fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

31. Aðalfundur SSS 11. október 2008

31. aðalfundur S.S.S. haldinn í Gerðaskóla, Garði
laugardaginn  11.  október 2008

Dagskrá:
Kl. 09:00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 09:30 2. Fundarsetning: Oddný Harðardóttir formaður SSS.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Skýrsla stjórnar: Oddný Harðardóttir formaður SSS.
  5. Ársreikningur SSS fyrir árið 2007,
   Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
  6.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Kl. 10:00 7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl 10:15 8. Skýrslur – Menningarráð, Framhaldsskólamál, Atvinnuþróun.
Kl 10:30 9. Almenningssamgöngur á Suðurnesjum.
    Ásmundur Friðriksson verkefnisstjóri
    Hörður Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri Strætó bs
  10. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 12:00     Hádegisverðarhlé.
Kl. 13:00 11.  Ávarp frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála
Ávarp form. Sambands ísl. sveitarfélaga Halldórs Halldórssonar
Ávörp gesta.
Kl: 13:40 12. Orkumál
Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri og formaður verkefnisstjórnar kynnir vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar
Guðmundur I. Ásmundsson aðstoðarforstjóri Landsnets: Landsnet og framtíðarsýn þess á flutningskerfið með sérstakri áherslu á Suðurnes.
Júlíus Jónsson forstjóri HS. Framtíðarsýn  í orkumálum á Suðurnesjum, orkuöflun og markaður.
  13. Fyrirspurnir og umræður.

Kl:15:15    Kaffihlé.
Kl.15:45 14. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
15. Önnur mál.
16. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
17. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
Kl. 17:00 18. Áætluð fundarslit.
Kl. 20:00                    Afmæliskvöldverður  í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Golfskálanum

 

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 34 sveitastjórnarmenn, frá  Reykjanesbæ 8, Grindavík 6, Sandgerði 7,  Sveitarfélaginu Garði 7, Sveitarfélaginu Vogum 6.

Gestir  og frummælendur á fundinum  voru Kristján L. Möller samgönguráðherra, Árni Johnsen alþingismaður, Grétar Mar Jónsson alþingismaður, Róbert Marshall samgönguráðuneytinu, Stefanía Traustadóttir samgönguráðuneytinu, Elín Á. Gunnarsdóttir Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Halldór Halldórsson Sambandi ísl. Sveitarfélaga,  Guðmundur I. Ásmundsson Landsneti, Júlíus Jónsson Heitaveitu Suðurnesja, Hörður Gíslason Strætó bs, Svanfríður Jónasdóttir Rammaáætlun, Jón Guðlaugsson BS, Finnbogi Björnsson DS, Ásmundur Friðriksson Reykjanesbæ, Hjörtur Zakaríasson Reykjanesbæ, Hilmar Bragi Bárðarson Víkurfréttir, Páll Ketilsson Víkurfréttir, Ellert Grétarsson Víkurfréttir, Árni Árnason Tíðindin, 

