fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

24. Aðalfundur SSS 26. október 2001

24. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja
föstudaginn 26. og laugardaginn 27. október 2001.

 

Dagskrá:

Föstudagur 26. október 2001.

Kl. 13:00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 13:30 2. Fundarsetning.
3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
4. Skýrsla stjórnar: Skúli Þ. Skúlason, formaður S.S.S.
5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2000,
Guðjón Guðmundsson, framkv.stj.
6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
7. Ávörp gesta.
Kl. 14:50 8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 15:00 9. Kaffihlé.
Kl. 15:30 10. Ávarp umhverfisráðherra Sivjar Friðleifsdóttur
11. Samgöngumannvirkið Keflavíkurflugvöllur
Almenn kynning
Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli
Guðmundur Björnsson formaður Skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar varnarsvæða.
Kl. 16:40 12. Skoðunarferð um Flugþjónustusvæði Keflavíkur-
flugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar .

Kl. 18:00 Áætluð lok ferðar.
Fundi frestað.

 

Laugardagur 27. október 2001.

Kl. 9:40 – Morgunkaffi –

KL. 10:00 13. Ávarp félagsmálaráðherra Páls Péturssonar

Kl. 10:20 14. Staðardagskrá 21.
Kynning á verkefninu og staða þess hér á landi
Stefán Gíslasson verkefnisstjóri. Vinnuferlið í Reykjanesbæ
Kjartan Már Kjartansson form. stýrihóps Staðardagskrá 21 í Reykjanesbæ.

Umræður

kl 11:30 15. Umhverfismál sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Fráveitumál
Magnús R. Guðmannsson verkfræðingur VN
Úrgangur – eyðing og endurvinnsla
Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri

Umræður
Kl. 12:20 – Hádegishlé –

Kl. 13.20 16. Samantekt á umhverfismálum sveitarfélaganna.
Magnús H. Guðjónsson framkvæmdastjóri H.E.S.

Umræður

Kl: 13:40 17. Landupplýsingakerfi með skipulags og umhverfismál að
leiðarljósi.
Viðar Már Aðalsteinsson forstöðumaður umhverfis – og
tæknisviðs Reykjanesbæjar.

Umræður

Kl. 14:25 18. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Kl. 14:40 19. Önnur mál.
Kl. 14:50 20. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
21. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
22. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Kl. 15:00 23. Áætluð fundarslit.
Kl. 19:30 Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn, maka og
gesti í Golfskálanum Leiru

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 41 sveitarstjórnarmaður, frá Gerðahreppi 8, Reykjanesbæ
12, Grindavíkurbæ 7, Sandgerðisbæ 8og frá Vatnsleysustrandarhreppi 6.

Gestir og frummælendur á fundinum voru Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, Páll Pétursson félagsmálaráðherra, Hjálmar Árnason alþingismaður, Kjartan Ólafsson alþingismaður, Árni R. Árnason alþingismaður, Kristján Pálsson alþingismaður Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Samb. ísl. sveitarfélaga, Þórður Skúlason, Samb. ísl. sveitarfélaga, Þorvarður Hjaltason SASS, Skúli Thoroddsen MSS, Helga Sigrún Harðardóttir MOA, Sigmundur Eyþórsson BS, Magnús H. Guðjónsson HES, Guðmundur Björnsson SBVN, Björn Knútsson, Flugmálastjórn, Stefán Gíslason, Staðardagskrá 21, Magnús R. Guðmannsson, VN, Gísli Eiríksson, SS, Helgi Bjarnason, Morgunblaðinu, Svandís H. Halldórsdóttir, Víkurfréttir, Viðar Oddgeirsson, Sjónvarpinu, Páll Ketilsson, Víkurfréttir, Halldór L. Björnsson, Suðurnesjafréttir.

2. Fundarsetning.
Skúli Skúlason formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Björk Guðjónsdóttur og Ólaf Thordersen sem fundarstjóra og voru þau sjálfkjörin.
Uppástunga kom um Kjartan Má Kjartansson sem 1. fundarritara og Kristján Gunnarsson sem 2. fundarritara, vararitari Jónína A. Sanders og voru þau sjálfkjörin.
Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Björk Guðjónsdóttir þakkaði það traust að fela henni stjórn fundarins. Fundarstjóri gaf síðan Skúla Þ. Skúlasyni formanni SSS orðið er flutti skýrslu stjórnar.

4. Skýrsla stjórnar.

“Stjórnin kom saman á sínum fyrsta stjórnarfundi á starfsárinu þann 26. október 2000 og skipti með sér verkum :

Skúli Þ Skúlason formaður
Hallgrímur Bogason varaformaður
Óskar Gunnarsson ritari
Þóra Bragadóttir
Sigurður Jónsson

