveðum ekki stefnuna í þessu sjálf, þá verða einhverjir aðrir til þess að gera það fyrir okkur.
Sú stjórn sem nú er að láta af störfum hefur alltaf af og til á starfstíma sínum rætt um hvort núverandi form samstarfs sveitarfélaganna hér á Suðurnesjum væri eins hagkvæmt og skilvirkt og það gæti verið.  Það er svo með alla góða hluti að þó þeir endist vel, þá þarf alltaf reglubundið viðhald.  Í framhaldi af tillögu formanns ákvað stjórn að taka til skoðunar núverandi stjórnskipulag samstarfsverkefna með það í huga hvort ekki mætti einfalda það og gera það fljótvirkara en verið hefur.  Ég ætla ekki að rekja hér þá vinnu sem átt hefur sér stað, því flest ykkar sem hér eruð voruð einnig á sambandsfundi sem haldinn var um málið á Flughóteli í Reykjanesbæ þ. 20 ágúst sl. Einnig munum við ræða hér á morgun um samstarf sveitarfélaganna undir sérstökum lið.  Það á ekki að koma neinum fundarmanna á óvart þó ekki verði af framlagningu tillagna í málinu á þessum fundi, því það er skemmst frá því að segja að í kjölfar sambandsfundarins og fjölmargra viðtala við fulltrúa sveitarfélaganna allra, þar sem reynt var að finna samkomulagsflöt, tókst það ekki og enginn tilgangur í að leggja fram tillögur sem fyrirfram væri vitað að ágreiningur væri uppi um, milli einstakra sveitarstjórna á svæðinu.  Í umræðunni hér á morgun held ég að nauðsynlegt verði að ræða grundvöll samstarfsins og að þeir fulltrúar sem tjá sig um málið tali opinskátt og af fullri hreinskilni um væntingar og áform í samstarfsmálum sveitarfélaganna.
Á árinu mótaði stjórn reglur um kattarhald á Suðurnesjum og hafa þær nú verið samþykktar í öllum sveitarfélögunum.  Ekki er þó hægt að auglýsa þær svo þær taki gildi, því Reykjanesbær samþykkti að þær tækju ekki gildi fyrr en í janúar 1999.
Gengið var frá skuldarskilum vegna Atvinnuþróunarfélagsins sáluga sem sveitarfélögin voru stærstu eignaraðilar að, þannig að það hefur nú sofnað svefninum langa.
Ákveðið var að halda áfram samstarfi við Landgræðslu ríkisins um uppgræðslu á skaganum, en því beint til sveitarfélaganna á svæðinu að samstarf við aðra aðila í málaflokknum væri þá á vegum hvers sveitarfélags fyrir sig.  Hafnfirðingar óskuðu eftir samstarfi við Sveitarfélögin á Suðurnesjum um alhliða uppgræðslu og landbætur á Reykjanesskaga, en ekki náðist samstaða í stjórn SSS um afgreiðslu málsins.
Samgöngumál hafa alltaf af og til verið til umfjöllunar á stjórnarborði SSS.  Þar hefur tvöföldun Reykjanesbrautar verið sett í forgang en ljóst er nú, samkvæmt vegaáætlun, að nokkur bið virðist verða á því að tvöföldun verði að veruleika.  Samkvæmt áætluninni þá fara 21 milljón kr. árið 1999 til breikkunar á Reykjanesbraut, sama upphæð árið 2000, 66 milljónir árið 2001 og 124 milljónir árið 2002.  Eins og sést á þessum tölum verður um lítið annað en undirbúning að ræða, fram til ársins 2001 en eftir það gætu framkvæmdir hafist við breikkun einhverra hluta brautarinnar.  Áætluð verklok á breikkuninni eru árið 2010.  Nú er það svo að áætlun er og verður alltaf áætlun og hugsast getur að framlög til vegamála á landinu öllu, verði eitthvað aukin á komandi árum.  Það er því áframhaldandi verkefni Sveitarfélaganna að knýja á um, að tvöföldun brautarinnar verði flýtt frá því sem nú er áætlað.
Eitt af verkefnum stjórnar SSS er að leggja til hvernig framlagi til Suðurnesja úr safnvegasjóði er varið á hverju ári.  Safnvegir eru afleggjarar niður að lögbýlum og hefur framlaginu undanfarin ár verið veitt til viðhalds þessara vegaspotta.  Í ár var hinsvegar lagt til að féð rynni til merkingar á safnvegunum og var það samþykkt.  Ef þið eigið leið til Reykjavíkur á næstunni, þá er alveg tilvalið fyrir ykkur að aka Strandaveginn og þá sjáið þið þessi nýju merki.
Sú nýbreytni var tekin upp í starfstíð fráfarandi stjórnar að kalla saman til fundar fulltrúa Suðurnesja á landsþingi Sambands ísl. Sveitarfélaga, sem haldið var á Akureyri fyrir skömmu.  Einnig var fundað í sama hópi meðan á landsþinginu stóð.  Suðurnesjamenn stóðu saman þegar kom að því að velja sveitarstjórnarmenn til trúnaðarstarfa fyrir sambandið og fulltrúa Reykjaneskjördæmis í uppstillingarnefnd var gerð grein fyrir óskum Suðurnesjamanna í þessum efnum.  Hvort sem það var þessum undirbúningi að þakka eður ei, þá eigum við Suðurnesjamenn nú stjórnarmann í Sambandinu, þrjá fulltrúa í fulltrúaráði og varamann sem er ígildi aðalmanns í launanefnd Sambandsins.  Við höfum á undanförnum árum kvartað yfir því að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum væru hornreka, þegar kæmi að vinnu fyrir sveitarfélögin á landsvísu en nú getum við nokkuð vel við unað.
Ég ætla ekki að þreyta ykkur með langri upptalningu á þeim þingsályktunartillögum, lagafrumvörpum osfrv. sem stjórnin fékk til umsagnar á árinu, það getið þið kynnt ykkur í fundargerðum stjórnar og einnig hinar fjölmörgu beiðnir um styrki og afgreiðslur á þeim.