2. Fundarsetning.
Fundurinn hófst á söng  Unu Maríu Bergmann nemanda Tónlistarskólans í Garði við undirleik Ragnheiðar Skúladóttur.
Oddný Harðardóttir, formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um  Laufeyju Erlendsdóttur  og Einar Jón Pálsson  sem fundarstjóra og voru þau sjálfkjörin.
Uppástunga kom um  Særúnu Ástþórsdóttur sem 1. fundarritara og  Ágústu Ásgeirsdóttur sem 2. fundarritara, vararitarar Brynja Kristjánsdóttir  og Ingimundur Þ Guðnason og voru þau sjálfkjörin.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Laufey Erlendsdóttir þakkaði það traust að fela henni stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Oddný Harðardóttir,  formaður SSS flutti skýrslu stjórnar
“Ágæta samkoma. 
Á 30. aðalfundi SSS sem haldinn var í hátíðarsal Keilis í Reykjanesbæ, þann 10. nóvember 2007 voru eftirtaldir kosnir í stjórn sambandsins:  Birgir Örn Ólafsson Vogum, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir Grindavík sem er ritari stjórnar, Óskar Gunnarsson Sandgerðisbæ, Garðar K. Vilhjálmsson Reykjanesbæ varaformaður SSS og sú sem hér talar Oddný Harðardóttir Garði, sem gengt hefur embætti formanns sambandsins þetta starfsárið.
Stjórnin hélt 12 fundi á starfsárinu.  Mun ég nú stikla á stóru og gera grein fyrir helstu viðfangsefnum stjórnar.
Á seinasta fundi stjórnar SSS á síðasta starfsári var stjórninni afhentar undirskriftir frá 5.169 íbúum á Suðurnesjum.  Textinn sem skrifað var undir er svohljóðandi:  „Við undirritaðir kjósendur á Suðurnesjum skorum á alla sveitarstjórnarmenn á Reykjanesi að leita alla leiða til að tryggja að orkuöflun og sala á vatni og rafmagni verði ekki færð í meirihlutaeign einkaaðila og að tryggt verði að orkuöflun, sala og dreifing á rafmagni verði til frambúðar verkefni Hitaveitu Suðurnesja og að HS verði í meirihlutaeign sveitarfélaganna.“ 
Stjórnin fjallaði ítarlega um málefnið á nokkrum fundum og varð niðurstaðan að lokum sú að athugli var vakin á að Hitaveita Suðurnesja er hlutafélag og lýtur því lögum um hlutafélög.  Hlutir geta því gengið kaupum og sölum.  Ef tryggja eigi að orkuöflun og dreifing á rafmagni og heitu vatni sé í meirihlutaeign sveitarfélaganna til frambúðar, verði það aðeins gert með löggjöf frá alþingi.  Sú varð raunin – alþingi samþykkti í vor breytingar á raforkulögum þannig að samkvæmt þeim gildir um fyrirtæki sem sjá um flutninga og dreifiveitur að þau skuli vera í 2/3 hluta í eigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila.  Nú standa sveitarfélögin á Suðurnesjum hvert um sig frammi fyrir því verkefni að finna út úr hugsanlegi aðkomu þeirra að þessari skiptingu á Hitaveitu Suðurnesja og eignaraðild.
Í fyrravetur voru fundarhöld víða um Suðurnesin og umfjöllun í fjölmiðlum um fjárhagsvanda embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum.  Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri og Ellisif Tinna Víðisdóttir komu á fund stjórnar SSS og fóru yfir málefni embættisins með stjórnarmönnum.  Í kjölfarið sendi stjórnin frá sér ályktun þar sem  minnt var á að þegar sameining lögregluembættanna á Suðurnesjum var kynnt átti hún að styrkja og efla löggæsluna á Suðurnesjum.  Frá þeim tíma hafi fækkað verulega í lögregluliðinu og útlit væri fyrir enn meiri niðurskurð ef ekkert verði að gert til að treysta rekstrargrundvöll embættisins.  Stjórnin vakti einnig athygli á mikilli aukningu á umsvifum í kringum flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli og öryggisgæslu ásamt örri fjölgun íbúa á svæðinu.  Minnt var á ályktun aðalfundar sambandsins um rekstrargrundvöll og húsnæðismál embættisins og óskað eftir því að óvissu sem embættið byggi við yrði eytt sem fyrst.  Skömmu eftir að þessi ályktun var send út hafði dómsmálaráðherra samband við bæjarstjórana á Suðurnesjum þar sem hann sagði frá hugmyndum um uppskiptingu embættisins. 
Í kjölfarið sátu bæjarstjórarnir á tveimur fundum um löggæslumálin með fulltrúum frá dómsmálaráðuneytinu og lögreglu.  Á þeim fundum kom fram sameiginlegur vilji ráðuneytis, lögreglu og bæjarstjóranna um að auka sýnileika rögreglunnar og einnig að unnið yrði að því að bæta tiltrú íbúa á embættinu og öryggistilfinningu. 
Nú hafa orðið breytignar á stjórnun embættisins. Rekstrarvandinn virðist enn ekki hafa lagast og fjöldi lögreglumanna sá sami og á síðasta ári.  Í ályktun sem lögð verður fyrir fundinn seinna í dagskrá þessa aðalfundar er þess krafist að rekstrargrundvöllur embættisins sé þannig að lögreglan hafi a.m.k. sama fjölda lögreglumanna og var fyrir sameiningu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og lögreglunnar í Keflavík.  Einnig er farið fram á við nýja stjórnendur að samráð verði haft við sveitarfélögin á Suðurnesjum um bætta þjónustu.
Rekstrarvandi annarrar ríkisstofnanar hefur ekki síður valdið sveitarstjórnarmönnum áhyggjum, þ.e. rekstrarvandi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.  Stjórn SSS hefur á árinu átt fundi með Sigríði Snæbjörnsdóttur forstjóra stofnunarinnar, einni og sér og með öðrum stjórnendum HSS.  Stjórnin eða fulltrúar stjórnar hafa átt fundi með heilbrigðisráðherra, embættismönnum í heilbrigðismálaráðuneytinu og þingmönnum Suðurkjördæmis um málefnið.  Málin eru í stuttu máli þannig vaxin að allt frá árinu 2002 hefur mikið og gott uppbyggingarstarf átt sér stað á Heilbrigðistofnun Suðurnesja og fyrir það erum við þakklát.  Nú blasir hins vegar við ef ekki verður gripið til ráðstafanna, að sú góða uppbygging muni hrynja að stórum hluta.  Íbúar á Suðurnesjum munu ekki sætta sig við skerta þjónustu.  Aukin þjónusta í heimabyggð er staðfest stefna Heilbrigðisstofnunarinnar frá árinu 2004 og voru þingmenn Suðurkjördæmis beðnir um að vinna að því að frá þeirri stefnu verði ekki vikið.
Miklar breytingar hafa orðið á þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja síðustu ár og íbúum fjölgað á svæðinu um 22,7% frá árinu 2005.  Ljóst má vera að umtalsverð aukning á eftirspurn eftir þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar hlýtur að fylgja í kjölfarið á slíkri fólksfjölgun.  Nauðsynlegt er því að uppfæra útreikninga á kostnaði við heilbrigðisþjónustu á svæðinu miðað við fjölda íbúa.  Það er mjög mikilvægt að staðinn sé vörður um starfsemi stofnunarinnar og þess sé gætt í fjárlögum að nægt rekstrarfé sé veitt til heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn.  Stjórn SSS er bjartsýn á að vandi stofnunarinnar verði leystur nú með fjáraukalögum og til framtíðar í komandi fjárlögum.
Mikil umræða var um tíma um að viðskipti Þróunarfélags sem unnið hefur að uppbyggingu á fyrrum varnarsvæði væru ekki eins og best skyldi.  SSS á einn fulltrúa í þriggja manna stjórn félagsins.  Eftir opinbera skoðun kom í ljós að vel hafði verið á málum haldið við að breyta fyrrum varnarstöð í lifandi þjónustu- og vísindasamfélag.  Stjórnin lagði áherslu á í ályktum sínum um málið að svæðið verði uppspretta nýrra hugmynda og atvinnutækifæra og fái að njóta jákvæðrar kynningar og hvatningar í samfélaginu.  Það hefur gengið eftir og enn frekar er unnið að fjölgun atvinnutækifæra við alþjóðaflugvöll og nú með þátttöku ríkisins og fulltúum allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum.  Skrifað var undir viljayfirlýsingu þessara aðila og í henni kemur fram að stefnt skuli að gerð samstarfssáttmála þar sem þróunarsvæði verði skilgreint, afmörkuð verði sú atvinnustarfsemi sem laða eigi að svæðinu, ákveðið hvernig kostnaði og tekjum verður skipt og skipulagsmál samhæfð.  Fyrirmynd uppbyggingarinnar er umhverfi Skiphólsflugvallar en þar hefur samvinna aðliggjandi sveitarfélaga og samgönguyfirvalda í Hollandi gengið afar vel.