Stjórnarfundir voru 13 á árinu og voru tekin fyrir 167 mál. Starfsemi sambandsins var með hefðbundnum hætti og stjórnin hefur hittst að jafnaði einu sinni í mánuði. Málefni stjórnar sem öll varða hag og framtíð Suðurnesja voru misjafnlega umfangsmikil eins og eðlilegt er og nokkur þeirra enn í vinnslu. Fyrir utan venjulega stjórnarfundi sóttu framkvæmdastjóri, formaður og aðrir stjórnarmenn ýmsa fundi innan og utan svæðisins til þess að gæta hagsmuna okkar. Stjórnin hefur haft að leiðarljósi að gæta fyllsta hagræðis í útgjöldum en framkvæmdastjóri mun gera grein fyrir fjármálum sambandsins hér á eftir.
Stjórnin fékk til umsagnar talsvert af frumvörpum og þingsályktunum. Má þar nefna :
• Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.
• Þingsályktun um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar.
• Þingsályktun um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum.
• Frumvarp til jarðalaga.
• Þingsályktun um áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun.
• Þingsályktun um sjóvarnaáætlun.
• Frumvarp til laga um vátryggingarsamninga og Viðlagatryggingu Íslands.
• Þingsályktun um úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum.
• Þingsályktun um tólf ára samfellt grunnnám.
• Frumvarp til laga um húsafriðun.
• Frumvarp til þjóðminjalaga.
• Frumvarp til laga um umgengni nytjastofna sjávar.
• Frumvarp til sveitarstjórnarlaga, lágmarksstærð sveitarfélaga.
• Frumvarp til sveitarstjórnarlaga, mál einkafjármögnun og rekstrarleiga.
• Þingsályktun um villtan mink.
• Þingsályktun um fjárhagslegan aðskilnað útgerðar og fiskvinnslu.
• Þingsályktun um áframeldi á þorski.
• Frumvarp til laga um húsnæðismál.
• Þingsályktun um mennta- og fjarkennslumiðstöðvar.
• Frumvarp til vegalaga.
• Frumvarp til laga um grunnskóla, útboð á skólastarfi.
• Frumvarp til raforkulaga.
• Þingsályktun um herminjasafn á Suðurnesjum.

Ofangreind upptalning er ekki tæmandi en stjórnarmenn skiptu með sér verkum og yfirfóru ályktanir og frumvörp og lögðu fyrir stjórn hvort ástæða væri til að koma með athugasemdir, mæla með, taka ekki afstöðu eða leggjast gegn málum. All oft bárust óskir um umsagnir seint og lítill tími gefinn til umsagnar.

Þá sendi stjórnin frá sér nokkrar ályktanir á árinu varðandi mikilvæg málefni er snerta sveitarstjórnirnar og hag þeirra, má þar nefna :

Ályktun um tekjustofna sveitarfélaga þar sem segir :
“Stjórn SSS mótmælir harðlega að í tillögum nefndar um tekjustofna sveitarfélaga skuli ekki vera tekið á hallarekstri sveitarfélaganna undanfarin ár og hann bættur. Rekstrarhalli sveitarfélaga stafar að miklu leyti vegna ráðstafana ríkisvaldsins samanber opinber gögn. Þá mótmælir SSS að sveitarfélögin verði neydd til skattahækkana til að geta sinnt lögbundnum verkefnum. SSS harmar að hlutdeild sveitarfélaganna í óbeinum sköttum skuli ekki vera í tillögum nefndarinnar”.

Ályktun um landsig og landbrot á Suðurnesjum :
“Stjórn SSS vill minna á hið mikla landsig og landbrot á Suðurnesjum. Samkvæmt fyrirliggjandi sjóvarnaráætlun telur stjórn SSS það fjármagn sem áætlað er til varna hvergi duga til að verja land og mannvirki. Stjórn SSS hvetur Alþingi til að veita mun meira fjármagni til sjóvarna á Suðurnesjum.”

Ályktun um Suðurstrandarveg :
“Stjórn SSS samþykkir að hvetja vegamálastjóra til þess að bæta eftir mætti viðhald á Suðurstrandarvegi. Vegurinn virðist mjög illa farinn á köflum og sýnu verstur þegar nær dregur Grindavík. Einhver dæmi eru um að ferðamenn hafi í sumar snúið við og hætt við að aka leiðina vegna slaks ástands vegarins.”

Ályktun um Byggðakort :
“Stjórn SSS samþykkir að óska eftir fundi með Iðnaðar- og viðskiptaráðherra vegna nýs byggðakorts sem gilda á til ársins 2006, þar sem sum sveitarfélög á Suðurnesjum eru utan kortsins. Leitað verði svara ráðuneytisins við eftirfarandi atriðum :
1. Hvers vegna eru sum sveitarfélög á Suðurnesjum utan byggðakortsins ?
2. Hvaða rök færir Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fyrir því að leggja til við eftirlitsstofnunina að sum sveitarfélög á Suðurnesjum falli útaf því byggðakorti sem í gildi var frá 1996 ?
3. Hvernig skilgreinir ráðuneytið hugtakið “ styrki “ í þessu samhengi ?
4. Hvaða áhrif hefur ákvörðun um nýtt byggðakort á samskipti Byggðastofnunar og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar sem komið hefur fram sem samræmingaraðili allra sveitarfélaga á Suðurnesjum varðandi atvinnuráðgjöf
með tilliti til 9. greinar laga um Byggðastofnun frá 27. des 1999 ?
5. Hvaða áhrif hefur ákvörðun um nýtt byggðakort á samskipti Byggðastofnunar og Eignarhaldsfélags Suðurnesja ? Undanfarið hefur verið unnið að skipulagsbreytingum á félaginu þar sem farið hefur verið eftir forskrift Byggðastofnunar svo hún geti efnt hlutafjárloforð um 40.000.000.- í félaginu.
6. Finnst ráðuneytinu nýsamþykkt kjördæmaskipan, þar sem Suðurnesin eru staðfest sem hluti landsbyggðar, skipta máli í þessu samhengi ?”

Góðir fundarmenn. Hér næst verður minnst nokkurra málefna sem stjórnin hefur unnið að á starfsárinu.