Ágætu aðalfundargestir.

Eins og þið hafið heyrt á því, sem fram kom hér að framan, hefur ýmislegt drifið á daga stjórnarinnar á heilu starfsári.  Þar hefur margt tekist vel en annað miður eins og gengur.  Ég hef nú starfað á vettvangi undanfarin 8 ár og átt þar verulega skemmtilegan tíma, þó stundum hafi verið erfitt.  Ég vil hvetja ykkur sem hér sitjið til þess að kynna ykkur  vel þá starfssemi sem fram fer innan veggja SSS, því að ég verð að viðurkenna að oft á tíðum hef ég staðið orðlaus þegar sveitarstjórnarmenn láta gammi geysa um samstarfið og þá velt fyrir mér hvort það geti verið að þeir vissu jafn lítið um það og orð þeirra hafa oft gefið til kynna. 
Að endingu vil ég þakka samstjórnarmönnum mínum skemmtilegt og árangursríkt samstarf, starfsmönnum öllum fyrir vel unnin störf og þá sérstaklega Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra Sambandsins sem staðið hefur sig frábærlega í rekstri þess.
Ég vona að ný stjórn verði jafn samhent og fráfarandi stjórn og óska henni velfarnaðar í starfi sínu.

 

     Jón Gunnarsson formaður

5.       Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 1997.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri S.S.S. lagði fram ársreikning S.S.S. fyrir árið 1997 og gerði grein fyrir þeim.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.  Engin umræða var um skýrslu stjórnar og ársreikning.  Var ársreikningurinn samþykktur athugasemdalaust.

7. Ávarp frá félagsmálaráðuneyti.
Árni Gunnarsson aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, flutti fundinum kveðjur frá Páli Péturssyni.  Í máli hans kom fram að aukið sjálfstæði og aukin verkefni sveitarfélaga sé jákvæð þróun.  Málefni fatlaðra og verkefni sem tengjast þeim eigi betur heima hjá sveitarfélögunum, en það þurfi að leysa mál sem tengjast fjármálahliðinni.
Eftirlitsiðnaður sé meðal þess sem skapi sóknarfæri fyrir sveitarfélög til að ná til sín verkefnum.
Jafnréttislagafrumvarp sé í burðarliðnum, svo og vatnsveitufrumvarp.  Ný lög um húsnæðismál taki gildi um áramót.  Þá taki við nýtt kerfi þar sem félagsleg jöfnun náist fram í gegnum vaxtabótakerfið.

8. Ávörp gesta.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, formaður S.Í.S. flutti S.S.S. afmæliskveðjur og þakkir fyrir gott samstarf.  Sigríður Anna Þórðardóttir flutti fundinum kveðjur frá þingmönnum kjördæmisins.
Jónas Egilsson flutti fundinum kveðjur frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

9. Skýrslur starfshópa.
Drífa Sigfúsdóttir gerði grein fyrir vinnu launanefndar vegna samninga við einstaklinga og hópa.
Friðjón Einarsson, MOA – Markaðs og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar gerði grein fyrir starfsemi skrifstofunnar og framtíðarsýn.
Kjartan Már Kjartansson, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum gerði grein fyrir tilurð miðstöðvarinnar, hvaða aðilar standa að henni, starfsemi hennar, stefnumótun og framtíðarsýn.

10. Tillögur og ályktanir lagðar fram:

Ályktun um heilbrigðismál.
Fundarskjal 2, lagt fram af Hallgrími Bogasyni.

Aðalfundur SSS haldinn í Vogum dagana 11-12. september 1998 fagnar því að  loks eru hafnar framkvæmdir við byggingu D-álmu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Fundurinn lýsir áhyggjum sínum yfir því, að talsvert vantar upp á, að rekstrarfjárveitingar á fjárlögum síðustu ára hafi dugað til að standa undir óbreyttum rekstri stofnunarinnar.  Fjölmargar úttektir á rekstrinum hafa þó  leitt í ljós að stofnunin er vel rekin í samanburði við aðrar sambærilegar stofnanir.
Fundurinn hvetur til þess að framtíðarhlutverk stofnunarinnar verði skilgreint í samvinnu við heimamenn og fjárveitingar á komandi fjárlögum verði í samræmi við þau verkefni sem stofnunin á að vinna.

Ályktun um ásælni Reykjavíkurborgar í landsvæði á Suðurnesjum.
Fundarskjal 3, lagt fram af  Jóni Gunnarssyni.