Almenningssamgöngur hafa verið umfjöllunarefni stjórnar og í mars var samþykkt að SSS fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum fari þess á leit við Vegagerðina að fá einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur með bifreiðum á Suðurnesjum til og frá höfuðborgarsvæðinu, þegar núverandi sérleyfi rennur út í árslok 2008.  Fulltrúar úr stjórn ásamt  framkvæmdarstjóra funduðu með Vegagerðinni og nú standa málin þannig að Ásmundur Friðriksson hefur verið ráðinn til SSS sem verkefnastjóri um málið.  Vonir standa til að efla megi til muna almenningssamgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu og einnig á milli bæja á Suðurnesjum, þannig að  almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur fyrir íbúa.  Nánar verður rætt um þetta verkefni hér á eftir.
Mikil gerjun hefur verið í menntamálum á svæðinu og á landinu öllu með nýjum skólalögum.  SSS hefur haft milligöngu um framkvæmd kynningarfunda á vegum menntamálaráðuneytisins og fleiri um breytingarnar og málefni framhaldsskólastigsins hafa verið til umræðu innan stjórnar SSS.  Blásið var til sambandsfundar í lok apríl þar sem dr. Jón Torfi Jónasson ræddi um þróun framhaldsskólastigsins almennt og síðan lýstu fulltrúar Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Grindavíkurbæjar og Keilis sýn sinni á þróunina hér á Suðurnesjum.  Skólameistari FS lýsti hugmyndum um stækkun skólans, Garðar Páll Vignisson sagði frá áformum Grindavíkurbæjar um Menntaskóla Grindavíkur og Hjálmar Árnason sagði frá námsframboði Keilis á framhaldsskólastigi fyrir 18 ára og eldri.  Miklar umræður spunnust meðal fundarmanna og segja má að niðurstaðan hafi verið sú að upplýsingastreymi á milli þeirra sem hafa uppi áform um að bjóða námstilboð á framhaldsskólastigi þyrfti að vera gott og við SSS einnig.  Við uppbyggingu þessa skólastigs yrði hagur heildarinnar ávallt hafður að leiðarljósi.  Á stjórnarfundi í maí voru málin ennfremur rædd.  Á fundinum kom m.a. fram að í vaxandi sveitarfélögum sé nauðsynlegt að huga vel að þróun framhaldsskólastigsins og að stjórnin legði áherslu á að samráð og samvinna sé á milli þeirra aðila sem hafa hug á að bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi.  Mikilvægt sé að nemendur njóti góðs af þróuninni og að þess verði gætt að sú uppbygging sem orðið hefur á undanförnum árum styrkist með fleiri framhaldsskólum.  Til þess að stuðla að því að svo megi verða var samþykkt að samráðsvettvangur yrði búinn til með tveimur fulltúum frá SSS, einum frá FS, einum frá Grindavík og einum frá Keili. 
Á fundi sínum þann 8. febrúar sl. lagði stjórnin til við sveitarfélögin að hafin yrði vinna við endurskoðun á Svæðisskipulagi Suðurnesja 1987 – 2007. Í kjölfarið voru tilnefndir tveir fulltrúar frá hverri sveitarstjórn og einn frá Skipulagsstofnun í samvinnunefnd í samræmi við skipulagslög.  Nefndin hefur sem ráðgjafana Helgu Bragadóttur frá Kanon arkitektar og Stefán Gunnar Thors frá VSO.
Skipulaginu er ætlað að taka til áranna 2008 – 2024. Mjög miklar breytingar hafa orðið á svæðinu frá 1987, m.a. mikil fólksfjölgun, breytingar á flugvallarsvæðinu og breytingar á atvinnuháttum. Málaflokkar sem skipulagið kemur til með að taka til eru samgöngur og veitur, byggð, atvinna, verndarsvæði og sérstaða Suðurnesja.
Sérstaða okkar felst m.a. í mikilli fólksfjölgun en nú eru íbúar á Suðurnesjum um 21.700 en í lok skipulagstímabilsins 2024 gera áætlanir sveitarfélagann ráð fyrir að íbúar verði 34.600. Sérstaðan felst einnig í nægu landrými, orku, góðum samgöngum, alþjóðaflugvelli, höfnum og ferðaþjónustu. Við þurfum í þessari vinnu að bera saman áform, skoða samlegðaráhrif og forgangsraða og nýta styrkleika og sérstöðu hvers sveitarfélags.
Starf nefndarinnar er farið vel af stað og verður reynt að hraða þeirri vinnu sem kostur er.
Á starfsárinu var gerður samningur við Þroskahjálp á Suðurnesjum um að styrkja starfsemi Ragnarssels. Þar eru nú 17-19 börn á aldrinum 1 – 16 ára í dagvistun og hefur fjölgað um þriðjung á þessu ári. Samþykkt var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2008 að veita í verkefnið 10 milljónum kr. á þessu ári. Samningurinn var tilraunaverkefni til eins árs og ætlað að mæta aukinni þjónustuþörf við fatlaða á Suðurnesjum.  Nú hefur borist beiðni um áframhaldandi styrk fyrir næsta ár.
Þá var einnig gerður samningur við Björgina – geðræktarmiðstöð Suðurnesja. Markmiðið með samningum er að efla þjónustu við geðfatlaða á Suðurnesjum í samstarfi við ríki, svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Annars vegar með rekstri athvarfs og hins vegar með geðteymi til að styðja fólk á Suðurnesjum með geðfötlun eða geðröskun, til þátttöku og virkni í athöfnum daglegs lífs og draga úr sjúkrahúsinnlögnum. Samningsupphæðin var 12 milljónir króna fyrir árið 2008.  Björgin hefur einnig óskað eftir áframhaldandi samningi fyrir næsta ár.
Bæði þessi samstarfsverkefni hafa tekist mjög vel.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum undirrituðu 3. maí 2007 samning við menntamálaráðherra og fjármálaráðherra um samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum um menningarmál. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Suðurnesjum og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum við slíkt starf í einn farveg.
Þann 11. apríl s.l. úthlutaði Menningarráð Suðurnesja til 39 menningarverkefna á Suðurnesjum, samtals að upphæð 17 milljónir króna. Hæstu styrkirnir námu 1,0 milljón króna en þeir lægstu 100 þúsund krónum. Alls bárust menningarráðinu 57 styrkumsóknir við þessa fyrstu úthlutun.  Garðar Vilhjálmsson formaður menningarráðs mun gera grein fyrir starfi  ráðsins hér á eftir.