D- álma Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Þegar þessi orð eru sögð hefur stofnunin fengið heimild til þess að hefja rekstur neðstu hæð D-álmu þar sem verður sjúkraþjálfun og tengd starfsemi. Stofnunin hefur 17 milljónir á árinu 2001 til rekstrar þessarar hæðar. Þá er önnur hæðin þar sem fyrirhuguð er legudeild fyrir sjúka aldraða tilbúin utan þess að búnað vantar. Starfsemi á að hefjast þar 1.júní 2002 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 eru 30 milljónir til viðbótar ofangreindum 17 til rekstrar D-álmu. Samkvæmt drögum að skýrslu um framtíðarhlutverk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og D-álmu síðan í október 2001 kemur fram að til þess að ljúka endanlega framkvæmdum við D-álmu vantar 130 milljónir. Sá kostnaður mun samanstanda af búnaði, frágangi í risi, þjálfunarlaugar og lóðarframkvæmdum .

Málefni fatlaðra
Lög um félagsþjónustu sveitarfélaganna voru dregin til baka á vorþinginu og yfirfærslan frestast því í bili.
Á vegum SSS og SSH var starfandi nefnd til undirbúnings yfirtöku málefna fatlaðra til sveitarfélaganna Nefndin skilaði til SSS skýrslu með niðurstöðum og tillögum um yfirfærslunnar í júní síðastliðinn. Þá óskaði nefndin jafnframt eftir lausn frá störfum.

Hagir og líðan ungs fólks á Suðurnesjum
Í byrjun ársins var kynnt niðurstaða rannsóknar á högum og líðan ungs fólks á Suðurnesjum. SSS fékk Rannsókn og Greiningu ehf til þess að framkvæma rannsóknina og var hún nánast eins og rannsókn sem Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála gerði árið 1997 og var því samanburður raunhæfur. Rannsóknaraðilar útskýrðu niðurstöður fyrir sveitarstjórnarmönnum á sambandsfundi. Þá ákvað SSS að Skólamálaskrifstofa Reykjanesbæjar myndi hafa forystu um að kynna og vinna með niðurstöðurnar innan sveitarfélaganna hvers fyrir sig.

Charente Maritime
Stjórn samþykkti á árinu að framlengja samstarfsamning við franska héraðið Charente-Maritime. Megin áherslur samningsins eru viðskiptatækifæri sem hugsanlega geti skapast milli íslenskra og franskra fyrirtækja. Þá eiga héruðin talsvert sameiginlegt svo sem heilsulindir, heitar laugar, atvinna tengd sjávarútvegi og ferðaþjónusta og öflug menningarstarfsemi. MOA hefur verið vettvangur frekari samskipta milli aðila og haldið um þau tækifæri sem upp hafa komið. Héraðsstjórnin í Charente- Maritime réð til sín íslenska stúlku Hörpu Þórsdóttur í hálft starf til þess að sjá um samskiptin við okkur. Kostnaður sambandsins vegna þessa samstarfssamnings er nánast enginn.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja
Vegna vaxandi húsnæðisvanda Fjölbrautaskólans var settur á laggirnar starfshópur þar sem fulltrúar SSS hafa átt sæti ásamt fulltrúum skólans. Starfshópurinn hefur verið í viðræðum við fulltrúa menntamálaráðuneytisins. Stjórnarmenn SSS hafa heimsótt menntamálaráðherra og umsjónarmenn byggingarmála hjá ráðuneytinu vegna málsins enda sveitarfélögin öll á Suðurnesjum jákvæð fyrir frekari uppbyggingu skólans. Samkomulag virðist vera um að þörf skólans sé 3000 fermetra viðbygging en auk þess þarf samhliða að gera breytingar á eldra húsnæðinu Lauslegur áætlaður kostnaður vegna viðbyggingar er um 440 milljónir og samkvæmt þeim skiptahlutföllum sem gilda í dag 60/40 kæmi í hlut sveitarfélaganna að greiða rúmar 175 milljónir. Endurbætur eldra húsnæðis eru með sama hætti áætlaðar um 90 milljónir og ef skiptahlutföllin verða 80/20 kemur í hlut okkar um 18 milljónir. Samanlagður kostnaður sveitarfélaganna yrði því um 193 milljónir sem skiptast þannig milli okkar :
Reykjanesbær 66.28 % 128 milljónir
Grindavík 13.57 % 26 milljónir
Sandgerði 8.36 % 16 milljónir
Gerðahreppur 7.27 % 14 milljónir
Vogar 4.52 % 9 milljónir.

Safnamál og ferðamál
Á síðasta aðalfundi SSS var samþykkt ályktun þar sem óskað er eftir tillögugerð frá MOA um hvernig auka megi samstarf og sérhæfingu safna á Suðurnesjum. Skrifstofan brást hratt og vel við og skilaði fljótlega skýrslu með yfirskriftinni “ Staða safna á Suðurnesjum og framtíðarsýn”. Þar er greint frá þeim söfnum sem eru á svæðinu og megináherslum þeirra. Söfnin eru flokkuð í byggðasöfn, náttúrufræðisöfn og sértæk söfn og framtíðarsýn fyrir hvern flokk.