Aðalfundur SSS haldinn í Vogum dagana 11-12. september 1998 telur að bregðast verði við ásælni Reykjavíkurborgar í landsvæði á Suðurnesjum.  Það hlýtur að vekja hörð viðbrögð  þegar orkuveitufyrirtæki í eigu borgarinnar reynir að kaupa upp land með jarðvarma á orkuveitusvæði Hitaveitu Suðurnesja, sem er í nánum tengslum við núverandi orkuvinnslusvæði í Svartsengi.
Athygli vekur að þetta gerist á sama tíma og ekki hefur fengist virkjunarleyfi fyrir nýrri 30 MW virkjun í Svartsengi, sem sótt var um fyrir nokkrum árum.  Þar stendur á gerð samrekstrarsamnings við Landsvirkjun, sem er að stórum hluta í eigu Reykjavíkurborgar, þeirrar sömu og ætlar sér nú stóra hluti í virkjunarframkvæmdum.
Suðurnesjamenn hafa alla þá kunnáttu og afl sem þarf til að að virkja þann háhita sem er í iðrum jarðar á Reykjanesskaga og munu á engan hátt sætta sig við, að möguleikar þeirra á orkuvinnslu verði skertir til framtíðar.
Aðalfundurinn skorar á Iðnaðarráðherra að veita Hitaveitu Suðurnesja nú þegar það virkjunarleyfi sem leitað hefur verið eftir og lýsir jafnframt þeirri skoðun sinni  að rétt sé að Hitaveita Suðurnesja skoði alla möguleika til þess að auka orkuvinnslu sína ennfrekar og haldi jafnframt áfram öflugu starfi sínu við nýsköpun s.s. magnesíumverksmiðju á Reykjanesi.

Ályktun um slakan útsendingastyrk ljósvakamiðla á Suðurnesjum.
Fundarskjal 4, lagt fram af  Sigurði Jónssyni.

Aðalfundur SSS haldinn í Vogum dagana 11.-12. september 1998 lýsir undrun sinni á seinagangi ljósvakamiðlanna við að koma gæðum útsendinga sinna í lag á Suðurnesjum.
Í framhaldi af ályktun síðasta aðalfundar hafa farið fram viðræður, bæði við Ríkisútvarpið/sjónvarp og einnig Íslenska Útvarpsfélagið hf., um slakan útsendingarstyrk á stórum svæðum á Suðurnesjum.  Þrátt fyrir að það sé nú viðurkennd staðreynd að nauðsynlegt sé að bæta útsendingarstyrk og yfirlýsingar verið gefnar um að fljótlega verði úr bætt, hefur ekkert gerst í málinu.
Það hlýtur að vera umhugsunarefni hjá notendum þessara miðla á Suðurnesjum hvort eðlilegt sé að borga full afnotagjöld, fyrir vöru sem í raun er stórgölluð. 
Fundurinn felur stjórn S.S.S. að fylgja málinu eftir af fullum þunga og þrýsta á, að notendur á Suðurnesjum sitji við sama borð og aðrir, hvað gæði útsendinga varðar.

Ályktun um álversumræðu.
Fundarskjal 5, lagt fram af Sigurði Vali Ásbjarnarsyni.

Aðalfundur SSS haldinn í Vogum dagana 11-12. september 1998 undrast þá einhliða umræðu sem átt hefur sér stað á undanförnum misserum um staðsetningu næsta álvers á Íslandi.  Fundurinn minnir á að Keilisnes í Vatnsleysustrandarhreppi er talinn einn fýsilegasti kosturinn sem fyrirfinnst í landinu.  Þegar staðarval fyrir hugsanlegt álver Atlantsáls stóð sem hæst, þá var lögð á það þung áhersla af hálfu landsbyggðarþingmanna að við mat á staðarvalskostum skyldi raforkuverð vera það sama, allsstaðar á landinu, burtséð frá staðsetningu virkjana.
Fundurinn fer fram á það við þingmenn Reykjaneskjördæmis að við mat á staðsetningu nýs álvers verði þess gætt, að allur samfélagslegur kostnaður verði tekinn inn í þá útreikninga sem staðarval mun grundvallast á og næsta álver verði reist þar sem hagkvæmast er, að teknu tilliti til heildarkostnaðar.

Ályktun um málefni fatlaðra.
Fundarskjal 6, lagt fram af Drífu Sigfúsdóttur.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Vogum 10. og 11. september 1998, telur mikilvægt að vanda alla vinnu vegna flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.  Í Reykjaneskjördæmi vantar verulega á að  þörf fyrir þjónustu sé mætt.  Forsendur fyrir flutningi málaflokksins til sveitarfélaganna er að sveitarfélögin fái nauðsynlega fjármuni með verkefninu.  Tryggja þarf fjármögnun stofnframkvæmda auk þess sem sveitarfélögin þurfa fjárhagslegt bolmagn til að mæta þeim skuldbindingum sem í þjónustunni felst þ.e. faglegum kröfum, rekstri núverandi þjónustu svo og viðbótarþjónustu til að grynnka á biðlistum.  Þá þurfa sveitarfélögin að sameinast um margvísleg atriði vegna reksturs og umsjónar með málaflokknum auk þess að samræma vinnubrögð sín ´við veitingu þjónustunnar.
Vandaður undirbúningur er lykilatriði við jafn umfangsmiklar breytingar.  Nauðsynlegt að fá sem bestur heilræna sýn af núverandi stöðu mála og jafnframt að gaumgæfa rækilega markmið og leiðir, mögulega valkosti og aðferðir við framkvæmdina.  Þetta er umfangsmikill og flókin málaflokkur enda má segja að ver einstaklingur fái sér/sérstaka þjónustu.