Í ályktun frá seinasta aðalfundi voru tilmæli um að vekja náttúruverndarnefnd SSS af værum svefni.  Stjórnin hefur farið ítarlega yfir hlutverk og störf náttúruverndarnefndar og stjórn SSS sér ekki ástæðu til að endurverkja nefndina.  Á Suðurnesjum eru starfandi nefndir í öllum sveitarfélögunum sem hafa það hlutverk sem náttúruverndarnefndinni er ætlað.  Ekki er áhugi hjá sveitarstjórnum að færa verkefni þessara nefnda yfir í eina sameiginlega nefnd.

Stjórnin hefur á starfsárinu fengið fjölmörg mál inn á sitt borð auk lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna til umsagnar sem ekki er unnt að nefna í stuttri skýrslu og læt ég því staðar numið og fjalla ekki um fleiri málefni starfsársins.
Ágætu fundarmenn. 
Ég hef alltaf verið talsmaður samvinnu sveitarfélaga á Suðurnesjum og get fullyrt að aldrei hefur verið minnst á annað en samvinnu þeirra í stjórn SSS þetta starfsárið.  Nú finnst mér enn frekar en áður að þörf sé fyrir að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum snúi bökum saman og vinni að heildarhagsmunum svæðisins.  Uppbygging atvinnutækifæra er þar efst á blaði en einnig þurfum við að standa saman um að styrkja innviði samfélagsins og hnýta net samhjálpar.  Það er trú mín að starf Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum muni eflast enn á næsta starfsári og aukin samvinna sveitarfélaganna sé eitt af gæfusporum Suðurnesjamanna til framtíðar.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur starfað í 30 ár og Guðjón Guðmundsson framkvæmdarstjóri SSS á nú 20 ára starfsafmæli.  Stjórnin vill nota þetta tækifæri til að þakka Guðjóni fyrir vel unnin störf og biðja hann um að koma hingað upp og taka við þakklætisvotti frá okkur.  Sjálf vil ég þakka Guðjóni sérstaklega fyrir samstarfið og alla þá aðstoð og leiðbeiningu sem hann hefur veitt formanni stjórnar SSS á starfsárinu sem er að líða.
Að lokum vil ég þakka stjórnarmönnum gott samstarf og starfsfólki skrifstofu sambandsins fyrir samvinnu, þolinmæði og einstaklega góða viðkynningu”.

5. Ársreikningar SSS fyrir árið 2007.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S  Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

7. Tillögur og ályktanir.
Laufey Erlendsdóttir flutti tillögur stjórnar að ályktun um efnahagsástand, ályktun um orkuflutning á Suðurnesjum, ályktun um þróum atvinnumála á Keflavíkurflugvelli,  ályktun um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga,  ályktun um samgöngumál, ályktun um framhaldsskóla á Suðurnesjum, ályktun um löggæslumál, ályktun um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum,  ályktun um öldrunarþjónustu á Suðurnesjum, ályktun um rekstur og fjárhagsstöðu hafna,  ályktun um skráningu raforkuflutningsmannvirkja í Landsskrá fasteigna,  ályktun um samstarf sorpsamlaga á Suðvestur horni landsins, ályktun um umferðarmiðstöð í Reykjavík og  kveðju til Þórðar Skúlasonar.

8. Skýrslur – Menningarráð,  Atvinnuþróun.

Berglind Kristinsdóttir, atvinnuráðgjafi SSS   fór m.a. yfir þau fjölmörgu verkefni sem atvinnuráðgjafi hefur sinnt á  árinu.

Garðar K. Vilhjálmsson flutti skýrslu menningarráðs þar sem kom m.a. fram að 57 umsóknir komu um styrki og  úthlutað var til 39 verkefna.