Stefnumótun í ferðaþjónustu á Reykjanesi
Stefnumótunarvinnan hefur verið leidd af MOA síðan 1999, en að vinnunni hafa komið hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu á Suðurnesjum, ferðamálafulltrúar á svæðinu og stjórn ferðamálasamtakanna. Með okkar fólki unnu sérfræðingar frá “ Á sextán Skóm ehf”. Meginmarkmið vinnunnar er að samhæfa markviss vinnubrögð í samvinnu ferðaþjónustuaðila, sveitarstjórna og íbúa og tryggja vöxt ferðaþjónustu sem arðvænlegrar atvinnugreinar, öllum til hagsbóta. Stjórn SSS hefur einsett sér að boða til sambandsfundar fyrir áramót um málefnið.

Byggðakort
Eins og að ofan greinir setti Eftirlitsstofnun Efta Suðurnesin út af kortinu í bókstaflegri merkingu. Áhyggjur okkar eru að þetta geti breytt viðhorfum ríkisvaldsins til svæðisins svo sem varðandi samskipti MOA og Eignarhaldsfélagsins við Byggðastofnun. Nýr forstjóri Byggðastofnunar heimsótti svæðið í haust og átti fund með sveitarstjórum og fleiri aðilum. Þá heimsóttu fulltrúar úr stjórn SSS Iðnaðarráðherra vegna málsins. Þeir fulltrúar ríkisvaldsins sem í dag hafa með málin að gera sjá ekki að neinar breytingar verði á þeim samskiptum sem verið hafa. Þá má geta þess að sá hnútur sem virðist hafa verið á fyrri hluta ársins varðandi samskipti Eignarhaldsfélagið og Byggðastofnun vera leystur og stofnunin greitt það hlutafé sem hún hafði lofað. En þrátt fyrir að svo virðist sem tímabundinn árangur hafi náðst í að gæta hagsmuna svæðisins þurfa sveitarfélögin og SSS að vera vakandi í framtíðinni svo svæðið njóti jafnræðis gagnvart öðrum í þjónustu og stuðningi Byggðastofnunar.

Landshlutasamtök
Samráðsfundur landshlutasamtakanna var haldinn á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið sumar þar kynnti byggðanefnd Sambands Íslenskra Sveitarfélaga róttækar áherslur til framtíðar í byggðamálum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru skoðuð og forystumenn landshlutasamtakanna skiptust á skoðunum. Þá funduðu landshlutasamtökin í tvígang í kringum fjármálaráðstefnuna. Starfandi er nefnd þar sem fulltrúar landshlutasamtaka og Sambands íslenskra Sveitarfélaga eru að skoða framtíðarhlutverk og skipan verkefna landshlutasamtaka og sambandsins. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Samband sveitarfélaga á Suðurlandi hafa þegar skiptast talsvert á skoðunum um okkar samskiptamál. Ekki eru uppi hugmyndir um að sameina samböndin en eftir er að skilgreina formlegri samráðsvettvang í ljósi nýrrar kjördæmabreytingar.

Heimsókn til fjárlaganefndar Alþingis
Fulltrúar stjórnar heimsóttu fjárlaganefnd 24.september síðastliðinn þar sem lagt var áhersla á málefni Heilbrigðistofnunar Suðurnesja, Vegamál, viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og málefni Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.

Lokaorð
Undirbúningur að gerð fjárhagsáætlunar SSS fyrir árið 2002 er nú hafinn. Stefnt er að því að stjórnin afgreiði áætlunina frá sér eigi síðar en 20 nóvember þannig að sveitarstjórnir geti lokið sínum áætlunum fyrir áramót. Þá vil ég fyrir hönd stjórnarinnar færa framkvæmdastjóra og starfsfólki sambandsins þakklæti fyrir gott starf”.

5. Ársreikningur SSS fyrir árið 2000.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S. Enginn tók til máls undir þessum lið og bar því fundarstjóri ársreikninginn undir atkvæði. Ársreikningurinn samþykktur samhljóða.

7. Ávörp gesta.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson form. Sambands ísl. sveitarfélaga flutti fundinum kveðjur stjórnar sambandsins og sagði frá helstu verkefnum sem Samb. ísl. sveitarfélaga hefur verið að vinna að undanfarið.
Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri flutti kveðjur stjórnar SASS og ræddi um gott samstarf milli landshlutanna og það gæti aukist m.a. á sviði orkumála og umhverfismála.
Hjálmar Árnason alþingismaður flutti kveðjur þingmanna og talaði m.a. um að breytt kjördæmaskipan væri staðreynd og það væri gott sóknarfæri sem menn ættu að nýta sér.
Kjartan Ólafsson alþingismaður ræddi m.a.um gott samstarf sveitarstjórnarmanna og alþingismanna, sagði að kjördæmið nýja væri landfræðilega stórt en samt sem áður mest spennandi kjördæmið.

8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Jónína A. Sanders f.h. bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ flutti tillögu að breyttri framkvæmd samráðsfunda SSS. Einar Njálsson flutti ályktun um drög að nýjum hafnalögum.
Hallgrímur Bogason, fh. stjórnar SSS, flutti tillögur um eflingu náms á háskólastigi á Suðurnesjum og um minjavörslu. Sigurður Jónsson, fh. stjórnar SSS, flutti ályktun um fækkun sílamáfa og um löggæslumál. Ólafur Thordersen flutti ályktun um brunavarnir og slökkvilið á Suðurnesjum. Þóra Bragadóttir, fh. stjórnar SSS, flutti ályktun um byggðakort og um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi.