Fundurinn vekur athygli á eftirfarandi:

• Rekstur málefna fatlaðra á vegum Svæðisskrifstofu Reykjaness var árið 1997   rúmlega 344,6 millj. kr.
• Fjöldi þjónustuþega 1997 var 822 einstaklingar.
• Þjónusta við fatlaða á Reykjanessvæði á vegum félagsmálaráðuneytis, utan svæðisskrifstofu, árið 1997 nam rúmlega 140 millj. kr.
• Auk þess var kostnaður 10 sveitarfélaga í kjördæminu árið 1997 kr. 75 millj kr.
• Það vantar verulega á að eftirspurn eftir þjónustu sé fullnægt.  Til að mæta biðlistum þarf viðbótarfjármagn í árlegan rekstur sem nemur 477.3 millj kr.
• Í maí 1998 voru t.d. 133 einstaklingar á biðlista eftir búsetu hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness og 100 einstaklingar bíða eftir dagþjónustu eða vinnuúrræði.
• Árlegur rekstrarkostnaður yrði 829,8 millj. kr. ef viðbótarfjármagni yrði bætt við samkvæmt mati á biðlistum.  Hér er um að ræða meira en tvöföldun á núverandi þjónustu.
• Heildarstofnkostnaður nýrra þjónustustaða á svæðinu til að tæma biðlista er rúmur milljarður eða 1.116 millj. kr.
• Nýgengi:  Gert er ráð fyrir að nýskráningar verði svipaðar og árin 1995-97 eða 25. á ári.  Það þýðir m.a. að biðlisti eftir búsetuúrræðum mun tvöfaldast á næstu 5 árum.
• Rekstrarkostnaður til að mæta árlegu nýgengi á biðlista yrði um 68,5 millj. kr.

Samkvæmt framanrituðu er langt frá því að biðlistum eftir þjónustu sé mætt.
Aðalfundurinn krefst þess að íbúar Reykjaneskjördæmi sitji við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar þjónustu við fatlaða.  Ganga þarf frá samkomulagi við ríkisvaldið vegna framangreindra atriða áður en sveitarfélögin taki við málaflokknum.  Vegna þessa telja fundarmenn mikilvægt að flýta sér ekki of mikið vegna verkefnisins.
Á undanförnum mánuðum hafa skapast miklar væntingar um að sveitarfélögin geti boðið upp á mun betri þjónustu en ríkisvaldið.  Því miður mun það reynast erfitt fyrir sveitarfélögin að standa  undir þessum væntingum ef fjármunir fylgi ekki með til þess að bæta þjónustuna.  Aðeins er verið að tala um að flytja verkefni á vegum  félagsmálaráðuneytis.  Því verða eftir fjölmörg grá svæði sem kalla á vönduð vinnubrögð svo þeir sem þurfa á þjónustu að halda lendi ekki í óþarfa hremmingum.
Að lokum tekur aðalfundur S.S.S. undir ályktun XVI. Landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga um málefni fatlaðra, sem samþykkt var í ágúst s.l.

Fylgiskjal:
Ályktun um yfirtöku á málefnum fatlaðra frá XVI. Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26. – 28. ágúst s.l.

Fundarskjal 7, lagt fram af Sigurði Vali Ásbjarnarsyni.

Aðalfundur S.S.S. haldinn í Vogum dagana 11.-12. september 1998 beinir þeim tilmælum til þingmanna Reykjaneskjördæmis að Suðurstrandarvegur og vegur um Ósabotna verði teknir inná vegaáætlun hið fyrsta .
Jafnframt krefst fundurinn þess að tvöföldun Reykjanesbrautar verði flýtt frá því sem ráð er fyrir gert í núgildandi vegaáætlun.

Fundarskjal 8, lagt fram af Jóni Hjálmarssyni.

Aðalfundur S.S.S. haldinn í Vogum dagana 11.-12. sept. 1998 skorar á dómsmálaráðuneytið að auka löggæslu hér á Suðurnesjum.

Greinargerð:
Fram hefur komið hjá lögreglunni hér að hún geti ekki sinnt störfum sínum sem skyldi vegna manneklu.  Það er því full ástæða til að fjölga lögreglumönnum.

11. Kaffihlé.

12. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna.
Kynning  á áfangaskýrslu landshlutanefndar Reykjaness Almar Halldórsson sérfræðingur á svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi gerði grein fyrir þjónustu við fatlaða á Reykjanesi í nútíð og framtíðarsýn.
Drífa Sigfúsdóttir fór orðum um tilurð skýrslunnar.  Hún nefndi m.a. 6 valkosti sem mögulegir væru í stöðinni.

1. Þjónustan yrði flutt til sérhvers sveitarfélags.
2. Sameiginlegur þjónustukjarni yrði fyrir sveitarf. á Reykjanesi.
3. Reykjanes skiptist í tvo kjarna: höfuðborgarsvæðið utan Reykja-víkur/Suðurnes.
4. Reykjavík og nágrenni/Suðurnes.
5. Reykjavík og sveitarfélög á Suðurnesjum myndi eitt sameiginlegt svæði
6. Óbreytt ástand.

13.    Umræður.
Jón Gunnarsson þakkaði landshlutanefndinni gott starf, svo og skýrslu-höfundum.  Kvað hann lítinn mun sjá á því að sækja þjónustu til Reykjavíkur eða ríkis.  Ríkið hafi augljóslega farið á svig við lög í skjóli fjárlaga.  Sveitarfélögin verði að gæta þess að taka ekki við pakkanum fyrr en ríkið hafi uppfyllt skyldu sína lögum samkvæmt.  Í skýrslunni komi fram æpandi mismunur milli Reykjavíkur og Reykjaness annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar.  Spurning hvort vantað hafi þrýsting frá svæðisskrifstofu.
Jónína Sanders kvað mikilvægt að fá fjármagn á svæðið fyrir þennan málaflokk –  þar halli mjög á Reykjavík og Reykjanes.  Lagði hún áherslu á að ekki yrði sett ákveðin dagsetning á yfirfærslu – líta ætti til þeirra reynslu-sveitarfélaga sem fengið hafa þennan málaflokk og skoða reynslu þeirra og þann fjárhagslega grunn sem þjónustan var var byggð á.
Jóhann Geirdal taldi að nýta ætti skýrsluna sem verkfæri til að knýja á um úrbætur frá hendi ríkisins, ekki sem grundvöll yfirfærsluviðræðna.
Skúli Skúlason þakkaði nefndinni góða skýrslu  Taldi hann æskilegt að fá umsagnir sem flestra sem málinu tengjast.  Hann benti á að í skýrsluna vanti e.t.v. að benda á þau atvinnutækifæri sem fullgilding laganna feli í sér fyrir svæðið.
Reynir Sveinsson lagði áherslu á að yfirfærslan mætti ekki íþyngja sveitarfélögunum.
Jón Gunnarsson taldi að koma þyrfti umræðunni betur til þingmanna, sem allir væru horfnir brott úr salnum.
Hörður Guðbrandsson fagnaði skýrslunni og því að málefnið yrði sett í forgang af sveitarstjórarmönnum.  Málaflokkurinn ætti eðlilega heima hjá sveitarstjórnum.
Almar Halldórsson svaraði þeim spurningum sem beint hafi verið til hans.
Drífa átti síðan lokaorðin.  Kvað hún skýrsluna geta orðið tæki til að bæta ástandið.