9. Almenningssamgöngur á Suðurnesjum.

Hörður Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri Strætó bs. sagði frá reynslu  Strætó bs. af almenningssamgöngum og  upplýsti að stórbætt þjónusta Strætó bs. á árinu  hafi ekki skilað sér í  aukningu í farþegafjölda.

Ásmundur Friðriksson verkefnisstjóri kynnti  hugmyndir um almenningssamgöngur frá Suðurnesjum til Reykjavíkur.

10. Fyrirspurnir og umræður.
Til máls tóku Garðar Páll Vignisson,  Ásmundur Friðriksson, Einar Jón Pálsson, Hörður Gíslason, Guðjón Guðmundsson, Árni Sigfússon.

Hádegisverðarhlé..

Einar Jón Pálsson tók við stjórn fundarins.

11. Ávarp frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála
Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti fundinum kveðjur frá Björgvin Sigurðssyni viðskiptaráðherra og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra. Hann ræddi þann vanda sem nú steðjar að þjóðinni og sagði að byggja yrði upp fjármálakerfi landsins alveg frá grunni og að unnið væri að því að gera Lánasjóð sveitarfélaganna undanskilin lánshæfismati Seðlabankans til að hann ætti betri aðgang að lánsfé frá lífeyrissjóðunum.  Einnig  ræddi hann um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaganna einnig um   stærð og sameiningu sveitarfélaga.

12.  Fyrirspurnir  og umræður.
Til máls tóku Árni Sigfússon,  Guðbrandur Einarsson og  Kristján L. Möller.

13.      Orkumál.

Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri og formaður verkefnisstjórnar kynnti vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrsvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.

Guðmundur I.  Ásmundsson aðstoðarforstjóri Landsnets sagði m.a. frá  starfsemi Landsnets og framíðarsýn þess á flutningskerfið með sérstakri áherslu á Suðurnes.

Júlíus Jónsson forstjóri HS ræddi m.a. um jarðvarmasvæðin á Reykjanesi,  framtíðarsýn í orkumálum á Suðurnesjum þ.e. virkjunaráform og humyndir á næstu misserum.

Fyrirspurnir – umræður og afgreiðslur.
Til máls tóku Inga Sigrún Atladóttir, Guðmundur I. Ásmundsson, Svanfríður Jónasdóttir,  Guðjón Guðmundsson.

Halldór Halldórsson  formaður  Sambands ísl. Sveitarfélaga ávarpaði fundinn og ræddi ma. um Lánasjóð sambands íslenskra sveitarfélaga og breytt fjármálaumhverfi eftir hrun bankanna.

Kaffihlé

Laufey Erlendsdóttir tók við stjórn fundarins.

14.  Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Ályktun um efnahagsástand
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 fullvissar Suðurnesjamenn um að sveitarfélögin fimm munu snúa bökum saman og vinna að heilum hug að því að efla atvinnuuppbyggingu og styrkja stoðir samfélaganna enn frekar í þeim efnahagserfiðleikum sem Íslendingar glíma nú við.  Framtíðin er björt og öll skilyrði til staðar til að gott mannlíf megi blómstra á Suðurnesjum hér eftir sem hingað til.
Til máls tóku Sigurður Valur Ásbjarnarson og Oddný Harðardóttir.
Ályktun um efnahagsástandið samþykkt samhljóða.
Ályktun um orkuflutning á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélagsinu Garði 11. október 2008 leggur þunga áherslu á að öryggi orkuflutnings að og frá Suðurnesjum verði tryggt og að næg flutningsgeta verði til staðar fyrir ný atvinnutækifæri á svæðinu.  Greiðar og öruggar flutningsleiðir orku er ein af megin forsendum uppbyggingar á svæðinu og frekari orkuframleiðslu og því mjög brýnt að sem fyrst verði allri óvissu eytt varðandi þau mál.
Til máls tóku Garðar P. Vignisson, Guðjón Guðmundsson og Hörður Harðarson.
Ályktun um orkuflutning á Suðurnesjum samþykkt samhljóða.
Ályktun um þróun atvinnumála á Keflavíkurflugvelli
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 lýsir ánægju sinni með viljayfirlýsingu bæjarfélaganna á Suðurnesjum og forsætisráðuneytis, samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis um samstarf um atvinnuþróun í nágrenni Keflavíkurflugvallar.  Samstarfið byggir á þeirri sérstöðu sem felst í nálægð alþjóðaflugvallarins.  Stefnt er að því að auka enn frekar samstarf ríkis og sveitarfélaga varðandi uppbyggingu á svæðinu, auk þess sem gert er ráð fyrir öflugri aðkomu Keflavíkurflugvallar ohf. sem tekur til starfa um næstu áramót. Lykilatriði er að ríki og félög og stofnanir í þess eigu annars vegar og sveitarfélög hins vegar vinni saman að því að laða nýja fjárfesta að svæðinu. Reynsla erlendis frá sýnir að þannig geta alþjóðlegir flugvellir orðið mikilvægur aflvaki hagvaxtar. Umhverfis Keflavíkurflugvöll er eitt stærsta ónýtta landsvæði í nágrenni alþjóðaflugvallar í Evrópu og skilyrði til vaxtar og þróunar því einstök.

Í viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga kemur fram að stefnt skuli að gerð samstarfssáttmála þar sem þróunarsvæði verði skilgreint, afmörkuð verði sú atvinnustarfsemi sem laða eigi að svæðinu, ákveðið hvernig kostnaði og tekjum verður skipt og skipulagsmál samhæfð.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum bindur miklar vonir við að vel takist til við gerð samstarfssáttmálans og með honum náist að tryggja hagsmuni allra aðila. Áætlun verði gerð í kjölfarið um vöxt og nýtingu svæðisins sem styrki enn frekar undirstöður góðs mannlífs á Suðurnesjum og efli um leið alþjóðaflugvöll landsmanna.