9. Kaffihlé.

10. Ávarp umhverfisráðherra.
Siv Friðleifsdóttir ræddi um m.a. Staðardagskrá 21 , samdrátt í ferðaþjónustu og stofnun nýrra þjóðgarða. Hún hvatti sveitarfélögin til sækja um styrk til fráveitumála en frestur til að koma þeim málum í lag rennur út 2005. Einnig hvatti hún sveitarfélög til að taka þátt í Staðardagskrá 21.

Fyrirspurnir voru leyfðar til ráðherra og til máls tóku Jóhann Geirdal, Kristján Pálsson, Hörður Guðbrandsson

11. Samgöngumannvirkið Keflavíkurflugvöllur.
Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli kynnti starfsemi flugþjónustusvæðisins og ræddi m.a. um öryggismál og umhverfismál á flugvallarsvæðinGuðmundur Björnsson, formaður Skipulags-, byggingar-og umhverfisnefndar varnarsvæða sagði frá hlutverki og starfi nefndarinnar og að ásókn í lóðir á svæðinu hefði aukist sérstaklega af smærri aðilum og hefur byggingum fjölgað á flugþjónustusvæðinu.

12. Skoðunarferð um flugþjónustusvæðið þar sem Björn Ingi Knútsson flugvallastjóri, Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri Flugstöðar Leifs Eiríkssonar og Jóhann Benediktsson sýslumaður tóku á móti gestum og sýndu mannvirki.

Fundarstjóri frestaði fundi til morguns.

Aðalfundur S.S.S. – framhald, laugardaginn 27. október 2001 kl. 10.00.

13. Ávarp félagsmálaráðherra.
Páll Pétursson þakkaði forráðamönnum í Reykjanesbæ fyrir móttöku flóttamanna sem komu til bæjarins á þessu ári. Ráðherra ræddi m.a.um atvinnuréttindi útlendinga, byggingu leiguíbúða og sagði frá þeim frumvörpum sem hann hyggst leggja fram nú í vetur sem eru m.a. annars um rafrænar kosningar.

Fyrirspurnir voru leyfðar til ráðherra til máls tóku Kristján Gunnarsson, Skúli Þ. Skúlason og Ellert Eiríksson og ráðherra svaraði.

14. Staðardagskrá 21.
Kynning á verkefninu og staða þess hér á landi
Stefán Gíslason verkefnisstjóri kynnti Staðardagskrá 21 sem er verkefni með forskrift að sjálfbærri þróun sem skiptist í vistfræðilega, efnahagslega og félagslega þætti. Hann talaði m.a. um að fyrirbyggjandi aðgerðir væru efst á forgangslista

Vinnuferlið í Reykjanesbæ
Kjartan Már Kjartansson form. stýrihóps Staðardagskrá 21 í Reykjanesbæ sagði m.a. frá reynslu Reykjanesbæjar – þarf hugarfarsbreytingu og skipulagningu verkefnisins.

Fyrirspurnir voru leyfðar til frummælenda til máls tóku Ellert Eiríksson, Kristján Pálsson, Skúli Thoroddsen, Ólafur Thordersen.

15. Umhverfismál sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Fráveitumál
Magnús R. Guðmannsson verkfræðingur VN, fór m.a. yfir stöðu mála í frárennslismálum á Suðurnesjum og rakti forsögu og framkvæmdir í Reykjanesbæ.

Úrgangur – eyðing og endurvinnsla
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ræddi m.a. um stöðu mála hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, nýja lausn, rekstrarform, gjaldskrármál og fl.

16. Samantekt á umhverfismálum sveitarfélaganna.
Magnús H. Guðjónsson framkv.stjóri HES ræddi m.a. um mengun vatns, jarðvegs, loft- og hávaðamengun á Suðurnesjum. Einnig hættuna á mengun vatns ef t.d.eldsneytisflutningabíll ylti á Grindavíkurvegi.

Umræður
Fyrirspurnir voru leyfðar til máls tóku Hjálmar Árnason, Hörður Guðbrandsson, Kristján Pálsson, Kristján Gunnarsson, Skúli Thoroddsen, Reynir Sveinsson, Guðjón Guðmundsson, Þorsteinn Erlingsson.

17. Landupplýsingakerfi með skipulags og umhverfismál að leiðarljósi.
Viðar Már Aðalsteinsson forstöðumaður umhverfis-og tæknisviðs Reykjanesbæjar kynnti landsupplýsingakerfi sem byggist á vinnu á loftmyndum og unnið er á vefnum.

18. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um sílamáfa.
Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. okt. 2001 samþykkir að láta kanna ítarlega, leiðir til að ná árangri í að halda stofni sílamáfa niðri.
Leitað verði eftir samráði við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Umhverfisráðuneytið, Veiðistjóraembættið, Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og embætti flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli. Gert verði ráð fyrir að tillögur getið legið fyrir eigi síðar en í apríl 2002.

Ályktun um sílamáfa samþykkt samhljóða.

Ályktun um löggæslumál.
Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. október 2001 samþykkir að hvetja dómsmálaráðherra til þess að tryggja að Sýslumannsembættið í Keflavík hafi nægt fjármagn og þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að lögreglan á Suðurnesjum geti sinnt sívaxandi álagi og mikilvægi grenndarþjónustu.

Flutningsmaður dró áðurgreinda ályktun um löggæslumál til baka þar sem Jóhanna Norðfjörð hafði lagt fram aðra tillögu um sama efni, en hún hljóðar svo:

Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. október 2001 skorar á ríkisvaldið að efla löggæslu á Suðurnesjum.