14.  Fundi frestað.

Laugardagur 12. sept. 1998.

15. Þróun í rekstri borga og sveitarfélaga.
Samanburðarfræði og árangursstjórnun.
Guðfinna Bjarnadóttir rektor Viðskiptaháskólans í Reykjavík flutti fyrirlestur um málefnið og sagði meðal annars frá reynslu sinni sem ráðgjafi á þessu sviði og nýjustu hugmyndum sem því tengjast.

16.    Umræður og fyrirspurnir.
Var gerður góður rómur að erindi þessu sem þótti, að dómi þeirra sem á hlýddu og um efni þess tjáðu sig, afskaplega vel fram sett, gagnlegt og upplýsandi.
Til máls tóku Drífa Sigfúsdóttir, Kristmundur Ásmundsson, Skúli Skúlason, Finnbogi Björnsson, Jóhann Geirdal, Reynir Sveinsson og Guðjón Guðmundsson.
Að lokum svarði Guðfinna spurningum fundarmanna.

17. Matarhlé.

18. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Jón Gunnarsson formaður S.S.S.
Ágætu aðalfundarfulltrúar og gestir.

Enn einu sinni er komið að því að sveitarfélögin hér á Suðurnesjum ræði um samstarf sitt og velti fyrir sér í hvaða stöðu það er á 20 ára afmæli þess.  Þetta hefur verið gert nokkuð reglubundið frá því að samstarf sveitafélaganna hófst, því að sjálfsögðu breytist umhverfi sveitarfélaga eftir því sem tíminn líður og sem betur fer er ekkert óbreytt í heimi hér.
Það fer ekki hjá því að í framsögu minni hér verði minnst á einhver atriði sem fram komu á síðasta sambandsfundi, því sá sambandsfundur og viðræður í kjölfar hans, er aðal orsökin fyrir því að samstarfsverkefnin eru tekin með þessum hætti inn í dagskrá aðalfundarins, en ekki koma fram beinar tillögur að framtíðarskipulagi samstarfsverkefna okkar.
Við þekkjum flest þá umræðu sem oft hefur verið uppi um samstarfsverkefnin á undanförnum árum.
Talað hefur verið um að:
• Ákvörðunartaka sé seinvirk.
• Tengsl milli fyrirtækja og stofnana og síðan sveitar- og bæjarstjórna séu ekki nægjanlega mikil.
• Minnihlutar á hverjum stað komi ekki nægjanlega mikið að ákvarðanatöku.
• Óljóst sé oft á tíðum hver heyri undir hvern.
• Að S.S.S. sé bákn, án þess þó að skilgreint sé með nægjanlega skýrum hætti í hverju báknið felst.
• Með samstarfi séu sum sveitarfélaganna að greiða niður þjónustu fyrir önnur sveitarfélög í samstarfinu.
• Peningar sem í samstarfið eru settir séu blóðpeningar og baggi á sveitarfélögunum.
• Samstarf sveitarfélaganna standi í vegi fyrir sameiningu þeirra. 