Ályktun um þróun atvinnumála á Keflavíkurflugvelli samþykkt samhljóða.

Ályktun um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 leggur ríka áherslu á að ríkisvaldið fresti innheimtu fjármagnstekjuskatts vegna sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, vegna óvissu um efnahagsástandið til að tryggja velferð íbúa og atvinnufyrirtækja á svæðinu. Komi hins vegar til innheimtu nú þá muni fjármagnstekjuskatturinn og þeir fjármunir sem urðu til vegna sölu ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og sölu ríkisins af eignum á Keflavíkurflugvelli renna til uppbyggingar á Suðurnesjum þar sem mörg krefjandi verkefni eru enn óunnin. Áhersla er lögð á að samráð sé haft við sveitarfélögin á Suðurnesjum við val á verkefnum og úthlutun fjármagns.
Aðalfundurinn tekur heilshugar undir yfirlýsingu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 22. ágúst 2008.  Í yfirlýsingunni leggur stjórnin áherslu á að gengið verði frá samkomulagi um eftirfarandi:
– Sérstakt aukaframlag ríkissjóðs, 1.400 m.kr., verði áfram greitt í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
– Lög um fjárhagslegan stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði framlengd.
– Varasjóði húsnæðismála verði tryggðir fjármunir til að gegna hlutverki sínu.
– Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði tryggðir fjármunir til að styðja við frekari sameiningu sveitarfélaga.
– Fjármunir til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði hjá sveitarfélögum verði tryggðir.
– Hlutdeild ríkisins í endurgreiðslu á kostnaði sveitarfélaga við refa- og minkaveiðar verði hækkuð.
– Teknar verði upp viðræður ríkisstjórnarinnar og sambandsins um þátttöku ríkissjóðs í rekstri almenningssamgangna og hætt verði skattheimtu ríkisins af þeim rekstri.

Fundurinn leggur áherslu á að hætt verði við fyrirhugaða lagasetingu á Alþingi um að lækka álagningarprósentu úr 1,32% í 0,88% á fasteignir sem áður voru undanþegnar fasteignaskatti.

Fundurinn telur einnig að með setningu ýmissa laga og reglugerða hafi verið auknar kröfur gerðar til sveitarfélaganna án þess að tekjustofnar hafi komið á móti. Fundurinn krefst þess að lagasetning Alþingis verði kostnaðarmetin og fjármagn fylgi ávallt með nýjum verkefnum.

Til máls tóku Oddný Harðardóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson.
Ályktun um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga samþykkt  með áorðnum breytingum
Ályktun um samgöngumál
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 leggur áherslu á við Alþingi að staðið verði við áður gefin loforð og að lokið verði við gerð Suðurstrandarvegar eigi síðar en 2009. Vegurinn er nauðsynleg tenging á milli atvinnusvæða og um leið mikilvæg vegtenging innan Suðurkjördæmis.
Fundurinn telur einnig mikilvægt að ljúka við breikkun á Grindavíkurvegi, Sandgerðisvegi og að hafist verði handa við breikkun Garðskagavegar og Vogaafleggjara. Mikil aukning umferðar á þessum vegum kallar á lausn hið fyrsta. Þá vill fundurinn benda á mikilvægi þess að lýsa upp stofnvegi á Suðurnesjum.
Fundurinn skorar á yfirvöld að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar auk ráðstafanna vegna reiðvega og umferðar hjólreiðafólks. Einnig að unnið verði að mislægum gatnamótum og vegtengingum við nýja byggð á Vallarheiði, áður herstöð, til að fyrirbyggja mikla slysahættu á Reykjanesbrautinni sem skapast þegar svæðið er tekið til almennings nota.
Aðalfundurinn skorar á yfirvöld að vinna með Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum að bættum almenningssamgöngum á milli bæja á Suðurnesjum og til höfuðborgarsvæðisins.  Fundurinn hvetur ríkisstjórn og Samband íslenskra sveitarfélaga eindregið til að taka upp viðræður sem fyrst um þátttöku ríkissjóðs í rekstri almenningssamgangna og að skatttöku verði hætt af þeim rekstri.
Fundurinn leggur til að hugað verði að vegi sem nær frá Fitjum í Reykjanesbæ til Grindavíkur.  Vegurinn styttir leiðina á milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar og tengir atvinnusvæðin á Suðurnesjum enn betur saman.
Aðalfundur SSS fagnar fækkun slysa á Reykjanesbrautinni eftir að hluti hennar var tvöfaldaður og leggur áherslu á að umferðaröryggismál hafi forgang í vegaframkvæmdum.