Fyrir ári síðan lá fyrir að lögreglan taldi sig ekki geta sinnt eðlilegri löggæslu á svæðinu þar sem aukið fjármagn fengist ekki frá hinu opinbera. Nú hefur komið fram að á þessum tíma hefur fækkað um nokkur stöðugildi.

Aðalfundurinn mótmælir harðlega umræddri fækkun stöðugilda og telur í ljósi upplýsinga um stöðu málsins að auka þurfi fjárframlög til löggæslu á svæðinu umtalsvert.
Ljóst er að embættið getur ekki með nokkru móti sinnt löggæslumálum með þeim hætti að sveitarfélögin á svæðinu geti við unað.
Skorað er því á dómsmálaráðherra að taka á umræddu máli hið fyrsta.

Kristján Pálsson, Hörður Guðbrandsson, Jóhanna Norðfjörð, Ólafur Thordersen, Ómar Jónsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson og Böðvar Jónsson tóku til máls.

Ályktun um löggæslumál samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um eflingu náms á háskólastigi á Suðurnesjum.

Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. okt. 2001 fagnar þeim árangri sem náðst hefur í starfi Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.
Aðalfundurinn bendir á að rúmlega 60 nemendur stunda nám á háskólastigi hjá Miðstöðinni og leggur aðalfundurinn áherslu á að sú starfsemi geti haldið áfram að blómgast. Forsenda þess er að fjárveitingavaldið tryggi fjármagn til verkefnisins enda er nám á háskólastigi verkefni ríkisins.

Greinargerð:
Miðstöðin er nú orðin 4 ára og sú fyrsta sinnar tegundar. Miðstöðin hefur tekið í notkun húsnæði þar sem m.a. er aðstaða til fjarnáms sem nú þegar er fullnýtt. Þar eru nú 61 nemandi, í hjúkrunarfræðum (9), rekstrarfræðum (27) og á leikskólakennarabraut (25), allir í fjarnámi við háskólann á Akureyri. Sveitarfélögin hafa styrkt starfsemina myndarlega en nú er mikil eftirspurn á fjarnámi á háskólastigi og því nauðsynlegt á að fjárveitingar og/eða samningar við ríkisvaldið tryggi að nemendur eigi kost á að ljúka þessu námi í heimabyggð. Auk þess er boðið upp á fjölmörg námskeið í starfstengdum og bóklegum greinum, ásamt ýmis konar frístundanámi.

Ályktun um eflingu náms á háskólastigi á Suðurnesjum samþykkt samhljóða

Ályktun um minjavörslu.
Til máls tóku Kjartan M. Kjartansson, Skúli Skúlason, Jóhann Geirdal, Kristján Pálsson og Ómar Jónsson.

Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. október 2001 fagnar áhuga Þjóðminjavarðar á eflingu minjavörslu á Reykjanesi. Aðalfundur SSS telur afar mikilvægt að minjavörður verði ráðinn sem fyrst til starfa á Reykjanesi.

Greinargerð:
Nú hafa verið ráðnir fjórir minjaverðir víðsvegar á landsbyggðinni, eðlilegt er að halda áætluninni áfram og ráða minjaverði til þeirra svæða sem eftir eru.
Á Reykjanesi eru víða afar merkar fornminjar, en þrátt fyrir að gripirnir sem fundust í kumlum við Hafurbjarnarstaði geti talist með merkustu minjum Íslands, þá hefur afar lítið verið unnið á þessu sviði. Minjavörður sem hefur starfsaðstöðu á svæðinu getur náð góðum tengslum við heimamenn, veitt ráðgjöf, stuðlað að því að heildarsýn náist og hvatt til þess að vinna í málaflokknum komist vel af stað

Ályktun um minjavörslu samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun vegna byggðakorts.

Til máls tóku Hallgrímur Bogason og Kjartan Már Kjartansson.

Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. október 2001 samþykkir að beina þeim eindregnu tilmælum til iðnaðarráðherra og Byggðastofnunar að nýsamþykkt byggðakort hafi ekki neikvæð áhrif á það farsæla samstarf sem verið hefur um atvinnuráðgjöf og atvinnuþróun á Suðurnesjum í samstarfi við Markaðs-ferða –menningar -og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar og það árangursríka samstarf sem verið hefur milli Byggðastofnunar og Eignarhaldsfélags Suðurnesja.

Ályktun vegna byggðakorts samþykkt samhljóða.

Ályktun um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi
Til máls tóku Jóhann Geirdal, Ómar Jónsson, Kjartan Már Kjartansson, Böðvar Jónsson, Reynir Sveinsson, Skúli Skúlason, Hörður Guðbrandsson.

Jóhann Geirdal lagði fram eftirfarandi tillögu:

“Tillaga um að ályktun um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi verði vísað frá”.

Frávísunartillagan felld.

Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. okt. 2001 lýsir stuðningi við áform um nýtingu orkulinda á Austurlandi til atvinnuuppbyggingar í landshlutanum. Það eru ótvíræðir hagsmunir allra Íslendinga að í landinu sé sem víðast öflugt atvinnulíf og þar með grundvöllur blómlegs mannlífs.

Ályktun um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi samþykkt með meirihluta atkvæða.

Ályktun um drög að nýjum hafnalögum
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 26. og 27. október 2001 telur að ýmsar þær breytingar sem fyrirhugaðar eru í drögum að frumvarpi til nýrra hafnalaga geti orðið afdrifaríkar fyrir margar hafnir í landinu. Fundurinn telur að margar hafnir muni ekki hafa bolmagn til að standa undir nýframkvæmdum og eðlilegum viðhaldsframkvæmdum og verði þar af leiðandi dæmdar úr leik í þeirri samkeppni sem boðuð er með frelsi í gjaldskrármálum. Fundurinn telur að það sé mjög vandasamt verk að hverfa frá samræmdri gjaldskrá hafna og sá aðlögunartími sem frumvarpsdrögin gera ráð fyrir sé alltof skammur.

Fundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórn að undirbúa vandlega breytingar á framtíðarskipan hafnarmála í landinu. Fundurinn leggur þunga áherslu á að fyrir liggi, áður en ný lög eru samþykkt, mat á því hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar muni hafa á einstakar hafnir og flokka hafna, eftir stærð, starfsemi, náttúrulegum aðstæðum og landfræðilegri legu. Einnig skorar fundurinn á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja að í nýjum hafnalögum verði farvegur til að bregðast við áhrifum þeirra breytinga sem ný lög munu fela í sér.

Greinargerð:

Í samgönguráðuneytinu er verið að vinna frumvarp til nýrra hafnalaga. Að mörgu leyti er nauðsynlegt að setja höfnum landsins nýjan lagaramma sem skilgreinir starfsumhverfi þeirra í dag og skyldur þeirra og hlutverk í samgöngukerfi landsins og tryggir tekjuöflun hafnanna í samræmi við skyldurnar. Drög að þessu frumvarpi hafa verið til umræðu á þremur Hafnasambandsþingum nú síðast í Fjarðabyggð 5. og 6. október s.l.

Meginmarkmið með lagasetningunni virðist vera að koma á samkeppnisumhverfi í rekstri hafna. Annarsvegar vegna stefnumörkunar innan ESB og hinsvegar vegna álits Samtaka iðnaðarins um að samræmd gjaldskrá hafna stríði gegn markmiðum samkeppnislaga.
Þessi frumvarpsdrög eru enn í vinnslu og hafa ekki verið afgreidd í þingflokkum og heldur ekki í ríkisstjórn.

Helstu breytingar samkvæmt drögunum eru þær að samræmd gjaldskrá verður afnumin og ríkisframlög verða felld niður nema til viðhaldsdýpkana innan hafna og til viðhalds ytri skjólgarða enda stækki hafnir ekki við það.

Ályktun um drög að nýjum hafnalögum samþykkt samhljóða.

Ályktun um vegamál.
Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 26. og 27. október 2001 skorar á Utanríkisráðuneytið, Varnarmálanefnd og Samgöngunefnd Alþingis að Ósabotnavegur verði samþykktur og komið inn í vegaáætlun sem nú er til endurskoðunar.

Skorað er á þingmenn kjördæmisins að fylgja málinu eftir þannig að framkvæmdir geti hafist hið fyrsta enda raski framkvæmdin ekki öðrum framkvæmdaráformum í vegamálum.

Ályktun um vegamál samþykkt samhljóða.

Tillaga að breyttri framkvæmd samráðsfunda SSS.
Til máls tóku Hallgrímur Bogason, Kjartan Már Kjartansson, Jóhann Geirdal, Ómar Jónsson.

Hallgrímur Bogason lagði fram tillögu um að skoðun á breyttu fyrirkomulagi aðalfunda SSS yrði ekki sent stjórn SSS til skoðunar, heldur tæki núverandi aðalfundur SSS af skarið um hvernig fundarmenn vildu hafa þá í framtíðinni.

Tillaga Hallgríms var felld.

24. aðalfundur SSS haldinn í húsnæði FS 26.-27. október 2001 samþykkir að fela nýkjörinni stjórn að vinna að breytingum á starfi sambandsins. Breytingarnar verði á þá leið að samráðsfundir sbr. 3. gr. samþykktar um SSS verði haldnir reglulega a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Á þeim fundum verði tekin upp þau mál sem snerta hagsmuni sveitarfélaganna á Suðurnesjum og eru ofarlega á baugi hverju sinni. Samráðsfundur að hausti verði jafnframt aðalfundur og standi einn dag nema sérstakar ástæður séu til annars.

Greinargerð:
Með tillögu þessari er leitast við að skapa grundvöll fyrir markvisst samráð sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Með því að stefna að a.m.k. 2 fundum á ári ætti að vera hægt að fjalla um þau mál sem hæst bera hverju sinni en einnig teljum við mikilvægt að sameina, sé það mögulegt, samráðsfund og aðalfundi einstakra stofnanna. Þannig færi t.d. vel á að hefja fund á aðalfundi SS og að honum loknum hefjist svo samráðsfundur um eitthvert málefni. Þannig væri hægt að hugsa sér fleiri dæmi. Með þessu móti væri hægt að fækka fundarkvöldum þó svo öll mál fái sinn sess. Haustfundur verði jafnframt aðalfundur SSS. Með aukinni tíðni samráðsfunda minnkar þörf á tveggja daga löngum aðalfundi. Þá ætti að nægja að halda aðalfund á einum degi.
Í sjálfu sér er ekkert í samþykktum SSS nú sem kemur í veg fyrir að þessi vinnubrögð séu tekin upp og því kæmi vel til greina að stjórnin tæki þessi vinnubrögð upp strax á næsta starfsári, ef hún telur það æskilegt, þó svo ekki séu gerðar breytingar á samþykkt fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, sbr. 3. gr..

Ályktunin samþykkt með meirihluta atkvæða.