Ég er viss um að fundarmenn geta bætt nokkuð mörgum ástæðum við þennan lista frá eigin brjósti og einnig að þeir hafi heyrt þær nokkrar í viðbót við þessa upptalningu.
Sumt af þeirri gagnrýni sem heyrst hefur á fullan rétt á sér og allir þeir sem standa í rekstri af einhverju tagi hafa gott af jákvæðri og uppbyggilegri gagnrýni.  En hver er ástæðan fyrir því að ekki hefur enn tekist að sníða auðsjáanlega agnúa af fyrirkomulagi samstarfsins, þrátt fyrir margar tilraunir til þess?
Getur verið að við hefðum sífellt fallið í þá gryfju að byrja að deila um keisarans skegg, í stað þess að leyfa okkur þann munað að skoða málið með opnum og jákvæðum huga?  Ég hef ekki svarið við þessari spurningu, en ég held að okkur öllum sé það hollt að reyna að leita þess.
Eins og margoft hefur komið fram áður þá á S.S.S. 20 ára afmæli um þessar mundir.  Á þessum 20 árum hefur SSS verið í fararbroddi landshlutasamtaka hérlendis og þróast nokkuð öðruvísi en samtök annarra landshluta.  Ég held að það hafi verið framsýni sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum, fyrr á tímum, sem réði mestu um þróun mála hér.  Á tímabili þá virtust menn hafa tröllatrú á því, að með samstarfi milli sveitarfélaganna, þá ættu þau auðveldara með að veita íbúum sínum betri þjónustu í mörgum málaflokkum, heldur en ef þau stæðu ein að þjónustunni.  Þessi trú þeirra tíma sveitarstjórnarmanna leiddi til þess að samstarfið óx og dafnaði og tók til æ fleiri málaflokka.
Mér hefur stundum verið hugsað til þessara tíma og velt því fyrir mér hvort við ættum saman, það sem við þó eigum í dag ef sundurþykkjudraugurinn hefði riðið húsum þá eins og hann virðist oft gera í dag.
En snúum okkar þá að þessari síðustu tilraun stjórnar til þess að ná samstöðu milli sveitarstjórnanna um breytingar á stjórnarskipulagi samstarfsverkefna.  Ég ætla ekki hér að fara yfir þá tillögu sem kynnt var á sambandsfundi í ágúst, því um hana er ekki samstaða milli sveitarfélaganna.  Kannski var það bjartsýni að ætla að leggja fram tillögur að breytingum á kosningaári til sveitarstjórna.
Stjórn þótti þó full ástæða að vekja upp umræður um málið og vil ég sérstaklega vekja á því athygli að allt frumkvæði að þessari vinnu kom frá stjórn S.S.S. en ekki frá einstökum sveitarstjórnum eins og skilja hefur mátt af umfjöllun um málið.  Þetta kjörtímabil hefur mjög samhent stjórn starfað í S.S.S. og allir stjórnarmenn voru tilbúnir til að leggja talsvert á sig til þess að ná fram breytingum til bóta í skipulaginu.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að tillögur stjórnarinnar gengu út á að samstarfsverkefni sveitarfélaganna yrðu öll sett undir eina stjórn sem í sætu bæjarfulltrúar frá öllum sveitarfélögunum.  Þetta átti að tryggja að aldrei yrði fjallað um málefni samstarfsins á bæjar- og sveitarstjórnarfundum, án þess að viðstaddir væri fulltrúi sem vissi um umræður í stjórninni og gæti upplýst aðra í bæjar- og sveitarstjórnunum um þau mál sem fyrir hefðu verið tekin.
Þið munið þær umræður sem fram fóru á sambandsfundinum ekkert síður en ég. Ég ætla að upplýsa ykkur hér með um það, að eftir þann fund áttu sér stað óformlegar viðræður við fulltrúa allra sveitarfélaganna þar sem reynt var að samræma sjónarmið þeirra þannig að breytingar til hins betra næðu samþykki.  Það var alveg ljóst bæði eftir fundinn og viðræðurnar að deilan milli sveitarfélaganna stóð að meginhluta um eitt atriði, þ.e. hvernig skyldi skipa í stjórn samkvæmt nýju skipuriti.
Praktísk atriði sem vörðuðu aðra hluta skipuritsins virtist ekki vandamál að leysa og vilji til þess í öllum sveitarfélögunum.
Farið var yfir hugmyndir um 5 manna stjórn, þar sem einn fulltrúi kæmi frá hverju sveitarfélagi og ákvæði um bæði fjárhagslegan- og fulltrúalegan meirihluta yrði áfram inni í samþykktum S.S.S.  Þessu höfnuðu bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar þar sem með þessu væri vægi þeirra innan stjórnar minna en eignarhlutur gæfi tilefni til.
Þá var farið yfir hugmyndir um 5 manna stjórn  sem yrði eins skipuð, en eignarhlutfall á bak við hvern stjórnarmann réði atkvæðavægi hvers og eins.  Þessu höfnuðu bæjar- og sveitarstjórnarmenn hinna smærri sveitarfélaga, þar sem þá mundi fulltrúi Reykjanesbæjar ráða öllu einn og aðrir stjórnarmenn hefðu ekkert um afgreiðslu mála að segja.  Með þessu væri því verið að afhenda Reykjanesbæ öll samstarfsverkefnin. 
Eins og þið sjáið á þessu, fór deilan mjög fljótlega að snúast um völd yfir verkefnunum.
Þreifað var á hugmynd um 7 manna stjórn þar sem 3 fulltrúar kæmu frá Reykjanesbæ, en einn frá hverju hinna sveitarfélaganna.  Ákvæði um fjárhagslegan- og fulltrúalegan meirihluta yrði áfram inni í samþykktum.  Þessu höfnuðu bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ.
Það var nú orðið nokkuð ljóst eftir þetta allt saman að frekari vinna í þessa átt væri tilganglaus að svo komnu máli.  Því ákvað stjórn að leggja ekki til ákveðnar breytingar á samþykktum fyrir SSS, sem þýðir í raun óbreytt ástand.  Stjórn gerði það ekki með bros á vör því það er trú stjórnarinnar að gera þurfi breytingar á skipuriti því sem nú er unnið eftir.
Hvað er þá til ráða fyrst mál skipuðust með þessum hætti?  Hvernig ætla sveitarfélögin að starfa saman í náinni framtíð, eða ætla þau yfirleitt að starfa saman áfram?
Ég vil hvetja ykkur sem nú horfið fram á setu í bæjar- og sveitarstjórnum næstu 4 árin til að fara mjög vandlega yfir þetta mál á næstu vikum og vel getur verið þegar rykið sem þyrlast alltaf upp í kosningum nær að setjast, þá sjáið þið lausnina á þessu máli þó við gerum það ekki nú.
Þangað til er þó nokkuð margt hægt að gera sem mundi gera núverandi kerfi betra og skilvirkara en nú er.  Eitt af því sem  reynslan hefur þó kennt okkur er að það er alger nauðsyn að í stjórnir samrekinna fyrirtækja veljist kjörnir sveitarstjórnarmenn.  Það eitt og sér myndi leysa mörg þeirra vandamála sem samstarfið hefur mátt við að glíma undanfarið.  Þetta er sérstaklega mikilvægt meðan sveitarfélögin eru að fara yfir og endurmeta stöðuna.
Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í umræðunni hér á eftir þannig að sem flest sjónarmið komi fram.  Ég held að nauðsynlegt sé að við reynum að vera opinská og hreinskilin í þeirri umræðu, en reynum að forðast sleggjudóma og gífuryrði sem því miður hefur nokkuð borið á í umræðunni undanfarið.