Til máls tóku Garðar P. Vignisson, Einar Jón Pálsson, Oddný Harðardóttir og Ólafur þór Ólafsson.
Ályktun um samgöngumál samþykkt samhljóða.
Ályktun um framhaldsskóla á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 telur tímabært að tekin verði ákvörðun um málefni framhaldsskólastigsins á Suðurnesjum. Fundurinn styður áform um framhaldsskóla í Grindavík og leggur áherslu á áframhaldandi uppbyggingu framhaldsskóla í Reykjanesbæ.  Fundurinn telur brýnt að við stofnun skóla á svæðinu, hvort sem um einkaskóla eða ríkisrekna skóla verði að ræða, sé þess gætt að fjölbreytni námsframboðs verði aukið frá því sem nú er og samkeppni milli skóla verði til þess að allt skólastarf styrkist.  Þá má í þessu samhengi minna á þá miklu fólksfjölgun sem á sér stað á svæðinu öllu sem leiðir til þess að eftirspurn eftir námsvist á framhaldsskólastigi hefur aukist svo um munar.
Ályktun um framhaldsskóla á Suðurnesjum samþykkt samhljóða.
Ályktun um löggæslumál
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 telur mjög mikilvægt að treystur verði rekstrargrundvöllur löggæslu á Suðurnesjum þannig að embættið hafi styrk til að sinna sem skyldi þjónustu og lögregluverkefnum á svæðinu. Verkefnin hafa stóraukist á undanförnum árum vegna fjölgunar íbúa á Suðurnesjum og auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli.  Algjört skilyrði er að rekstrargrundvöllurinn sé þannig að lögreglan hafi a.m.k. sama fjölda lögreglumanna og var fyrir sameiningu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og lögreglunnar í Keflavík, en í dag vantar mikið upp á að svo sé. 
Fundurinn leggur áherslu á að undirbúningur að byggingu húsnæðis fyrir aðalstöðvar lögreglunnar á Suðurnesjum verði flýtt og bygging þess verði að fullu lokið eigi síðar en árið 2010. Þar með verði starfssemin komin undir eitt þak en húsnæðismálin eru nú  í miklum ólestri.
Lögð er áhersla á að áform um aukið forvarnarstarf lögreglu í Garði, Sandgerði og Vogum verði að veruleika sem fyrst.  Þá treystir fundurinn því að fyrirhuguðar  breytingar á embættinu komi ekki niður á gæðum þjónustunnar og að samráð verði haft við sveitarfélögin á Suðurnesjum um bætta þjónustu.
Til máls tók Ólafur Thordersen.
Ályktun um löggæslumál samþykkt samhljóða.
Ályktun um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS, haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja örugga og góða þjónustu HSS við alla íbúa Suðurnesja. Gríðarleg fjölgun íbúa hefur verið á Suðurnesjum á síðustu árum og virðist ekkert lát vera á. Opinber þjónusta á borð við heilsugæslu og sjúkrahússtarfsemi verður að taka mið af slíkum samfélagsbreytingum og auka starfsemi stofnunarinnar samhliða fjölgun íbúa, bæði í aðalstöðvum í Reykjanesbæ sem og í útibúum/selum í öllum öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Í því samhengi er auk öflugri grunnþjónustu, sólarhringsvakt á skurðstofum krafa sveitarstjórna á Suðurnesjum. Nauðsynlegt er að stofnunin fái aukið fjármagn til reksturs ársins 2008 og einnig til framtíðar, svo tryggja megi góða heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn.
Ályktun um heilbrigðisþjónustu samþykkt samhljóða.
Ályktun um öldrunarþjónustu á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS, haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 bendir á að enn hefur lítið þokast varðandi byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ. Nýjar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hröðun á uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma víðs vegar um landið gefa þó vonir um að framkvæmdir geti farið að hefjast fljótlega.
Sveitarstjórnir á Suðurnesjum ítreka vilja sinn sem fram kom á aðalfundi SSS á síðasta ári um að þær séu tilbúnar til þess að koma að samningum við ríkisvaldið um fjármögnun og framkvæmdir þannig að uppbygging geti orðið hraðari en ella yrði. 
Íbúar Suðurnesja geta ekki sætt sig við frekari frestun framkvæmda og skorar aðalfundur SSS á félagsmála- og heilbrigðisráðherra að koma málum í þann farveg að framkvæmdir geti hafist strax. Þá leggur aðalfundurinn áherslu á áframhaldandi og vaxandi starfsemi Víðihlíðar í Grindavík og Garðvangs í Garði og að lagfæringar verði gerðar, þannig að stofnanirnar uppfylli eðlilegar kröfur um rými og aðstöðu heimilismanna.

Til máls tók Garðar P. Vignisson.

Ályktun um öldrunarþjónustu samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um rekstur og fjárhagsstöðu hafna