Ályktun um brunavarnir og slökkvilið á Suðurnesjum.
Til máls tóku Hallgrímur Bogason, Reynir Sveinsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson, Ólafur Thordersen, Hörður Guðbrandsson, Jóhanna Norðfjörð, Skúli Skúlason, Jóhann Geirdal, Ómar Jónsson og Guðjón Guðmundsson.

Hörður Guðbrandsson lagði fram breytingartillögu um að vísa ályktuninni til stjórnar SSS til skoðunar.
Breytingartillaga Harðar felld.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ þann 26. og 27. október 2001 samþykkir að skipuð verði fimm manna nefnd sem meti kosti og galla þess að sameinast um rekstur eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs, sbr. 14. gr. nýrra laga nr. 75/2000, um Brunamál. Þá kanni nefndin grundvöll fyrir stækkun rekstrareiningar á þjónustusvæði slökkviliða á Suðurnesjum.

Nefndin verði skipuð þremur fulltrúum frá Brunavörnum Suðurnesja, einum frá Sandgerði og einum frá Grindavík.

Rökstuðningur

Við gildistöku nýrra laga nr. 75/2000, um brunamál og mengunarvarnir, sem tóku gildi 1. janúar 2001, eru verkskyldur slökkviliða á landinu stórauknar. Markmið þessara laga er að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit og viðbúnað við mengunaróhöppum á landi. Samkvæmt 16. grein laganna er löggæslulið og aðrir opinberir eftirlitsaðilar undir stjórn slökkviliðsins við eldsvoða og mengunaróhöpp.

Lögin kveða á um að á hverju starfssvæði slökkviliða skuli liggja fyrir brunavarnaráætlun til að tryggja að slökkviliðið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Þá kemur fram í 14. gr. að sveitarfélög geta sameinast um málaflokka slökkviliða s.s. eldvarnaeftirlit, viðbrögð við mengunaróhöppum, slökkvistörf, menntun og þjálfun slökkviliðsmanna, yfirstjórn og fl. Til að standast stórauknar kröfur samfélagsins og auknar kröfur í lögum og reglugerðum hafa slökkviliðin verið að stækka rekstrareiningar og þjónustusvæði og má þar nefna sameiningu slökkviliða í Árnessýslu, Slökkviliðs Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar, Slökkviliðin á Austfjörðum og að lokum Slökkvilið Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Sameining þessi er m.a. gerð í ljósi nýrra krafna um brunavarnaráætlun sveitarfélaga.

Jafnframt er vakin athygli á ákvæði í lögunum um möguleika á að sækja um styrk til Brunamálastofnunar til að kanna hagkvæmni samruna / sameiningar, en umsókn þarf að berast stofnuninni á þessu ári, þ.e. fyrir 31.12. 2001 og samkvæmt eftirfarandi:

“Á árunum 2001 til og með 2005 er Brunamálastofnun heimilt að veita þeim sveitarfélögum tímabundinn fjárstuðning sem sameinast um rekstur eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs, sbr. 14. gr., eftir reglum sem ráðherra setur að fenginni umsögn brunamálaráðs.”

Reglur um úthlutun styrkja hafa verið útgefnar og er árlega um töluverða upphæð að ræða. Grundvallaratriði við úthlutun er að fyrir liggi skriflegur samningur sem Brunamálastofnun hefur samþykkt. Ef samningur verður að veruleika er hægt að sækja um styrk m.a. vegna þjálfunar í viðbrögðum við mengunaróhöppum uppbyggingu á búnaði og fl.

Ályktun um brunavarnir og slökkvilið samþykkt með meirihluta atkvæða.

Ályktun um olíuflutninga.

Hallgrímur Bogasson lagði fram ályktun um olíuflutninga:
Aðalfundur SSS, haldinn í Reykjanesbæ þann 26. og 27. október 2001, skorar á þar til bær stjórnvöld að banna olíuflutninga um Reykjanesbraut og Grindavíkurveg enda unnt að koma olíunni á áfangastað sjóleiðis.
Aðalfundurinn minnir á þá ógn sem vatnsbólum Suðurnesja stafar af olíu-flutningunum landleiðina.

Ályktun um olíuflutninga samþykkt með áorðnum breytingum.

19. Önnur mál.
Enginn kvaddi sér hljóðs undir þessum lið.

20. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Tilnefningar sveitarfélaganna í stjórn S.S.S. 2000

Reykjanesbær:
Aðalmaður: Skúli Þ. Skúlason
Varamaður: Björk Guðjónsdóttir
Grindavíkurbær:
Aðalmaður: Hallgrímur Bogason
Varamaður: Dagbjartur Willardsson
Sandgerðisbær:
Aðalmaður : Óskar Gunnarsson
Varamaður: Sigurður V. Ásbjarnarson
Gerðahreppur:
Aðalmaður: Sigurður Jónsson
Varamaður: Sigurður Ingvarsson
Vatnsleysustrandarhreppur:
Aðalmaður: Þóra Bragadóttir
Varamaður: Jóhanna Reynisdóttir

21. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn: Magnús Haraldsson
Ingimundur Þ. Guðnason
Varamenn: Ellert Eiríksson
Ingólfur Bárðarson

22. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.

Skúli Þ. Skúlason
Hallgrímur Bogason
Óskar Gunnarsson
Guðjón Guðmundsson

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S. Skúla Þ. Skúlasyni orðið sem þakkaði fundarmönnum fundarsetuna og starfsmönnum fundarins vel unnin störf.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

 

______________________
Jóhanna María Einarsdóttir
fundarskrifari.