Nokkur atriði til umhugsunar í lokin:

• Viljum við áframhald á samvinnu sveitarfélaganna á Suðurnesjum hvað varðar rekstur á ýmsum þjónustuþáttum sveitarfélaganna?
• Er það hagkvæmara fyrir öll sveitarfélögin að reka þessa þætti sameiginlega?
• Skiptir hagkvæmnin einhverju máli í umræðunni, eða vilja sveitarfélögin reka þessa þætti sjálf burtséð frá hagkvæmni?
• Hvar værum við stödd í dag, hvað ýmsa þjónustuþætti varðar ef aldrei hefði komið til samrekstrar?
• Hvernig á að mæla stærð og mikilvægi sveitarfélaga í samstarfi?
• Ætla sveitarfélögin á Suðurnesjum að fara að keppa sín á milli um opinberar fjárveitingar, þar sem enn er um slíkt að ræða?

Ég sagði hér áðan að oft vildu umræður um samstarf milli sveitarfélaganna snúast upp í deilur um keisarans skegg.  Að mínu viti hefur það einmitt gerst nú. Deilurnar snúast um vægi í stjórn samstarfsverkefna, stjórn sem oft á tíðum er bundin hvort sem er af samþykki allra samstarfsaðilanna.  Skoðið þið fundarmenn góðir fundargerðir stjórnar S.S.S. og stjórna annarra samstarfsverkefna og segið mér síðan um hvað við erum að deila.
Það er von mín að þið berið gæfu til að ná lendingu í þessu máli hið fyrsta.  Það er ákaflega erfitt fyrir stjórnendur samstarfsverkefna og reyndar allt starfsfólk þeirra, þegar eigendur ná ekki að setja niður deilur sínar með einum eða öðrum hætti, þannig að unnt sé þó að sjá fram í allra næstu framtíð.  Sú vinna sem fram hefur farið nú og áður mun örugglega nýtast ykkur til ákvarðanatöku til framtíðar.

19. Umræður.
Jónína Sanders tók til máls.  Í máli hennar kom m.a. fram að hún teldi S.S.S vera að þróast í þá átt að vera samráðsvettvangur í stað þess að vera sameign-legur rekstrarvettvangur.  Lagði hún fram eftirfarandi bókun í nafni fulltrúa Reykjanesbæjar.

Bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar um framtíð Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
„S.S.S. stendur á tímamótum.  Á þeim 20 árum sem það hefur starfað hefur samstarfið skilað mörgum mikilvægum málum í höfn.  Við teljum að til framtíðar litið sé um tvær meginleiðir í samstarfinu að ræða.
• Að auka starfsemi í nafni S.S.S. eins og verið hefur í umræðunni með beinum rekstri sameiginlegra fyrirtækja en þeirri leið fylgir krafa um aukið vægi Reykjanesbæjar í samræmi við íbúafjölda.
• Hin leiðin er að S.S.S. verði í auknum mæli samráðsvettvangur sveitar-stjórnarmanna á Suðurnesjum og geti á þann hátt verið sterkur málsvari Suðurnesjamanna til að samræma sjónarmið á svæðinu og sem málsvari út á við“.

Ómar Jónsson sagði samstarfið komið í kreppu.  Það heyri e.t.v. sögunni til og það þurfi ekki að vera svo slæmt.
Jóhann Geirdal taldi rangt að tala í þeim dúr að þeir sem vilji breytingar séu á móti samstarfi.  Nefndi hann dæmi um samstarfsverkefni sem eru ekki á vegum S.S.S. en hafa gefist vel.  Þegar komi að því að gera breytingar hefjist hagsmunagæslan.  Lagði hann áherslu á að menn yrðu að þora að takast á við breytingar.
Hallgrímur Bogason telur afturför að leggja samstarfið niður.  Sveitarfélögin virðist nú  um stundir eiga litla samleið nema sem kjaftaklúbbur. Litlu sveitarfélögin fari eflaust að auka samvinnuna sín á milli.  Nú skorti þá viðsýni sem réð ríkjum t.d. þegar hitaveitan var byggð upp.
Óskar Gunnarsson taldi menn opna fyrir því að gera breytingar á samstarfinu, en óskaði eftir hugmyndum Reykjanesbæjar.
Kristmundur Ásmundsson sagði það koma sér á óvart hve særindin væru mikil, að farið væri að  ræða um að leggja S.S.S. niður.  S.S.S. sé í grundvallaratriðum samstarfsvettvangur.  Hvatti hann menn til að halda ró sinni og flýta sér hægt.  Hann benti á að meðferð fjár sem komi frá íbúum eins sveitarfélags sé ekki heimilt að framselja öðrum sveitarfélögum til ráðstöfunar.
Drífa Sigfúsdóttir hvað það skipta mestu máli fyrir almenning að rekstur þjónustu sé góður og íbúarnir fái góða þjónustu þegar þeir þurfi á henni að halda.  Hún lagði ennfremur til að sveitarstjórnir leggðu héraðsnefndina niður.
Sigurður Jónsson taldi ófært fyrir sveitarstjórnir að samþykkja að vera án fulltrúa í stjórn S.S.S.  Auk þess tóku til máls undir þessum lið Reynir Sveinsson, Jón Gunnarsson og Jóhann Geirdal.