Aðalfundur SSS, haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008,  skorar á ríkisvaldið að bregðast þegar við miklum fjárhagsvanda hafna landsins og þó sérstaklega hafna á Suðurnesjum.  Rekstur hafnasjóða vítt og breytt um landið er óviðunandi og hafa safnast upp miklar skuldir og vísast hér í niðurstöður og tillögu á 36. hafnasambandsþingi sem haldið var daganna 25. og 26. september sl.
Í ljósi niðurskurðar á aflaheimildum og í ljósi efnahagsástands er nauðsynlegt að ríkisvaldið mæti miklum rekstrar og skuldavanda hafnanna með sérstöku framlagi til þeirra.  Lögð er áhersla á að í sértækum aðgerðum verði mið tekið af áhrifum vegna kvótaskerðingar á löndunarhafnir og sveitarfélög á svæðinu.
Ályktun um rekstur og fjárhagsstöðu hafna samþykkt samhljóða.
Ályktun um skráningu raforkuflutningsmannvirkja í Landsskrá fasteigna
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélagsinu Garði 11. október 2008 telur óeðlilegt að undanskilja raforkuflutningsmannvirki mati og skráningu í Landskrá fasteigna. Undanþágan hefur eflaust tengst því að flutningur raforku um landið var talin varða hagsmuni allra landsmanna jafnt, enda var verið að byggja upp kerfi fyrir heimilin og fyrirtæki í landinu almennt. Flutningsmannvirki raforku fyrir almennan heimilis- og fyrirtækjarekstur er að stórum hluta neðanjarðar, enda er það stefna orkuflutningsfyrirtækisins Landsnets að koma öllum loftlínum með lægri spennu í jörð.
Undanfarin ár hefur færst í vöxt að flutningsmannvirki fyrir raforku séu reist sérstaklega fyrir einstök atvinnufyrirtæki eða verkefni og því um sértæka framkvæmd að ræða frekar en almenna. Samhliða þeirri þróun hefur spenna á línum hækkað, sem kallar á stærri, umfangsmeiri og landfrekari mannvirki. Mannvirkin hafa eðli málsins samkvæmt mikil áhrif á umhverfi og skipulag þeirra sveitarfélaga sem um ræðir og dregur úr nýtingarmöguleikum lands þeirra.
Undanþágum frá fasteignamati hefur fækkað jafnt og þétt og er skemmst að minnast þess að undanþága heilbrigðisstofnanna og annarra fasteigna ríkissjóðs var felld niður árið 2005.
Til máls tóku  Einar Jón Pálsson og Guðjón Guðmundsson.
Ályktun um skráningu raforkuflutningsmannvirkja í Landsskrá fasteigna samþykkt  með áorðnum breytingum
Ályktun um samstarf sorpsamlaga á Suðvestur horni landsins
Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 bendir á að auknar kröfur um meðhöndlun úrgangs kallar á öflugt samstarf sveitarfélaga til að leita bestu lausna og nýta hagkvæmni stærðarinnar.  Mikilvægt er að sem flest sveitarfélög vinni saman að lausn einstarkra verkefna innan málaflokksins. Stefnt skal að aukinni  efnisvinnslu og flokkun hjá öllum sorpsamlögunum á Suðvestur horni landsins og að byggðar verði upp móttöku og umhleðslustöðvar á svæðunum og jarðgerðarstöðvar eftir því sem hagkvæmni leyfir. 
Niðurstöður verkefnisstjórnar sem vinnur að svæðisáætlun 34 sveitarfélaga með um 251 þúsund íbúa, benda eindregið til þess að hagkvæmast fyrir svæðið í heild sé sameiginleg lausn um meðhöndlun úrgangs. 
Fundurinn leggur áherslu á að unnið sé ákveðið að sameiginlegri lausn SORPU bs, Sorpstöðvar Suðurlands bs, Sorpurðunar Vesturlands hf og Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á meðhöndlun úrgangs til framtíðar. 
Til máls tók  Ólafur Thordersen.
Ályktun um samstarf sorpsamlaga á Suðvestur hroni landsins samþykkt samhljóða.
Kveðja til Þórðar Skúlasonar

Aðalfundur SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði 11. október 2008 þakkar Þórði Skúlasyni fráfarandi framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir farsæl og vel unnin störf í þágu sveitarfélaga á Íslandi og ánægjuleg samskipti.  Aðalfundurinn óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Samþykkt  samhljóða.

Ályktun um umferðarmiðstöð í Reykjavík

Aðalfundur  SSS haldinn í Sveitarfélaginu Garði,  11. október 2008, ályktar  að gerð verði sú krafa á samgönguyfirvöld á Íslandi að þau komi að rekstri  umferðarmiðstöðvar  í Reykjavík þannig að umferðarmiðstöð verði sá staður sem að sameinar brottfarar- og áfangastað fyrir allar áætlunarferðir út  frá  Reykjavík  og þar á meðal á Suðurnesin. Það hlýtur að vera eðlileg krafa  fyrir  notendur  almenningssamgangna að í höfuðborg landsins sé einn ákveðinn  staður  þar  sem  að  notendur  geta  treyst  á  að  fá allar þær
upplýsingar   og  þjónustu  sem  að  tilheyra  almenningssamgöngum  út  frá höfuðborgarsvæðinu.  Aðalfundur  SSS gerir einnig þá kröfu að gjaldtöku fyrir þjónustu umferðarmiðstöðvar verði stillt í  hóf  þannig að ekki komi til verulegrar hækkunar á fargjöldum notenda. Sambandið vinnur  að  því að gera áætlunarferðir milli höfuðborgarsvæðis og Suðurnesja að  ódýrum og vænlegum kosti fyrir þá sem að þurfa að ferðast milli þessara staða enda hlýtur það að vera þjóðhagslega hagkvæmt og umhverfisvænt að efla almenningssamgöngur.

Til máls tók Einar Jón Pálsson.

Ályktun um umferðarmiðstöð í Reykjavík samþykkt með óorðnum breytingum.

15.Önnur mál.
Enginn tók til máls undir þessum lið.

16.Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær
  Aðalmaður: Garðar K. Vilhjálmsson
  Varamaður: Guðný Ester Aðalsteinsdóttir

Grindavíkurbær:
  Aðalmaður: Petrína Baldursdóttir
  Varamaður: Gunnar Már Gunnarsson

Sandgerðisbær:
  Aðalmaður Óskar Gunnarsson
  Varamaður: Sigurður Valur Ásbjarnarson

Sveitarfélagið Garður:
  Aðalmaður: Oddný Harðardóttir
  Varamaður: Laufey Erlendsdóttir

Sveitarfélagið Vogar
  Aðalmaður; Birgir Örn Ólafsson
  Varamaður: Róbert Ragnarsson

17. Kosnir 2 skoðunarmenn reiknga og 2 til vara.

Aðalmenn Hjörtur Zakaríasson
  Dóróthea Jónsdóttir

Varamenn Sigurbjörg Eiríksdóttir
  Brynja Kristjánsdóttir

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Oddnýju Harðardóttir orðið sem þakkaði fundarmönnum fundarsetuna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.50

     _____________________________
     Jóhanna M. Einarsdóttir
     fundarskrifari.