20.  Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Fundarskjal 2.  Ályktun um heilbrigðismál.
Skúli Skúlason kom með breytingatillögu að orðalagi.  Í annarri línu falli niður orðið „loks“.  Í annarri grein þriðju línu í stað „óbreyttum rekstri“ kemur
“ núverandi þjónusta“.  Fjórðu línu „þó“  fellur niður.  Í sömu línu og næstu falli niður „í samanburði við aðrar sambærilegar stofnanir“.  Breytingatillögurnar voru samþykktar samhljóða. 
Fundarskjal 3.  Ályktun um ásælni Reykjavíkurborgar í landssvæði á Suður-nesjum.
Tillögur um orðalagsbreytingar voru eftirfarandi: 
Í fyrstu grein fyrstu línu, óbreytt, þriðju línu fellur niður „það hlýtur að vekja hörð viðbrögð“ í stað kemur, „það er með öllu óásættanlegt“  Í fjórðu grein þriðju línu falli niður „að rétt sé“.  Breytingartillögurnar voru samþykktar samhljóða.
Fundarskjal 4.  Ályktun um slakan útsendingarstyrk ljósvakamiðla á Suðurnesjum.  Samþykkt samhljóða óbreytt.
Fundarskjal 5.  Ályktun um álversumræðu.  Samþykkt óbreytt.
Fundarskjal 6.  Ályktun um málefni fatlaðra.
Umræður urðu um ályktunina og var ákveðið að taka hana ekki til afgreiðslu.
Fundarskjal 7.  Ályktun um Suðurstrandarveg og framhald hans.  Orðalags- og efnisbreytingar voru gerðar, síðan var ályktunin samþykkt samhljóða og er hún eftirfarandi:  Aðalfundur S.S.S. haldinn í Vogum dagana 11-12. september 1998 beinir þeim tilmælum til þingmanna Reykjaneskjördæmis að Suðurstrandar-vegur, framhald hans frá Grindavík um Reykjanesvita að Höfnum og vegur um Ósabotna verði allir teknir inn á vegaáætlun hið fyrsta.  Jafnframt krefst fundurinn þess að tvöföldun Reykjanesbrautar verði flýtt frá því sem ráð er fyrir gert í núgildandi vegaáætlun.
Fundarskjal 8.  Greinargerð um löggæslu.  Samþykktur var viðauki sem er eftirfarandi:  Ekki síst til að sinna fíkniefnamálum.

21. Önnur mál.
Jóhann Geirdal þakkaði fráfarandi stjórn góð störf og óskaði nýrri stjórn velfarnaðar.
Ómar Jónsson taldi ófært að ljúka þinginu án þess að álykta um málefni fatlaðra.
Jón Gunnarsson óskaði eftir að fundurinn tæki afstöðu til þess hvort víkja mætti frá dagskrá til að ganga mætti frá ályktun varðandi málefni fatlaðra og var það samþykkt.

Skipuð var þriggja manna nefnd sem í voru:   Skúli Skúlason, Jóhanna Norðfjörð og Ómar Jónsson.
Samdi nefndin eftirfarandi ályktun sem samþykkt var:
Aðalfundur S.S.S. haldinn í Vogum dagana 11.-12. september 1998.
Málefni fatlaðra.
Í  Reykjaneskjördæmi vantar verulega á að þörf fyrir þjónustu við fatlaða sé mætt.  Aðalfundurinn krefst þess að íbúar í Reykjaneskjördæmi sitji við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar þjónustu við fatlaða.
Fundurinn samþykkir að fela stjórn S.S.S. að álykta frekar um málefni fatlaðra þar sem tekið verði undir ályktun Landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri og krafa sett fram um úrbætur í þessum málaflokki nú þegar.

 

2. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár:

Reykjanesbær:  Aðalmaður, Skúli Þ. Skúlason
     Varamaður, Björk Guðjónsdóttir

Grindavíkurbær: Aðalmaður, Hallgrímur Bogason
     Varamaður, Sverrir Vilbergsson

Sandgerðisbær:  Aðalmaður, Óskar Gunnarsson
     Varamaður, Sigurður V. Ásbjarnarson

Gerðahreppur:  Aðalmaður, Sigurður Jónsson
     Varamaður, Sigurður Ingvarsson

Vatnsleysustrandarhr. Aðalmaður, Þóra Bragadóttir
     Varamaður, Jóhanna Reynisdóttir

23. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara:

     Aðalmenn:   Magnús Haraldsson
       Ingimundur Þ. Guðnason

     Varamenn: Ellert Eiríksson
       Ingólfur Bárðarson

24.  Kosnir 3 fulltrúar í launanefnd S.S.S. og 2 til vara:

     Aðalmenn:  Skúli Þ. Skúlason
       Sigurður Jónsson
       Þóra Bragadóttir

     Varamenn: Hallgrímur Bogason
       Óskar Gunnarsson

25. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar:

       Skúli Þ. Skúlason
       Sigurður Jónsson
       Þóra Bragadóttir
       Guðjón Guðmundsson

26. Fundarslit.
Formaður S.S.S. Jón Gunnarsson þakkaði fundarmönnum fyrir nokkuð góðan fund og starfsfólki fyrir vel unnin störf.  Og sagði síðan fundi slitið.

Fundargerð þessa rituðu Snæbjörn Reynisson og Særún Jónsdóttir.

       Særún Jónsdóttir (sign.)